Erfitt Þórarinn Ingi Valdimarsson með knöttinn í baráttu við tvo leikmenn enska liðsins á Laugardalsvellinum í gær.
Erfitt Þórarinn Ingi Valdimarsson með knöttinn í baráttu við tvo leikmenn enska liðsins á Laugardalsvellinum í gær. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Laugardal Kristján Jónsson kris@mbl.is Nafnið Chamberlain er þekkt í sögu breska heimsveldisins enda var Neville Chamberlain í forsætinu í Bretlandi þegar síðari heimsstyrjöldin braust út.

Í Laugardal

Kristján Jónsson

kris@mbl.is Nafnið Chamberlain er þekkt í sögu breska heimsveldisins enda var Neville Chamberlain í forsætinu í Bretlandi þegar síðari heimsstyrjöldin braust út. Mörgum þótti Chamberlain skella skollaeyrum við aðvörunum Winstons Churchills í aðdraganda styrjaldarinnar. Churchill reyndi þá að benda á þá hættu sem Bretlandi og heiminum öllum stafaði af nasistum og hefur síðar verið lýst sem hrópandanum í eyðimörkinni fyrir vikið. Margir telja nú að Chamberlain hefði betur hlustað á boðskap landa síns sem síðar varð hans eftirmaður.

Á okkar tímum er uppi knattspyrnumaður á Bretlandseyjum sem einnig heitir Chamberlain. Sá heitir Alex Oxlade-Chamberlain og er atvinnumaður í knattspyrnu hjá félagi í úthverfi Lundúna að nafni Arsenal. Hafi sparkelskir Íslendingar ekki haft spurnir af þessum kappa þegar gærdagurinn rann upp þá ættu margir þeirra að þekkja til hans eftir ungmennalandsleikinn í Laugardalnum í gærkvöldi.

Pearce varaði við Íslendingum

Sá Chamberlain sem nú er uppi skellti ekki skollaeyrum við aðvörunum landa síns. Ljóst er að hann hefur hlustað af athygli þegar þjálfari hans hjá U-21 árs landsliðinu, Stuart Pearce, varaði við því að Ísland gæti reynst hættulegur andstæðingur. Pearce sá til þess að hans menn mættu til leiks af fullri alvöru enda töpuðu hans menn fyrir Íslandi í vináttulandsleik á enskri grundu fyrir tæpu hálfu ári.

Chamberlain hafði sig mjög í frammi á hægri kantinum og fór oft á tíðum illa með Kristin Jónsson og fleiri leikmenn íslenska liðsins. Chamberlain skoraði öll þrjú mörk Englendinga í leiknum og getur farið drjúgur með sig á fund vinnuveitenda síns Arsene Wenger að Íslandsferðinni lokinni. Þeim ágæta hagfræðingi frá Frakklandi veitir víst ekki af góðum uppörvandi tíðindum þessa dagana ef eitthvað er að marka bresku pressuna.

Gestrisni úr hófi fram

Við Íslendingar erum býsna gestrisin þjóð þegar vel liggur á okkur en gestrisnin gekk úr hófi fram á Laugardalsvellinum í gærkvöldi. Öll mörk Englendinga voru mjög ódýr frá okkar sjónarhóli. „Við gefum þeim í rauninni þessi mörk og það var einbeitingarleysi og klaufaskapur hjá okkur,“ sagði Eyjólfur Sverrisson, þjálfari Íslands, á blaðamannafundi þegar niðurstaðan lá fyrir. Eyjólfur kaus að vera jákvæður í málflutningi sínum.

„Þegar ég fer yfir leikinn þá er ég ánægður með marga kafla í leiknum þar sem við spiluðum boltanum vel. Okkur vantaði að fá opin færi og að klára sóknirnar með almennilegum tilraunum. Ég sé margt jákvætt í þessari frammistöðu og finn í sjálfu sér ekkert sem ég er ósáttur við ef frá er talið hversu ódýr mörkin voru. Englendingunum fannst þessi mörk einnig hafa verið ódýr því þeir áttu ekki mjög mörg markskot. Okkar menn læra mikið af þessum leik og enska liðið er gríðarlega öflugt. Við höldum vonandi áfram að bæta okkur sem lið.“

Ísland – England 0:3

Laugardalsvöllur, undankeppni EM, 8-riðill, fimmtudaginn 6. október 2011.

