Fjóla Benediktsdóttir fæddist á Þórkötlustöðum í Grindavík 17. janúar 1921. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Garðvangi hinn 27. september 2011.

Hún var dóttir Benedikts Benónýssonar frá Þórkötlustöðum í Grindavík, f. 21. júlí 1894, d. 29. júní 1953, og Magnúsu Aðalveigar Ólafsdóttur úr Grindavík, f. 23. september 1902, d. 26. október 1987. Systkini Fjólu eru: Þórlaug, f. 25 apríl 1923, látin 19. september 2001, Ólöf, f. 14. mars 1927, látin 24. september 2007, Benóný, f. 28. maí 1928, Jóhann Ragnar, f. 14. nóvember 1930, Ólöf Sigurrós, f. 3. október 1934 og Elsa, f. 20. mars 1938. Foreldrar hennar voru bæði með búskap og útróðra ásamt Guðmundi bróður Benedikts og Sigríði systur Magnúsu og bjuggu þau alla tíð í sama húsi á Þórkötlustöðum og átti hún góða æsku með þeim. Fjóla vandist allri vinnu frá unga aldri og fór í vist til Reykjavíkur. Hún lauk barnaskólaprófi og fór síðan að læra matreiðslu á hótel Skjaldbreið í Reykjavík.

Fjóla giftist Ingólfi Eyjólfssyni, þau slitu samvistir. Fjóla eignaðist eina dóttur, Ingibjörgu, f. 26. nóvember 1940, maki Pétur Þórarinn Þórarinsson, f. 28. júlí 1933. Fjóla eignaðist fjögur barnabörn og sjö barnabarnabörn sem hún lifði fyrir. Þau eru: Fjóla, f. 20. nóvember 1959. Þórarinn, f. 25. febrúar 1965. Maki Þóra Hafsteinsdóttir, börn þeirra eru Ingibjörg Þóra og Klara Lind. Benedikta, f. 16. desember 1966. Maki Haukur Ingi Jónsson, börn þeirra eru Pétur Ingi og Helga Ósk. Ólafur, f. 7. febrúar 1972. Maki Lára Sif Jónsdóttir, börn þeirra eru Jón Smári, Ólöf Rut og Viktoría Fjóla.

Fjóla fluttist til Keflavíkur 1941 og bjó þar alla tíð síðan. Hún vann alla almenna vinnu í fiski, síld og saltfiski. Hún vann við afgreiðslustörf stærstan hluta ævi sinnar, mest í versluninni Eddu í Keflavík. Hún starfaði með öldruðum í mörg ár þangað til heilsan fór að gefa sig og tómstundastarfið fluttist á Nesvelli.

Útför Fjólu Benediktsdóttur fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 7. október 2011, kl. 13.

Þá er komið að kveðjustund, kæra mamma og árin orðin ansi mörg og góð sem við áttum saman. Fyrst vorum við einar, svo bættist Pétur tengdasonur þinn í hópinn og svo börnin okkar, Fjóla, Þórarinn, Benedikta og Ólafur og seinna þeirra fjölskyldur.

Pétur hefði ekki getað fengið betri tengdamóður en þig, kæra mamma. Þakka þér fyrir allt það góða sem þú gerðir fyrir okkur á þinni löngu ævi, fyrst fyrir mig og svo börnin mín og svo barnabörnin og allt það góða sem þau fengu frá þér. Betri mömmu, tengdamömmu, ömmu og langömmu er ekki hægt að hugsa sér.

Lengi vel var enginn til staðar fyrir mig nema þú og þín fjölskylda á Þórkötlustöðum, afi sem dó alltof snemma, amma Magnúsa og þau hjónin Sigga og Gummi, margar góðar stundir áttum við með þeim í Grindavík. Við áttum líka margar góðar stundir með systkinum þínum, Rósu, Elsu og Bensa í Grindavík, Jóa í Keflavík og Laugu og Lóu á Selfossi, það voru nú margir sunnudagsbíltúrarnir sem við fórum til að heimsækja þau. Ég vil líka þakka þér fyrir öll yndislegu jólin sem við áttum saman, fyrst hjá þér á Ásabrautinni og svo hjá okkur Pétri í Baugholtinu, þau hafa alltaf skipað stóran sess í lífi okkar og minningin um þig lifir með okkur um hver jól.

Innilegt þakklæti fyrir allt í gegnum lífið. Guð geymi þig, elsku mamma mín.

Þín dóttir,

Ingibjörg og börnin.

Það er komið að leiðarlokum, kæra tengdamóðir. Það eru 55 ár síðan kynni okkar hófust þegar ég fór að skjóta mér í einkadóttur þinni henni Ingibjörgu. Það er langur tími og fyrstu árin dvöldum við hjá þér á Ásabrautinni en svo fluttum við í okkar eigið húsnæði á Baugholtinu eins og gengur og gerist í lífinu. Þú fluttir svo til okkar og bjóst hjá okkur í mörg ár, en eftir að þú hættir að vinna fórst þú aftur í íbúðina þína og bjóst þar á meðan heilsan leyfði eða þangað til í júlí í fyrra að þú fórst á hjúkrunarheimilið Garðvang.

Árið 1997 lentir þú í alvarlegu bílslysi og þér var vart hugað líf og varst í marga mánuði á sjúkrahúsi, en fyrir það hvað þú varst vel á þig komin líkamlega, enda fórst þú allra þinna ferða gangandi því þú tókst aldrei bílpróf, hafðir þú það af. Það var aðdáunarvert hversu vel þú náðir þér eftir þetta.

