Í þoku Margt er enn á huldu um hvernig réttmætt er að endurreikna gengislán sem dæmd voru ólögmæt.
Í þoku Margt er enn á huldu um hvernig réttmætt er að endurreikna gengislán sem dæmd voru ólögmæt. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ómar Friðriksson omfr@mbl.is „Það væri best fyrir alla ef þeir fara í dómsmál svo fáist dómsniðurstaða í sem flestum vafamálum,“ segir Svanborg Sigmarsdóttir, sviðsstjóri kynningarsviðs Umboðsmanns skuldara.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

„Það væri best fyrir alla ef þeir fara í dómsmál svo fáist dómsniðurstaða í sem flestum vafamálum,“ segir

Svanborg Sigmarsdóttir, sviðsstjóri kynningarsviðs Umboðsmanns skuldara. Fram kom í Morgunblaðinu í gær að Félag áhugamanna um réttmætt skuldauppgjör undirbýr málsókn á hendur bönkunum fyrir endurútreikning á gengisbundnum lánum. „Það ríkir réttarágreiningur um túlkun á þessu og úr honum verður ekki skorið nema fyrir dómstólum,“ segir Svanborg. „Það þarf að fá niðurstöðu um þessi mál.“

Sérfræðingar staðfestu

Í svörum frá Íslandsbanka í gær er lögð áhersla á að farið hafi verið eftir lögunum um vexti og verðtryggingu og breytingum sem á þeim voru gerðar við endurútreikning ólögmætra gengisbundinna lána.

„Efnahags- og viðskiptaráðherra fól Umboðsmanni skuldara að hafa eftirlit með útreikningum fjármálafyrirtækja. Umboðsmaður leitaði til Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands til að fá hlutlaust og faglegt mat á útreikningum fjármálafyrirtækjanna. Í niðurstöðum stofnunarinnar kom fram að öll fjármálafyrirtækin reikna húsnæðislán með sama hætti,“ segir þar.

Minnt er á að efnahags- og viðskiptaráðherra hafi sagt í svari við fyrirspurn á Alþingi að lögin kveði skýrt á um hvernig beri að endurreikna lán hafi þau verið dæmd ólögmæt og niðurstaða Raunvísindastofnunar bendi til að ekki hafi verið þörf á samræmdum leiðbeiningum umfram lögin.

„Þá skal áréttað að Íslandsbanki hefur í mörgum tilvikum boðið viðskiptamönnum sínum upp á úrræði sem ganga lengra en lög kveða á um, til að mynda með því að gefa þeim kost á að velja á milli höfuðstólslækkunar og endurútreiknings erlendra lána auk þess sem tímabundinn vaxtaafsláttur hefur einnig verið í boði.“

Við umræður á Alþingi í gær um frumvarp um endurútreikning erlendra lána sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, fyrsti flutningsmaður þess, að hvergi væri að finna í lögum heimild fjármálafyrirtækjanna til að reikna mánaðarlega vaxtavexti á gengislánin. Sagði hann það brjóta í bága við langa hefð þegar ekki væri tekið tillit til þess að lántakendur greiddu niður höfuðstól láns. Sagði hann efnahags- og viðskiptaráðherra ganga ansi langt í að gæta hagsmuna fjármálafyrirtækja. Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, neitaði því að hann væri að gæta hagsmuna fjármálafyrirtækja. Ástæða þess að gætt hefði verið varfærni væri sú að ef stjórnvöld mæltu fyrir um aðferð við uppgjör lánanna sem stæðist svo ekki fyrir Hæstarétti gæti ríkið þurft að greiða fjármálafyrirtækjunum bætur. „Það er sú niðurstaða sem ég er ekki tilbúinn að taka áhættuna af. Ég vil ekki að þetta hörmungarmál verði til þess að við borgum almannafé inn í banka til þess að bæta þeim það sem við kunnum mögulega að skerða réttindi þeirra um. Það eru bankar sem eiga að borga fólki allt sem oftekið var,“ sagði ráðherrann.

FRUMVARP GUÐLAUGS ÞÓRS O.FL. UM UPPGJÖR GENGISLÁNA

Tillit til greiðslu á höfuðstól

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, endurflutti í gær frumvarp á Alþingi um endurútreikninga við uppgjör gengistryggðra lána. Í frumvarpinu, sem Guðlaugur Þór og sjö aðrir sjálfstæðismenn standa að, segir að við ákvörðun endurgreiðslu eða útreikning á stöðu skuldar skuli draga frá upphaflegum höfuðstól þær fjárhæðir sem inntar hafa verið af hendi fram að uppgjörsdegi í afborganir o.fl.

Tilgangurinn er að breytt verði um aðferðir við endurútreikninginn til hagsbóta fyrir skuldara „þannig að allar greiðslur sem inntar hafa verið af hendi fram að uppgjörsdegi komi þegar til frádráttar upphaflegum höfuðstól en að sú fjárhæð sem þá stendur eftir verði vaxtareiknuð í samræmi við almennt vaxtaviðmið laga um vexti og verðtryggingu frá upphafi samningstímans. Einnig er lagt til að ekki skuli leggja vexti við þá fjárhæð sem eftir stendur á hverju tólf mánaða tímabili eins og heimilað er í 12. gr. laganna“.

Ólík sjónarmið
» Félag áhugamanna um réttmætt skuldauppgjör telur að útreikningar bankanna á gengislánum standist ekki lög og óréttmætt sé að endureikna alla greidda gjalddaga á lánunum og setja á þá vexti.
» Tveir sérfræðingar við HÍ skiluðu skýrslu í maí um endurútreikning lánanna og komust að þeirri niðurstöðu að fjármálafyrirtæki fylgdu fyrirmælum laganna. Þau notuðu þó ekki alltaf sömu aðferð.