Jón Lárusson fæddist í Reykjavík 17. október 1942. Hann lést á Líknardeild Landspítalans í Kópavogi 30. september 2011. Foreldrar Jóns voru Lárus Guðjón Jónsson skókaupmaður, og eigandi Skóbúðar Lárusar G. Lúðvígssonar í Reykjavík, f. í Reykjavík 28. apríl 1906, d. 23. nóvember 1991, og Anna Kristín Sveinbjörnsdóttir húsmóðir, f. á Ísafirði 8. október 1905, d. 14. ágúst 1992. Systkini Jóns eru: 1) Hrefna Lárusdóttir Kvaran, f. 3. apríl 1929, gift Ragnari G. Kvaran fyrrverandi flugstjóra, f. 22. júlí 1927. 2) Anna Margrét Lárusdóttir, f. 1. maí 1934, gift Jónasi Hallgrímssyni lækni og fyrrverandi prófessor, f. 6. september 1931.

Jón kvæntist 18. júlí 1965 Sigríði Guðjónsdóttur gjaldkera hjá Osta-og smjörsölunni, f. 16. júlí 1941. Þau eignuðust ekki börn. Foreldrar Sigríðar voru Guðjón Karlsson sjómaður, f, 27.11. 1901, d. 15.5. 1966, og Sigríður Markúsdóttir, f. 26.9. 1902, d. 13.8. 1993. Önnur börn Guðjóns og Sigríðar voru; Karl, f. 21.11. 1928, Sjöfn, f. 22.2. 1930, Þórarinn, f. 12.8. 1931, Rúnar, f. 26.8. 1933, Eygló, f. 12.2. 1935, Markús, f. 15.1. 1938, Hrefna, f. 21.1. 1940, Garðar, f. 20.8. 1942. Markús og Hrefna eru látin.

Jón lauk hefðbundinni barnaskólamenntun í Grænuborg (Ísaksskóla ) og í Æfingadeild Kennaraskóla Íslands. Síðan lá leiðin í Verslunarskóla Íslands þaðan sem hann lauk verslunarprófi árið 1960. Að loknu verslunarprófi starfaði Jón í eitt ár í banka í Kaupmannahöfn. Síðan lá leiðin til Boston þar sem Jón var einn vetur í virtum verslunarskóla (Bryant and Stratton) og lauk þaðan prófi vorið 1962.

Jón vann lengst af við ýmis skrifstofu- og verslunarstörf. Hjá Árna Ólafssyni vann hann við fiskútflutning, síðan við ferðaáætlanir hjá Ferðaskrifstofunni Sögu með Njáli Símonarsyni. Næst lá leiðin til fyrirtækisins Asiaco hjá Kjartani J. Jóhannssyni þar sem Jón vann árum saman við innflutning á fiskveiðiskipum og netum og öðru þvi sem við kom fiskveiðum. Hjá Herluf Clausen vann Jón við kaup og sölu ýmiss varnings á Internetinu. Á þeim árum hóf Jón nám í leiðsögumennsku við Menntaskólann í Kópavogi en það fór fram á kvöldnámskeiðum með starfi. Jón lauk náminu með glæsibrag vorið 2005. Með því tók hann meirapróf á bifreiðar og rútupróf og sneri sér síðan að fullu starfi hjá ferðafyrirtækinu Allrahanda ehf (Iceland Escursions) þar sem hann vann við leiðsögu og akstur langferðabifreiða þar til sjúkdómur hans stöðvaði hann í maí sl. Jón naut mikils trausts í þessu starfi sem var aðallega með erlenda ferðamenn. Þar naut hann góðs af fyrra starfi sínu fyrir Asiaco í sölumennsku um landið allt sem hann þekkti svo vel. Frá upphafi var hann félagsvera sem aðrir fengu síðar að njóta góðs af.

Jón var skáti um árabil og æfði og keppti á skíðum fyrir Ármann á unglingsárum sínum. Jón æfði svifflug ungur að aldri og lauk einkaflugmannsprófi.

