Kveðjuleikur Ólafur Jóhannesson stýrir íslenska landsliðinu í síðasta skipti í kvöld þegar Ísland leikur við Portúgal í Portó.
Kveðjuleikur Ólafur Jóhannesson stýrir íslenska landsliðinu í síðasta skipti í kvöld þegar Ísland leikur við Portúgal í Portó. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
LANDSLIÐIÐ Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu leikur í kvöld sinn síðasta leik í undankeppni Evrópumótsins þegar það etur kappi við Portúgala á Estadio do Dragao-vellinum í Porto.

LANDSLIÐIÐ

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu leikur í kvöld sinn síðasta leik í undankeppni Evrópumótsins þegar það etur kappi við Portúgala á Estadio do Dragao-vellinum í Porto. Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari kveður landsliðið með leiknum í kvöld. Hann hefur verið við stjórnvölinn í fjögur ár og stýrt landsliðinu í tveimur undankeppnum.

Verðum að verjast svakalega vel

„Við gerum okkur allir grein fyrir því að verkefnið er geysilega erfitt sem við erum að fara að takast á við. Portúgalarnir eru í þeirri stöðu að þeir mega alls ekki misstíga sig og þeir koma á fullu gasi á móti okkur. Portúgalarnir eru með frábært lið og það er alveg ljóst að við verðum að verjast svakalega vel. Okkur hefur í gegnum tíðina gengið ágætlega að verjast á móti þessum stóru þjóðum og vonandi verður framhald á því í þessum leik,“ sagði Ólafur við Morgunblaðið.

Portúgal, Danmörk og Noregur eru með 13 stig í efstu sætum riðilins en uppskera Íslendinga í honum hefur verið ansi rýr. Ísland er með fjögur stig en langþráður sigur vannst í síðasta mánuði þegar Kýpurbúar voru lagðir að velli. Portúgalar höfðu betur í fyrri rimmunni á Laugardalsvellinum, 3:1, þar sem stórstjarnan Cristiano Ronaldo skoraði fyrsta markið eftir um þrjár mínútur.

Frábærir með boltann

„Porúgalarnir eru frábærir þegar þeir hafa boltann en þeir eru ekkert sérstaklega góðir þegar þeir hafa hann ekki. Þeim þykir ekkert sérlega gaman að verjast en ég svo sem á ekkert von á að þeir verði mikið í vörninni gegn okkur. Við verðum að vera skynsamir og nýta vel þær sóknir sem við fáum í leiknum,“ sagði Ólafur.

Hvernig eru tilfinningarnar nú þegar þú ert að kveðja landsliðið?

„Ég hef svo sem ekkert hugsað mikið út í þetta. Það er langt síðan þetta var ljóst og ég lít á þennan leik eins og hvern annan sem ég hef stjórnað. Það yrði algjör draumur að kveðja liðið með góðum leik. Það eru ekki margir sem hafa trú á okkur í þessum leik en við göngum til leiks með eitt stig og munum reyna að verja það með kjafti og klóm. Strákarnir eru tilbúnir til að fórna sér og leggja mikið á sig,“ sagði Ólafur.

Ólafur neitar því ekki að hann saknar margra sterkra leikmanna en leikmenn eins og Eiður Smári Guðjohnsen, Kolbeinn Sigþórsson, Hermann Hreiðarsson og Grétar Rafn Steinsson eru fjarri góðu gamni. Þá er ljóst að Eggert Gunnþór Jónsson getur ekki verið með í kvöld vegna meiðsla og Helgi Valur Daníelsson er farinn til Svíþjóðar en eiginkona hans á von á barni.

Kemur að góðum notum að hafa prófað marga leikmenn

„Það er engin launung að við erum án öflugra leikmanna og auðvitað er það aldrei gott og ég tala nú ekki um ef þetta eru okkar bestu fótboltamenn eins og Eiður og Kolbeinn. Við eigum hins vegar sem betur fer þokkalega stóran hóp leikmanna. Ég sagði strax þegar ég tók við landsliðinu að ég ætlaði mér að prófa marga leikmenn og nú kemur það að góðum notum að geta kallað inn menn sem hafa verið í hópnum áður og þekkja umhverfið,“ sagði Ólafur.

Líklegt byrjunarlið

Stefán Logi Magnússon
Birkir Már Sævarsson
Sölvi Geir Ottesen
Kristján Örn Sigurðsson
Hjörtur Logi Valgarðsson
Hallgrímur Jónasson
Aron Einar Gunnarsson
Birkir Bjarnason
Gylfi Þór Sigurðsson
Jóhann Berg Guðmundsson
Rúrik Gíslason