[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Rúnar Pálmason runarp@mbl.is Á ársreikningum fyrir árið 2010 sést vel að himinn og haf er á milli fjárhagsstöðu Garðabæjar og Álftaness. Skuldirnar eru um það bil jafnmiklar en íbúar á Álftanesi voru í fyrra um 2.

Fréttaskýring

Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

Á ársreikningum fyrir árið 2010 sést vel að himinn og haf er á milli fjárhagsstöðu Garðabæjar og Álftaness. Skuldirnar eru um það bil jafnmiklar en íbúar á Álftanesi voru í fyrra um 2.500 en Garðbæingar tæplega 11.000.

Fjármál Álftaness eru í ólestri eftir óstjórnina 2006-2009 en með framlagi frá ríkinu og afskriftum lánardrottna er ætlunin að grynnka á skuldunum þannig að þær verði um 3,2 milljarðar en ekki um sjö milljarðar. Gangi þetta eftir verða forsendur til að hefja á ný sameiningarviðræður á milli þessara tveggja sveitarfélaga. Þær hafa legið niðri frá því um áramót meðan beðið var eftir að fjárhaldsstjórnin næði samningum við ríkið og lánardrottna þess um endurskipulagningu fjármála og afskriftir skulda.

Helstu lánardrottnar Álftaness eru Eignarhaldsfélagið Fasteign, sem á íþróttamannvirkin, Lánasjóður sveitarfélaga, Húsnæðissamvinnufélagið Búmenn og Arion banki.

Skulda áfram mikið

Skuldir og skuldbindingar Álftaness námu um síðustu áramót 6,7 milljörðum og höfðu lækkað úr 7,2 milljörðum árið 2009, einkum vegna styrkingar krónunnar á því tímabili. Síðan þá hefur gengið heldur veikst og verðbólga verið töluverð og því líklegt að skuldir Álftaness, eins og annarra, hafi heldur hækkað.

Í Garðabæ bjuggu í fyrra um 10.600 manns og námu heildarskuldir og skuldbindingar rúmlega 6,5 milljörðum, um 612.000 krónum á hvern íbúa. Skuldir Álftaness voru um 143 milljónum hærri en þar eru líka fjórum sinnum færri íbúar. Skuldir á hvern íbúa voru 2,6 milljónir á Álftanesi.

Jafnvel þótt skuldir Álftaness verði lækkaðar niður í 3,2 milljarða verða skuldir á hvern íbúa enn háar eða tæplega 1,3 milljónir á íbúa og tæplega 250% af tekjum sveitarfélagsins árið 2010. Í nýjum sveitarstjórnarlögum er miðað við að skuldir fari ekki yfir 150% af reglulegum tekjum sveitarfélags.

Sameining við Garðabæ myndi þýða að skuldir Garðabæjar ykjust nokkuð. Skuldir á mann í sameinuðu sveitarfélagi yrðu um 738.000 krónur.

Það vekur nokkra eftirtekt að rekstrartekjur sveitarsjóðsins í Garðabæ voru tæplega 542.000 krónur á mann en á Álftanesi voru þær um 534.000 a mann. Hér hefur það auðvitað veruleg áhrif að Álftnesingar borga 10% álag ofan á útsvar og fasteignaskattar eru þar mun hærri en í Garðabæ, og raunar töluvert hærri en á höfuðborgarsvæðinu að meðaltali. Á hinn bóginn er útsvar á höfuðborgarsvæðinu hvergi lægra en í Garðabæ og fasteignaskattar sömuleiðis lágir.

Kosið um sameiningu

Sameiningu sveitarfélaganna þarf að samþykkja í báðum sveitarfélögum, með einföldum meirihluta í hvoru þeirrra. Verði sameining samþykkt er mögulegt að innanríkisráðuneytið boði til kosninga til sveitarstjórnar þótt kjörtímabilið verði aðeins u.þ.b. hálfnað, líkt og m.a. var gert þegar sex sveitarfélög sameinuðust í Ísafjarðarbæ árið 1996. Einnig geta stjórnir hvors sveitarfélags fyrir sig starfað áfram fram að næstu sveitarstjórnarkosningum. Ef sú verður raunin er í lögum kveðið á um að samþykki beggja sveitarstjórna þurfi fyrir ákvörðunum í fjármálum.

FÁ FRAMLAG ÚR JÖFNUNARSJÓÐI SVEITARFÉLAGA

Kostnaðurinn lendir á öðrum

Alls er gert ráð fyrir að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga leggi Álftanesi til einn milljarð aukalega, þar af 300 milljónir á þessu ári, að því gefnu að sveitarfélagið sameinist öðru sveitarfélagi. Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir ljóst að aukaframlagið hefði einnig farið til annarra illra staddra sveitarfélaga ef Álftanesi hefði ekki verið siglt í kaf. Sveitarstjórnarmenn segi margir sem svo að ef sveitarfélag fari í þrot lendi kostnaðurinn óhjákvæmilega á öðrum og að aðstoða verði íbúana. Einnig hafi það viðhorf komið fram að nýta eigi heimild til að leggja 25% álag á útsvar á Álftanesi en ekki einungis 10% eins og nú er. Um leið hafi menn áhyggjur af því að fleiri sveitarfélög sigli í þetta kjölfar en Halldór telur að önnur illa stödd sveitarfélög geti sparað nægilega í rekstri til að standa undir skuldum.

Svört skýrsla
» Skýrsla Ríkisendurskoðunar um rekstur Álftaness 2006-2009 var kolsvört.
» Sveitarstjórnin réðst ekki aðeins í alltof miklar fjárfestingar heldur var reksturinn einnig í ólestri.
» Í skýrslunni segir að fullyrðingar um að „vandi sveitarfélagsins sé að mestu efnahagshruninu að kenna standast ekki“.
» Reksturinn hafi verið kominn í óefni löngu fyrir hrun.