Útför Jóns fer fram frá Vídalínskirkju í Garðabæ í dag, 7. október 2011, og hefst athöfnin kl. 13.

Mágur minn Jón Lárusson (Nonni) hefur nú kvatt okkur og er mér ljúft að semja til hans nokkur kveðjuorð, enda hvattur til þess af konu minni. Ég mun víst vera einn þeirra lifandi, sem lengst hafa þekkt Nonna, en honum kynntist ég nefnilega, þegar hann var ennþá við vöggu, er ég hóf að stíga í vænginn við systur hans, en göngutúrinn frá þeim væng hefur síðan enzt í ein 67 ár. En nóg með það, Jón hefur tekið þátt í þeirri göngu alla tíð, jafnt hérlendis, sem erlendis og þakka ég honum þá samfylgd. Jón hafði sína menntun úr Verzlunarskólanum og hans störf mótuðust lengst af þeirri menntun. Viðskiptastörf og ferðamál voru þar í fyrirrúmi, en eftir að hann hætti skrifstofustörfum, gekk hann í leiðsöguskóla og tók meirapróf á bíl. Síðan hóf hann starf sem leiðsögumaður og rútubílstjóri. Þegar hann ók litlum rútum var hann hvortveggja í senn. Hann hefði ekki getað fundið betra starf til að ljúka sínum ferli, því hann var minnugur og sagði vel frá.

Jón hafði alla ævi haft mikinn áhuga á farartækjum, einkum bílum og flugvélum, enda hafði hann einkaflugpróf. Jón hafði ætíð dáðst að rútubílstjórum og var nú orðinn einn þeirra, en mátti jafnframt segja túristum sögur, eftir því, sem tækifæri gáfust við aksturinn. Þessum störfum lauk hann í sumar og fór með konu sinni í siglingu frá Flórída til Ítalíu, en skömmu eftir heimkomuna heltóku hann veikindi þau, sem drógu hann til dauða á svo skömmum tíma. Þessi voru hinsvegar ekki einu störf Jóns, því hann var löngu genginn í SÁÁ, en á vegum þeirra samtaka var hann síðan virkur forvarnamaður og fyrirlesari og þaðan eiga honum margir gott að þakka. Jón lifði í góðu hjónabandi með Sigríði Guðjónsdóttur og lifir hún mann sinn.

Ragnar G. Kvaran.

Ég kynntist Jóni (Nonna) mági fyrir tæpum 60 árum þegar ég varð unnusti yngri systur hans, Önnu Möggu, sem nú er eiginkona mín. Nonni var þá tæplega 10 ára gamall og því langt árabil á milli okkar, hann í barnaskóla og ég við nám í læknisfræði við Háskóla Íslands.

Við áttum því ekki margt sameiginlegt, hann barn og ég fullorðinn maður. En með okkar fjölskylduböndum fylgdumst við að á ýmsan hátt. Fyrst hófst eiginleg vinátta á milli okkar þegar hann bjó hjá okkur, mér og Önnu Möggu systur hans, við verslunarnám sitt í Boston veturinn 1961-62. Síðan hélst sú vinátta með fjölskylduböndunum öll árin sem hann starfaði við hin ýmsu viðskipta- og ferðamálafyrirtæki. Jón var afar vandvirkur og fróður um allt sem sneri að hverju starfi hans og naut sérstakrar virðingar atvinnuveitenda sinna. Sérstaklega varð sterk vinátta á milli hans og Kjartans J. Jóhannssonar hjá Asiaco og entist hún út ævi Kjartans þótt Nonni væri þá farinn til annarra starfa. Sem sölumaður fyrir fyrirtækið kynntist Nonni landi sínu og þjóð á nýjan hátt á ferðum sínum til helstu bæja og þorpa landsins. Gáfur hans og starfsreynsla og mikil þekking á landi okkar og þjóð leiddu til þess að hann fann sína köllun í starfi og gerðist hann að loknum prófum leiðsögumaður um Ísland hjá fyrirtækinu Allrahanda ehf. og í því starfi þroskaðist hann frekar á því sviði og varð mjög vinsæll og eftirsóttur sem langferðabifreiðastjóri og leiðsögumaður. Þegar ferðamenn voru 20 eða færri annaðist Nonni bæði akstur smærri langferðabifreiða (fjallarútur oft) og leiðsögu um þjóðvegi landsins og fjallvegi. Í öllu námi og störfum hans stóð eiginkona hans, Sigríður Guðjónsdóttir, þétt að baki honum.

