Sigurbjörg Níelsdóttir fæddist 17. júlí 1958. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 25. september 2011.

Sigurbjörg var dóttir hjónanna Jakobs Níelsar Halldórssonar, starfsmanns Verðlagsstofu, f. 15. júlí 1924, d. 14. desember 2002, og Birnu Gunnarsdóttur húsmóður, f. 17. janúar 1932. Bróðir Sigurbjargar er Gunnar f. 28. apríl 1963, kvæntur Ragnhildi Björgu Jósefsdóttur, f. 15. apríl 1969. Börn þeirra eru Birna Ósk, f. 22. febrúar 1995, Tinna Björg, f. 26. júní 1998 og Ólafur Níels, f. 9. október 2001.

Sigurbjörg ólst upp í Oddeyrargötu 32 á Akureyri, en fluttist með fjölskyldunni í Hafnarstræti 86b árið 1969. Síðan lá leið fjölskyldunnar í Hjallalund 3 áður en hún flutti í Kringlumýri 31 árið 1991. Í Kringlumýri 31 bjó Sigurbjörg til æviloka.

Að lokinni hefðbundinni skólagöngu í Barnaskóla Akureyrar og Gagnfræðaskólanum á Akureyri fór Sigurbjörg út á vinnumarkaðinn. Hún starfaði um árabil á fataverksmiðjunni Heklu á Gleráreyrum, sem var ein af svokölluðum Sambandsverksmiðjum. Frá árinu 1991 til 2003 var Sigurbjörg starfsmaður í KA-heimilinu þar sem hún kynntist óteljandi fjölda íþróttaiðkenda á öllum aldri og naut þess mjög að starfa með þeim.

Í frístundum sínum safnaði Sigurbjörg ýmsum hlutum, meðal annars servíettum, en bestu stundir sínar átti hún sem dyggur stuðningsmaður Knattspyrnufélags Akureyrar. Hún var gallhörð KA-kona og hvatti sitt fólk til dáða af einlægni og festu en umfram allt þó á jákvæðan hátt.

Útför Sigurbjargar verður gerð frá Akureyrarkirkju í dag, 7. október 2011, og hefst athöfnin kl. 13.30.

Bögga. Yndisleg manneskja, herbergið hennar, rauður litur, bleikur litur, jól, jólaskraut, Kókópuffs, KA heimilið, Liverpool, styttur, fagurkeri. Þetta eru orðin sem koma upp hjá okkur systkinunum þegar við hugsum til Böggu. Minningar okkar fara allt aftur í Hjallalund þar sem þau bjuggu vel og lengi. En við ásamt foreldrum okkar gerðum það að vikulegum viðburði að kíkja til Binnu og Nella á laugardagsmorgni og við krakkarnir fórum nánast yfirum af gleði þegar laugardagur nálgaðist.

Maður fann það frá upphafi hvaða manneskju hún Bögga okkar geymdi. Þegar við komum í heimsókn, fór Bögga alltaf í Hrísalund og keypti kókópuffs handa okkur. Stóran pakka. Bögga hlustaði og gaf góð ráð og það var alltaf hægt að leita til hennar. Hún var alltaf reiðubúin að gera allt fyrir okkur. Bögga gaf sér alltaf tíma fyrir okkur, Hvernig hafið þið það? Hvernig gengur skólinn? Hvað segja vinir ykkar gott? Áhuginn fyrir því hvernig okkur gekk var alger, allt fram til síðasta dags. Stytturnar í herberginu hennar, skrautið í gluggunum, og þá sérstaklega fyrir jólin hjá Böggu er eitthvað sem við minnumst vel. Þú gast verið inni í herberginu hennar allan daginn og séð eitthvað nýtt. Þetta var eins og að koma í lítið töfraland, langt fyrir utan raunveruleikann. Allt var hornrétt og snyrtilegt.

