Fjölhæf Diljá Björg Þorvaldsdóttir er nemi í grafískri hönnun en stefnir á gullsmíði í framtíðinni.
Fjölhæf Diljá Björg Þorvaldsdóttir er nemi í grafískri hönnun en stefnir á gullsmíði í framtíðinni. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Diljá Björg Þorvaldsdóttir hannar skartgripi úr vír og perlum og segist fá fráhvarfseinkenni ef hún er ekki búin að föndra lengi.

Diljá Björg Þorvaldsdóttir hannar skartgripi úr vír og perlum og segist fá fráhvarfseinkenni ef hún er ekki búin að föndra lengi. Vinkonur Diljár Bjargar eru duglegar að gefa henni ónýta skartgripi en úr þeim nýtir hún allt frá festingum til perlna og býr til nýtt skart. Hún selur skartgripina undir nafninu Geimvera sem vísar til þess að hún reynir að hafa hvern skartgrip einstakan og enga tvo eins.

María Ólafsdóttir

maria@mbl.is

Diljá Björg Þorvaldsdóttir hefur alltaf verið dugleg við að gera eitthvað í höndunum en hún byrjaði að búa til skartgripi þegar hún var um níu ára. Þá bjó hún í Danmörku og segir föndurkennslu í skólanum hafa verið öfluga. Í fyrstu hannaði hún einna helst hringa úr vír með perlum ofan á en í gegnum árin hefur hönnunin þróast smám saman. Í dag býr Diljá Björg helst til svokölluð hringahálsmen og hálsmen sem nota má ýmist um hálsinn eða sem spöng.

Hún notar aðallega perlur og vír í skartgripina og segir að sér finnist mjög gaman að vinna með vír. Hún hefur einnig búið til skálar úr vír og Listaháskólamappan hennar var meira að segja úr vír. En þá vafði hún kúlu úr vír sem var hægt að opna og leyndist mappan sjálf þar inni í.

Heilluð af vír

„Mér finnst gaman að sjá hversu langt ég kemst með því að nota bara vír. Ef eitthvað fer úrskeiðis og mér finnst það ekki flott þá er yfirleitt einhver sem vill eiga það. En vinkonur mínar eru hrifnar af því sem ég er að gera. Ég lærði margt í föndurkennslu í Danmörku þegar ég var lítil sem ég hef nýtt mér og þróað sjálf. Ég hef undanfarin ár reynt að breyta aðeins út frá vírnum með glimmerkúlum og perlum og hnýta þetta saman. Mér finnst mjög gaman að búa til skartgrip sem er hægt að nota á fleiri en einn veg t.d. sem hálsfesti og hárband. Þá festi ég borða við festina þannig að hægt er að hengja hana um hálsinn eða binda í hárið,“ segir Diljá Björg. Hún segist fá innblástur úr ýmsum áttum og meðal annars sækja innblásturinn í flottar hönnunarvefsíður.

Einstakar geimverur

Draumur Diljár Bjargar er að læra gullsmíði í framtíðinni en hún stundar sem stendur nám í grafískri hönnun í Listaháskóla Íslands og er á öðru ári.

„Ég fæ smáfráhvarfseinkenni ef ég hef ekki föndrað í langan tíma þannig að ég verð að sinna því við og við. Það er líka mjög þægilegt ef fólk á afmæli og maður kemst ekki í búð að geta hent einhverju saman. Ég reyni að gera skartgripi fyrir vinkonur mínar sem passa þeim vel og stundum benda þær mér á eitthvað sérstakt sem þær langar í.

Ég er dálítið á móti því að allir geti átt það sama á Íslandi svo mig langar að stíla inn á eitthvað einstakt. Hringahálsmenin get ég líka ekki gert öll eins því ég á bara ákveðið margar perlur af hverri sort. Ég er búin að sanka að mér ótal perlum í gegnum tíðina en þær eru allar ólíkar á sinn hátt. Þaðan kemur nafnið geimvera, að fólk geti verið dálítið spes,“ segir Diljá Björg og vísar þar til vefsíðunnar facebook.com/geimvera en þar er hægt að skoða skartgripina hennar og kaupa.

Gaman að endurnýta

Það má segja að Diljá Björg sé nokkuð umhverfisvæn í hönnun sinni en hún endurnýtir skartgripi frá vinkonum sínum. Hún segir hugmyndin á bak við þetta þó frekar vera að henni finnist skemmtilegt að geta búið til einstaka skartgripi.

„Ég á mjög góðar vinkonur sem gefa mér alltaf ónýtu skartgripina sína sem þær vilja ekki nota lengur. Úr þeim nýti ég allt frá festingunni yfir í perlur. Mér finnst gaman að reyna að endurnýta og nota það sem er til,“ segir Diljá Björk.