Í veikindum sínum seinni árin leitaði Nonni mikið til mín varðandi svör við spurningum sem hann hafði og ekki var svarað nægilega af læknum hans, að hans dómi. Í raun voru þetta spurningar sem hann bjó til að vandlega hugsuðu máli. Þessar spurningar voru þess eðlis að þær sýndu enn frekar hans skilning og jafnframt fólu þær í sér mikla viðurkenningu á störfum lækna og hjúkrunarfólks sem önnuðust hann. Nonni tók sínum örlögum með mikilli rósemd og dó með fullan huga af þakklæti til þeirra sem hann önnuðust.

Við hjónin og börnin okkar fjögur og fjölskyldur þeirra flytjum ekkju hans, Sigríði Guðjónsdóttur (Sísí), okkar innilegustu samúðarkveðjur og þökkum góða samfylgd og vináttu í lífinu.

Jónas Hallgrímsson

(Jónas mágur).

Það haustar að, laufin falla af trjánum, eftir að hafa skartað sínu fegursta og litadýrð haustsins verið í algleymingi, kær vinur fellur frá, siglir á öldum ljósvakans á vit hins óþekkta, eftir að hafa háð harða baráttu við illvígan sjúkdóm. Vinur okkar hjóna og nágranni til margra ára, ferðafélagi ásamt sinni yndislegu konu á hinum ýmsu ferðalögum okkar um heiminn, þar sem hann var hrókur alls fagnaðar og gat líka notið sín sem leiðsögumaður og bílstjóri, þar sem það var hans starfi seinni árin hér heima og hafði hann mikla ánægju af því og naut sín vel.

Í fyrstu kynntist ég þessum glæsilegu hjónum árið 1965 þegar ég fluttist að Háaleitisbraut 37 þar sem við vorum samtíða í 10 ár, svo urðum við aftur nágrannar þegar við hjónin fluttumst í Brekkubyggðina og betri granna er ekki hægt að hugsa sér.

Með þessum fátæklegu orðum langar mig að þakka fyrir allar okkar góðu samverustundir og vináttu og bið Guð að styrkja Sísí mína í hennar miklu sorg.

Oddbjörg Júlíusdóttir.

Elsku Nonni minn, mikið rosalega er leiðinlegt að þú sért farinn frá mér. Minningarnar sem við eigum eru svo ótal margar og dýrmætar. Það var alltaf svo gott að koma til ykkar Sísíar í pössun þegar ég var lítil. Þú tókst alltaf svo vel á móti mér, þú ljómaðir allur og kysstir mig í bak og fyrir. Það var alltaf svo notalegt hjá okkur á kvöldin, þú leyfðir mér alltaf að ráða hvað væri í matinn sem var oftast spaghettí og hakk sem Sísí gerði. Á kvöldin horfðum við svo saman á sjónvarpið þangað til að ég sofnaði í kjöltunni á þér. Það var svo gaman að vakna á morgnana því ég vissi að dagurinn myndi verða góður þar sem þú leyfðir mér alltaf að ráða hvað við myndum gera yfir daginn. Yfirleitt vissirðu hvað var í vændum. Við fórum ósjaldan í Perluna að fá okkur kúluís, skoðuðum flugvélarnar á Reykjarvíkurflugvelli, fórum í fjöruna eða í langan sunnudagsbíltúr. Langskemmtilegast var þó að fara í sveitina, það var aldrei leiðinlegt að fara með þér í þær ferðir. Þú hafðir alltaf frá svo miklu að segja sem var svo áhugavert og skemmtilegt. Það var alltaf jafnfyndið að heyra þig segja að heyrúllurnar á túnunum væru sykurpúðar fyrir tröllin í fjöllunum og að grænu rúllurnar væru mynta fyrir tröllin sem væru með kvef. Sá brandari gleymist seint.