Í sumar var frænkuhittingur í Kringlumýrinni þar sem systur mínar, Bögga og frænkurnar hittust. Bögga var þar hrókur alls fagnaðar eins og alltaf. Hún kvartaði aldrei yfir neinu, hún gaf og gaf og svo gaf hún aðeins meira og þá erum við ekki að tala um veraldlegar gjafir. Bögga var eins falleg og gjafmild og hægt var. Á hverju ári eftir að hafa keyrt út jólakortin á aðfangadag, fórum við til Binnu og Nella sem varð svo til Böggu seinna meir. Þetta er orðin mjög svo sterk hefð í jólaundirbúningi okkar systkinanna og þekkjum við ekkert annað. Þessari hefð verður á einhvern hátt haldið gangandi, Bögga mín, ekki halda neitt annað.

Ef við þekkjum Böggu rétt þá er hún búin að koma sér vel fyrir þar sem hún er, með nýtt lögheimili, stytturnar á sínum stað og öllum hlutunum er vel raðað og allt er hornrétt. Rúmið hennar er fullumbúið, púðarnir á sínum stað, og er hún búin að laða að sér allt það góða fólk sem í kringum hana er. Fólk eins og Bögga fær allt það besta hvar sem er, hvenær sem er. Fyrir okkur er Bögga bara flutt, hún er hjá okkur alltaf.

Við kveðjum uppáhaldsfrænku með miklum söknuði og við erum alltaf til staðar, Bögga mín, fyrir þig þar sem við vitum vel að þú ert að lesa þetta. Það er sagt að það fylgi þér ávallt einhver meðan þú ert á lífi. Pant fá Böggu. Við vitum ekki hvort það er aldurinn eða eitthvað annað, en þetta er erfiðasta bréf sem við höfum nokkurn tímann skrifað og það er fullgild ástæða fyrir því. Elsku Binna, Gunni, Ragga og fjölskylda. Okkar allra dýpsta samúð fer til ykkar á þessum erfiðu tímum og ef það er eitthvað, þá erum við hér fyrir ykkur, hvenær sem er. Bögga, við söknum þín sárt. Við sjáumst hinum megin.

Ásrún, Ásgeir (Brói) og Alís.

Öll eigum við minningar. Minningar um fegurð náttúrunnar, fólk sem við höfum kynnst og atburði sem við höfum upplifað. Það fer eftir eðli minninganna hvaða tilfinningar þær vekja í brjóstum okkar.

Þegar ég á þessari stundu hugsa til þín fyllist ég þakklæti fyrir að hafa fengið að eiga þig sem frænku. Ég man svo vel eftir þér sem lítilli og því hvað mér fannst gaman að fá að passa þig, alltað svo fín, stillt og prúð. Ég minnist líka stolts foreldra þinna og hvernig þau lögðu sig öll fram um að gera líf ykkar systkinanna gleðiríkt. Þú tileinkaðir þér í gegnum öll þín ár allar þær dyggðir sem þér voru kenndar í æsku og ég veit að það eru margir sem eru þér þakklátir því þú varst alltaf boðin og búin að hjálpa öðrum og komst þér allsstaðar vel. Þú varst glaðvær og jákvæð og hafðir einstaklega fallegan hlátur. Ég dáðist að gleði þinni og bjartsýni er við töluðum saman þann 12. september síðastliðinn þó þér og þínum nánustu hafi eflaust verið ljóst hvert stefndi.

Kærleikur er auður sem vex því meira sem af honum er tekið og þú gafst af þér öll þín æviár en ætlaðist ekki til endurgjalds.

Allt í tilveru okkar er gáta frá því smæsta til hins stærsta, efnið og andinn, lífið og dauðinn. Hvernig lífsbraut okkar verður fer eftir upplagi, uppeldi, eigin vilja og ákveðni.

Í Biblíunni stendur að við eigum ekki að safna fjársjóði á jörðu heldur á himni.

Sá fjársjóður sem þú ferð með með þér er trú á hið góða, hjartahlýja, fallegar hugsanir og umhyggjusemi.

Kahlil Gibran segir m.a. um dauðann:

Og hvað er að hætta að draga andann annað en að frelsa hann frá friðlausum öldum lífsins, svo að hann geti risið upp í mætti sínum og ófjötraður leitað á fund Guðs síns.