Öll þessi ár okkar saman hefur aldrei borið skugga á okkar samveru og þakka ég það. Þú varst ein af þessum góðu manneskjum sem ég hef kynnst á lífsleiðinni. Varst alltaf til staðar til að líta eftir barnabörnunum ef við Inga fórum eitthvað hvort sem það var í styttri eða lengri tíma. Þau voru náttúrlega þínir augasteinar.

Eftir að þú hættir að vinna og varst alltaf heima reyndi ég að koma til þín eins oft og ég gat í morgunkaffi hjá þér og um leið að athuga hvort ekki væri allt í góðu lagi. Ég kom þó ekki fyrr en þættirnir þínir Glæstar vonir og Nágrannar voru búnir. Ég vildi ekki trufla þig fyrr, því þú vildir alltaf drekka kaffi með mér inni í eldhúsi og hættir því að horfa ef ég kom of snemma. Ef ég hafði ekki komið í kaffið daginn áður var alltaf sagt, þú komst ekki í gær, Pétur minn.

Við borðuðum alltaf saman fjölskyldan á hátíðisdögum og sunnudögum, þú hjá okkur eða við hjá þér og áttum við saman margar notalegar stundir á þessum dögum.

Margt fleira væri hægt að segja um þig en ég geymi það í minningunni um eindæma góða tengdamóður. Að endingu vil ég með þessum fátæklegu orðum þakka þér samfylgdina og sérstaklega fyrir að gefa mér Ingu einkadóttur þína sem minn lífsförunaut.

Guð blessi þig, elsku Fjóla mín.

Pétur Þórarinsson.

Þær eru margar minningarnar sem koma upp í hugann nú þegar mín elskulega amma, amma Fjóla, kveður þennan heim. Hann var einstaklega fallegur og sólríkur haustdagurinn sem hún amma valdi til þess að fara í langferðina miklu.

Ég var svo heppinn að alast upp við að hafa ömmu Fjólu á æskuheimili mínu fyrstu 15 ár ævi minnar í Baugholtinu. Þar naut ég góðs af henni og þær voru nú ófáar brauðsneiðarnar með kæfunni og heitu kakóbollarnir sem hún gerði handa mér enda gerði hún langbesta kakó í heimi. Oft sátum við saman og horfðum á sjónvarp, lásum í bók eða hlustuðum á útvarp og hún sagði mér oft skemmtilegar sögur úr æsku sinni í Grindavík.

Þegar amma flutti á Ásabrautina árið 1987 kom ég til hennar nánast daglega og fékk alltaf eitthvað gott að borða hjá henni. Fyrst um sinn kom ég einn, svo bættist unnusta mín, Lára Sif, í hópinn árið 1993 og svo barnabarnabörnin Jón Smári, Ólöf Rut og Viktoría Fjóla. Við Lára Sif fluttum í Kópavoginn árið 1997 og reyndum við að koma eins oft og við gátum að heimsækja ömmu enda ómissandi að fá kakóbolla og brauð með kæfu hjá henni ásamt öðru góðgæti.

Ég hef alla tíð stundað íþróttir, sérstaklega knattspyrnu og fylgdist amma Fjóla vel með mér og safnaði í úrklippubækur úr öllum blöðum þar sem fjallað var um leiki mína og færði mér svo til eignar þegar ég hætti að spila. Þetta segir meira en mörg orð um hugulsemi og væntumþykju hennar í minn garð.

Ég hef alltaf verið mikið jólabarn og það vissi hún og gerði hún því handa mér marga fallega jólalampa og jólaskraut sem skreytir heimili fjölskyldu minnar um hver jól og munu halda á lofti minningu hennar um ókomna tíð.

Hinn 3. febrúar 2010 fæddist okkur Láru Sif dóttir sem fékk nafnið Viktoría Fjóla í höfuðið á langömmu sinni. Amma Fjóla var yfir sig stolt af litlu nöfnu sinni og að sjálfsögðu mætti hún í skírnina þrátt fyrir háan aldur og eigum við fallegar myndir af Fjólunum okkar þremur á þessum fallega degi.

Amma Fjóla átti fjögur barnabörn og sjö barnabarnabörn sem hún fylgdist vel með og var mjög stolt af og voru þær ófáar myndirnar af þeim sem prýddu íbúðina hennar á Ásabrautinni.

Amma Fjóla hélt fullri heilsu lengstan hluta ævi sinnar og bjó ein á Ásabrautinni þar til fyrir rúmlega ári að hún flutti á hjúkrunarheimilið Garðvang þá 89 ára gömul. Hinn 17. janúar 2011 hélt hún upp á 90 ára afmælið sitt með allri fjölskyldu sinni og áttum við góða stund saman.

Ég verð alltaf þakklátur fyrir mánudaginn 26. september þegar ég kom til ömmu og átti með henni notalega stund og kvaddi hana, morguninn eftir hringdi mamma svo í mig og sagði að hún hefði kvatt þennan heim á hljóðlegan og kyrrlátan hátt.

Að leiðarlokum langar mig til að þakka ömmu Fjólu fyrir allar þær góðu og yndislegu stundir sem ég og mín fjölskylda áttum með henni. Minning um góða konu mun ávallt lifa með mér. Guð blessi þig amma mín.

Elsku mamma, pabbi og systkini, megi Guð styrkja ykkur og hugga á þessum erfiðu tímum. Missir okkar er mikill.

Þinn dóttursonur,

Ólafur Pétursson.

mbl.is/minningar