Aron Pálmarsson
Aron Pálmarsson
„Ég tognaði aftan í læri á æfingu fyrir viku síðan. Ég er allur að koma til og ef ég fengi að ráða þá myndi ég líklega spila á sunnudaginn en það verður bara að koma í ljós.

„Ég tognaði aftan í læri á æfingu fyrir viku síðan. Ég er allur að koma til og ef ég fengi að ráða þá myndi ég líklega spila á sunnudaginn en það verður bara að koma í ljós. Ég er yfirleitt fljótur að jafna mig af meiðslum en ég verð samt að fara gætilega. Ef ég verð ekki alveg 100% góður þá verð ég örugglega látinn hvíla en það væri ansi gaman að fá að spila á móti Montpellier enda sterkt lið þar á ferð,“ sagði landsliðsmaðurinn Aron Pálmarsson leikmaður þýska stórliðsins Kiel við Morgunblaðið í gærkvöld.

Aron hefur ekki verið með liði Kiel í síðustu tveimur leikjum vegna meiðslanna en á sunnudaginn tekur Kiel á móti franska meistaraliðinu Montpellier, sem tveir fyrrverandi leikmenn Kiel spila með, Frakkinn Nikola Karabatic og Slóveninn Vid Kavticnik.

Aron og félagar hafa byrjað tímabilið með látum en Kiel hefur unnið alla sjö leiki sína í deildinni og flesta leikina á afar sannfærandi hátt.

„Þetta er frábær byrjun og hún kemur mér eiginlega ekkert á óvart. Stemningin er búin að vera það góð í hópnum og spilamennskan hjá liðinu virkilega góð. Núna eru engin alvarleg meiðsli í hópnum og það er eitthvað annað en í fyrra,“ sagði Aron, sem hefur átt góðu gengi að fagna með þýska liðinu.

„Það er bara eitt markmið sem við höfum en það er að endurheimta titilinn. Við hugsum ekkert um úrslit í öðrum leikjum heldur einbeitum við okkur að okkur sjálfum. Okkur svíður enn að hafa misst frá okkur meistaratitilinn á síðustu leiktíð og það er skelfilegt þegar maður les blöðin hér úti og heima þegar talað er um Þýskalandsmeistara Hamburg,“ sagði Aron við Morgunblaðið.

gummih@mbl.is