Á seinustu árum hefurðu alltaf verið mín stoð og stytta í öllu sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Þú hvattir mig mest af öllum í gegnum námið og vaktir áhuga minn á svo ótalmörgu. Þegar ég tilkynnti þér að ég hefði valið stjórnmálafræði í Háskólanum kom það þér ekkert á óvart, ég þurfti ekki að segja þér það því þú vissir það. Þú þekktir mig svo vel, þú sást alltaf á mér þegar mér leið illa og varst alltaf tilbúinn að hjálpa mér. Það þótti óeðlilegt ef það leið meira en vika sem við heyrðum ekki hvort í öðru. Þú vísaðir mér á beinu brautina í lífinu og fyrir það á ég þér svo margt að þakka. Þegar þú kynntir mig fyrir fólki sagðirðu að þú ættir stóran hlut í mér og værir nokkurs konar afi minn. Fyrir mér varstu ekki bara það heldur einnig besti vinur minn. Vináttan okkar var sérstök sem bara við tvö skildum og henni mun ég aldrei gleyma.

Eygló Alexandra

Sævarsdóttir.

Elsku Nonni minn hefur nú kvatt okkur. Minningarnar um góðan mann streyma um huga minn. Það var alltaf gott að koma í Brekkubyggð, þá komu Nonni og Sísí alltaf brosandi á móti okkur Eygló. Dýrmætar minningar sem ég á frá skemmtilegum sumarbústaðarferðum og tjaldútileigum úr Fljótshlíðinni, ylja mér um hjartarætur. Þú varst svo góður við hana Eygló mína og fræddir hana um ýmsa hluti, t.d. pólitík. Ræðan var falleg sem þú hélst í fermingunni hennar og stoltur varstu þegar hún varð stúdent í fyrra, brosið fór ekki frá þér þann dag enda stóðstu þig vel í afahlutverkinu í stað pabba míns sem lést um aldur fram.

Elsku Nonni, nú ert kominn í sumarlandið og ég mun hitta þig þar síðar. Takk fyrir að vera svona góður við hana Eygló mína.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

(Vald Briem.)

Hrafnhildur Halldórsdóttir.

Árið 1990 var þjóðarátak gegn krabbameini undir kjörorðinu „Til sigurs“. Þetta vakti þónokkra umræðu enda fólk vanast því að hugsa um krabbamein sem ósigrandi vágest. Það var hins vegar sýn þeirra sem sem leiddu þetta átak að forvarnir sjúkdóma eru ekki takmarkaðar við að koma í veg fyrir þá eða greina á forstigum heldur spanni þær allt sviðið og nái líka til meðferðar og líknar.

Þetta rifjast allt upp fyrir mér eftir að hafa fylgst með vini mínum Jóni Lárussyni gegnum öll stigin. Barátta hans til sigurs tók enda á líknardeildinni í Kópavogi sl. föstudag, 30. september. Hann trúði alltaf á batann og sýndi ótrúlegan andlegan styrk og æðruleysi í veikindum sínum.

Við Nonni vorum jafnaldrar og áttum ljúfar stundir saman í bernsku í Norðurmýrinni í Reykjavík og á sumrin við Álftavatn í bústöðum foreldra okkar. Þar voru mjög náin fjölskyldutengsl. Eftir unglingsárin fórum við hvor sína leið en vorum alltaf í kallfæri. Nonni fór í flugið og stundaði margs konar störf í verslun og þjónustu. Alltaf sýndi hann mikið frumkvæði og hreif fólk með sér en aldrei setti hann sig á stall, fremur var honum lagið að vinna sín verk af alúð og leyfa öðrum að njóta hylli.

