Innmatur Einar P. Pétursson og Fannet Kim Du, verslunarstjóri hjá Nóatúni í Austurveri, með blóð, mör og fleira.
Innmatur Einar P. Pétursson og Fannet Kim Du, verslunarstjóri hjá Nóatúni í Austurveri, með blóð, mör og fleira. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Þegar herða þarf sultarólina koma góðir siðir eins og sláturgerð sér vel. Sprenging varð í sölu á fersku slátri haustið 2008 og má ætla að a.m.k. 50.000 slátur seljist á landsvísu á hverju hausti.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Þegar herða þarf sultarólina koma góðir siðir eins og sláturgerð sér vel. Sprenging varð í sölu á fersku slátri haustið 2008 og má ætla að a.m.k. 50.000 slátur seljist á landsvísu á hverju hausti.

Allar verslanir Nóatúns eru með sérstakan sláturmarkað um þessar mundir, en í fyrra gaf Nóatún út bækling um sláturgerð og lét auk þess gera myndband, þar sem fólki er kennt að taka slátur. Myndbandið er aðgengilegt á netinu og segir Ólafur Júlíusson, innkaupastjóri hjá Nóatúni, að aukin fræðsla hafi ýtt undir söluna á fersku slátri. „Sláturmarkaðurinn er á fullu og hann hefur alltaf verið sterkastur þegar líða fer á októbermánuð,“ segir Ólafur. Hann bætir við að salan á fersku slátri hafi verið mjög góð í fyrra og hafi í raun komið á óvart. „Við búumst samt við aukningu á þessu ári,“ segir hann.

Hátíð í bæ

Þegar rætt er um að taka slátur er átt við að búa til blóðmör og lifrarpylsu. Lengi hefur þekkst að fjölskyldur hafi komið saman og unnið við sláturgerð, handverkinu þannig haldið við frá manni til manns, þar sem ömmur og mömmur hafa verið í lykilhlutverki. Ólafur segir að allir aldurshópar taki slátur og algengt sé að fjölskyldur geri sér glaðan dag við sláturgerð. „Við sjáum yngra fólk í auknum mæli taka slátur og það er mjög ánægjulegt. Þetta er ekki frekar bundið við eldra fólkið. Fólk á öllum aldri tekur slátur enda er þetta góður og ódýr matur.“

Ólafur bendir á að sláturgerðin sé mun einfaldari og auðveldari nú en áður. Kaupa megi tilbúna próteinkeppi og notkun þeirra hafi gert alla vinnu mun þægilegri en ella. „Þetta er mikið breytt frá saumaskapnum í gamla daga,“ segir hann.

Sláturgerð í sjónvarpi

Kaupa má frosna lifrarpylsu og blóðmör allt árið en ferskt slátur er aðeins til sölu í nokkrar vikur á þessum tíma. Ólafur segir að venjulega taki fólk fimm slátur en stórfjölskyldur taki allt upp í 20 slátur.

Sláturgerð hefur verið sýnd í matreiðsluþáttum í sjónvarpi að undanförnu og segir Ólafur það af hinu góða. „Þetta er allt í sömu áttina, að missa ekki niður þessa góðu, íslensku hefð,“ segir hann.

SLÁTURGERÐ Í HÚSSTJÓRNARSKÓLANUM

Hefðinni haldið við

Nemendur í Hússtjórnarskóla Reykjavíkur læra sláturgerð og verður hún tekin fyrir í dag. Margrét Sigfúsdóttir skólastjóri keypti slátur í gær, tók 10 slátur fyrir skólann. „Við verðum að halda hefðinni við, verðum að kenna þetta,“ segir Margrét. „Þær gera lifrarpylsu og blóðmör núna, en seinna sviðasultu og kæfu. Það eru nóg verkefni að sauma og brytja og þetta eru fastir liðir.“ Margrét segir að gervikeppir kosti meira en að sauma þá upp á gamla móðinn og í skólanum sé haldið í gömlu siðina. Nemendum þyki vinnan yfirleitt skemmtileg og vilji halda í þessa gömlu siði. 24 nemendur eru teknir inn hverju sinni og nú eru eingöngu stúlkur í hópnum en Margrét á von á einum strák á næstu önn.