Sigrún Rósa Björnsdóttir sigrunrosa@mbl.is Norðurál hafnar því að borga fullt verð fyrir þau 50 MW sem samið var um að félagið keypti af Orkuveitu Reykjavíkur frá og með 1. október sl.

Sigrún Rósa Björnsdóttir

sigrunrosa@mbl.is

Norðurál hafnar því að borga fullt verð fyrir þau 50 MW sem samið var um að félagið keypti af Orkuveitu Reykjavíkur frá og með 1. október sl. Þar nýtir félagið sér ákvæði í samningi þess og Orkuveitu Reykjavíkur sem kveður á um að kaupandi borgi 85% af raforkuverði, óháð því hvort hann getur tekið við rafmagninu eða ekki.

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segir að ákvæðið um 85% verð sé í þessum samningi eins og öllum öðrum í stóriðjunni svokölluð kaupskylda. Kaupandinn borgi fyrir 85% af umsömdu orkumagni út samningstímann, óháð því hvort hann getur tekið rafmagn eða ekki. Um gagnkvæma skuldbindingu sé að ræða. „Þannig að ef þeir geta ekki selt álið eða verða að loka álverinu af einhverjum markaðsástæðum eða þá að þeir verða fyrir einhverri alvarlegri bilun og geta ekki tekið við rafmagninu af þeirri ástæðu mega þeir minnka niður í 85%.“

Bjarni gat ekki gefið upp áætlað tekjutap vegna þessa.

Þetta þýðir að Norðurál borgar núna fyrir um 85% af umsömdum 50 MW frá Sleggjunni, nýrri rafstöð Orkuveitunnar á Hellisheiði. Ef miðað er við heimildir Morgunblaðsins um orkuverð má gera ráð fyrir að Orkuveitan verði af 250-300 milljóna króna tekjum vegna þessa á ársgrundvelli. Sleggjan var m.a. byggð vegna áforma Norðuráls um byggingu álvers í Helguvík. Má því ætla að á meðan ekki næst að selja umrædd 15% tapi Orkuveitan þeim tekjum, á meðan beðið er niðurstöðu vegna álversins í Helguvík.

Telja ákvæðið ekki eiga við

„Norðurál skerti orkukaup frá okkur frá mánaðamótum og hefur nefnt 85% ákvæðið við okkur en ekki tilkynnt það neitt formlega,“ segir Júlíus Jónsson, forstjóri HS Orku. Skerðingin sé umtalsverð ef hún verði til frambúðar en þeir telji ákvæðið ekki eiga við. „Við erum að skoða það og ætlum ekki að tjá okkur þar um á meðan.“ Hann segir þetta algerlega nýja hlið á samningnum og verið sé að skoða hana.

Forsvarsmenn Norðuráls kváðust ekki geta tjáð sig um innihald orkusamninga.