Suðurnes ESB gerir úttekt.
Suðurnes ESB gerir úttekt.
Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is Í fyrradag hófst vinna við úttekt Evrópusambandsins á samkeppnishæfi Suðurnesjanna, en þar eru öll atvinnutækifæri og allir fjárfestingarkostir á svæðinu tekin út.

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

Í fyrradag hófst vinna við úttekt Evrópusambandsins á samkeppnishæfi Suðurnesjanna, en þar eru öll atvinnutækifæri og allir fjárfestingarkostir á svæðinu tekin út. Miklar vonir eru bundnar við niðurstöðurnar að sögn Önnu Margrétar Guðjónsdóttur sem hefur verið ráðgjafi í þessu verkefni. Hún segir að án efa eigi þær eftir að koma svæðinu til góða, ekki síst ef Ísland verði aðili að Evrópusambandinu.

Forsaga þessa er að hópur fjárfesta vann um skeið að því að koma risagróðurhúsi á laggirnar á Suðurnesjum og var þar ætlunin að kanna ræktun tómata til útflutnings. Sótt var um styrki frá Evrópusambandinu og hlaut umsóknin brautargengi framan af. Óvænt þróun varð hins vegar á málum þegar ESB lagði til að umsóknin yrði lögð til hliðar og bauðst í staðinn til að gera úttekt á samkeppnishæfi á Suðurnesjum.

„Ráðið var teymi fjögurra sérfræðinga, sem hafa áður unnið sambærilegar greiningar fyrir ESB,“ segir Anna Margrét. „Teymið skilar niðurstöðum eftir fimm mánuði og þá verður til samantekt um alla hugsanlega fjárfestingarkosti, allar fyrirliggjandi hugmyndir um atvinnuuppbyggingu og samsvarandi framboð af menntun á svæðinu. Niðurstöðurnar verða síðan bornar saman við áherslur ESB í byggðaþróun og atvinnumálum og út frá því verður metið hvað þykir fýsilegt til framkvæmda.“

Anna Margrét segir að með greiningunni sé búið að ljúka mikilli forvinnu ef hugur sé á að sækja um styrki til Evrópusambandsins. „Þetta gæti stuðlað að auknum atvinnutækifærum á Suðurnesjum.“