Fyrir rúmum 13 árum lágu leiðir okkar aftur mjög náið saman þegar við fórum að stunda forvarnir í bókstaflegri merkingu í eigin lífi. Eins og annað tók Nonni það föstum tökum og sýndi afburðagott fordæmi í lífi og starfi. Honum var sýndur sá trúnaður í sveitarfélagi sínu, Garðabæ, að vera fulltrúi í forvarnarnefnd bæjarins. Bárum við oft saman bækur okkar, samhæfðum okkur og áttum fjölmarga fundi saman og með félögum okkar.

Á þessum tíma söðlaði Nonni einnig um og fór í leiðsögumannsnám sem hann lauk með prýði. Sneri hann sér svo alfarið að ferðaþjónustunni og varð fljótt mjög eftirsóttur í því starfi. Hann vann af miklum krafti þar til krabbameinið var greint 2008. Að fengum góðum bata sneri hann aftur til starfa en sjúkdómurinn lagði hann aftur í rúmið sl. sumar og síðan af velli eftir hetjulega baráttu.

Ég er afar þakklátur Jóni vini mínum Lárussyni fyrir að hafa gengið með mér drjúgan hluta af lífinu. Hann var gæfumaður og vissi hann það manna best. Talaði hann oft um það lán sitt að hitta Sísí lífsförunaut sinn sem hann virti og dáði að verðleikum.

Ég og fjölskylda mín færum Sísí og fjölskyldum þeirra Nonna innilegar samúðarkveðjur

Almar Grímsson.

Allt líf er ein hringrás og eitt vitum við menn að okkar jarðneska lífi lýkur, á misjöfnum aldri þó. Í dag kveðjum við vin minn og ferðafélaga til margra ára, Jón Lárusson. Jón kvaddi þennan heim ósáttur við að fá ekki að vera lengur hjá Sísí sinni og vinum, sem sagt ekki tilbúinn í þetta ferðalag enda aðeins 68 ára.

Jón var mjög fróður um land og þjóð og vinamargur, gat rætt um heima og geima, hafði góðan frásagnastíl og léttur andi var í sögum sem hann sagði. Við Jón vorum nágrannar og vinir í tuttugu ár og fórum við hjónin saman í margar ferðir til útlanda og eru frábærar minningar frá þessum ferðum. Í Marmaris í Tyrklandi tókum við litla rútu

heilan dag með fararstjóra, heimsóttum gamlar grafhvelfingar og syntum í sundlaug Kleóplötru, heimsóttum verksmiðju með vefnað, þar sáum við silkiofið teppi af síðustu kvöldmáltíðinni, eitt mesta listaverk sem ég hef séð. Í Króatíu tókum við bílaleigubíl og Jón ók um þvert og endilangt landið, þvílíkir dagar í dásamlegu veðri. Á Tenerife sólbað á daginn og frábærir veitingastaðir, dans og skemmtistaðir á kvöldin. Ekki má gleyma Taílandi, að heimsækja Jóhannes Guðmundsson vin Jóns og Sísíar og hans indælu frú, ótrúleg ferð, sýningar og söfn skoðuð, mikil ferðalög dans og gleði með þeim hjónum. Þetta voru allt mjög eftirminnilegar skemmtiferðir þar sem Jón var miðpuntur í gleði og söng.

Jón var góður tungumálamaður og fór fyrir nokkrum árum í Leiðsöguskólann og hefur nú seinni ár ekið rútum og verið sem leiðsögumaður og hef ég séð mörg þakkarbréf sem honum bárust frá þakklátum útlendingum fyrir frábæra leiðsögn og túlkun á landi og þjóð.

Að lokum þakka ég frábær kynni og vináttu og veit að Jón vinur minn er kominn þangað sem okkur öllum er ætlað að vera eftir dvöl hér í jarðnesku lífi.

Sísí mín, Guð styrki þig og styðji, þið voruð svo samstillt og elskuleg saman. Elsku Sísí, innileg samúð til þín og fjölskyldu.

Karl Ásgrímsson.