Skilyrði : Ágætar og raunar góðar miðað við árstíma. Hægur vindur, 4 stiga hiti og völlurinn ágætur.

Skot : Ísland 6 (2) – England 7 (5).

Horn : Ísland 1 – England 2.

Lið Íslands : (4-3-3) Mark : Arnar Darri Pétursson. Vörn : Jóhann Laxdal, Hólmar Örn Eyjólfsson, Eiður Aron Sigurbjörnsson, Kristinn Jónsson (Kristinn Steindórsson 52.). Miðja : Finnur Orri Margeirsson, Rúnar Már Sigurjónsson, Björn Daníel Sverrisson (Jóhann Helgi Hannesson 58.). Sókn : Dofri Snorrason, Aron Jóhannsson, Þórarinn Ingi Valdimarsson.

Lið Englands : (4-4-2) Mark : Jack Butland. Vörn : Jon Flanagan, Martin Kelly, Craig Dawson, Matthew Briggs. Miðja : Alex Oxlade Chamberlain (Ross Barkley 82.), Jack Rodwell, Jordan Henderson, Nathan Delfouneso (Martyn Waghorn 24 (Josh McEachran 63.). Sókn : Marvin Sordell, Henri Lansbury.

Dómari : Clement Turpin, Frakklandi.

Áhorfendur : 2.599.

Þetta gerðist á Laugardalsvelli

0:1 12. Aron átti slaka sendingu á miðjum vellinum og Englendingar sneru vörn í sókn. Marvin Sordell var með boltann á vallarhelmingi Íslands en missti hann frá sér. Þar tók Alex Oxlade-Chamberlain við og stakk sér í gegnum miðja vörn Íslands og renndi boltanum neðst í vinstra hornið rétt innan vítateigs.

0:2 15. Nathan Delfouneso var vinstra megin við teiginn og sendi fyrir en Hólmar náði að draga kraftinn úr fyrirgjöfinn. Arnar Darri kom út úr markinu og ætlaði að grípa boltann en missti hann klaufalega frá sér þó enginn pressaði hann. Alex Oxlade-Chamberlain þakkaði fyrir sig og potaði boltanum í markið.

0:3 49. Alex Oxlade-Chamberlain fór illa með Kristin Jónsson og komst upp að endamörkum hægra megin. Gaf fremur lausa fyrirgjöf sem fór alveg inn að markinu og Arnar Darri sló boltann í nærhornið.

Gul spjöld:

Kristinn Steindórs (Íslandi) 58. (brot), Kelly (Englandi) 69. (hendi), Þórarinn (Íslandi) 70. (brot).

Rauð spjöld:

Engin.

*Íslenska liðið skapaði sér í raun ekkert dauðafæri í leiknum. Aron Jóhannsson átti þrjár ágætar skottilraunir en allar utan vítateigs. Hann skaut tvívegis yfir markið í fyrri hálfleik og í síðari hálfleik var varið frá honum.

* Þórarinn Ingi Valdimarsson átti ágæta tilraun á 14. mínútu í stöðunni 0:1. Hann brunaði þá inn í teiginn vinstra megin og náði hörkuskoti úr fremur þröngu færi en rétt yfir markið.

*Englendingar misstu tvo leikmenn af velli vegna meiðsla og voru þeir báðir bornir út af á sjúkrabörum. Vinstri kantmaðurinn Nathan Delfouneso fór af velli á 24. mínútu og í hans stað kom Martyn Waghorn . Varamaðurinn var hins vegar einnig borinn af leikvelli á 63. mínútu. Stuart Pearce þjálfari Englendinga sagði við blaðamenn að leiknum loknum að líklegast væri um að ræða meiðsli aftan í læri.

*Nokkrir snjallir íslenskir knattspyrnumenn eru gjaldgengir í U-21 árs liðið. Má þar nefna sóknarmennina Kolbein Sigþórsson og Björn Bergmann Sigurðsson sem báðir glíma við meiðsli en Kolbeinn var valinn í A-landsliðið fyrir leikinn á móti Portúgal í kvöld en þurfti að draga sig út úr hópnum.

• Á mbl.is er finna myndskeið með viltali/viðtölum við íslensku leikmmenina Hólmar Örn Eyjólfsson fyrirliða og Eið Aron Sigurbjörnsson.