Kæra Bögga! Guð blessi minningu þína. Sofðu rótt.

Þín frænka,

Kristjana.

Það kom mér að vísu ekki alveg á óvart þegar Gunni hringdi í mig og sagði að Bögga okkar hefði dáið þá kvöldið áður. Við Gunni höfðum rætt um þetta og við vissum að dómurinn var kominn, en vonuðum báðir að biðin yrði lengri og að Bögga mætti njóta þess í faðmi ástvina sinna að fá að lifa lengur. Sá sem öllu lífi okkar ræður er ekki alltaf sanngjarn finnst okkur, og þá sárstaklega þegar í hlut eiga þeir einstaklingar sem bara haga lífi sínu þannig að samborgurum þeirra og vinum líður betur í návist þeirra. Þannig var það með Böggu. Hún var einstök í sínu lífi. Hún breiddi út meðal okkar gleði og jákvæðni sem raunar átti engan sinn líka. Hún vildi að allir væru vinir og hún umgekkst alla af þeirri ástúð og nærgætni að til var tekið. Fjölskyldan var þó alltaf númer eitt, bæði þeir nánustu og einnig þeir fjarskyldustu.

Ég held að bestu árin hennar hafi verið þegar hún vann í KA-heimilinu. Þar umgekkst hún mikið ungt fólk, bæði skólabörn og íþróttafólk og þar eignaðist hún mikinn fjölda vina. Þarna var hennar heimavöllur og hún naut þess að vinna þar. Þegar heilsunni fór svo að hnigna og hún varð að segja upp því starfi sem hún unni mest var hugurinn alltaf til staðar, sérstaklega þegar uppáhaldsliðið hennar KA var að spila. Heiman úr stofu sinni fylgdist hún með eins og hægt var, sama hvort um var að ræða börn, fullorðna, handbolta, fótbolta, blak eða júdó, þá var hugurinn á keppnisvellinum alveg til síðustu stundar. Það var ánægjulegt að drengirnir í Handboltafélagi Akureyrar tileinkuðu Böggu vinkonu sinni sigur liðsins daginn eftir að hún lést.

Við í minni fjölskyldu áttum alltaf náin kynni við Böggu og fjölskyldu hennar og urðu samverustundirnar margar. Oft var líf í tuskunum þegar fjölskyldan kom saman og mikið hlegið. Á gleðistundum var Bögga hrókur alls fagnaðar og á sorgarstundum var gott að eiga hana að. Einn landsþekktur íþróttamaður sem mikið var í KA-heimilinu kallaði Böggu alltaf Nellikuna sína. Það var að sönnu því í lystigarði lífsins var hún algjör nellika sem reis hæst úr blómabeði daglegs lífs.

Bögga bjó alltaf heima hjá foreldrum sínum Nella og Binnu og eftir að Nelli dó bjuggu þær mæðgur saman á sínu fallega heimili í Kringlumýrinni. Nú hefur hallað undan fæti hjá Binnu og hefur hún undanfarna mánuði verið á sjúkrastofnun og í fyrsta sinn á ævinni bjó Bögga ein þann tíma. Gunni sér nú af einu systir sinni en mjög kært var alltaf á milli þeirra systkina. Einkadóttir Binnu er fallin frá langt um aldur fram.

Við fjölskylda mín vottum Binnu, Gunna, Röggu og börnum þeirra sem nú sjá af sinni kæru frænku sem var þeim börnum svo mikið, dýpstu samúð og við vitum að söknuður þeirra er mikill. Við biðjum almáttugan guð að vaka yfir velferð þeirra um ókomna tíð.

Ólafur og

Bente Ásgeirsson.

Nú er komið að kveðjustund, Bögga eins og hún var alltaf kölluð var einstök persóna og það eru forréttindi að hafa fengið að kynnast henni. Alltaf þegar ég mætti í KA-heimilið til að þjálfa og hún var á vakt var byrjað að spjalla. Bögga lumaði alltaf á nokkrum sögum og kunni þá list að segja skemmtilega frá. Á þessum árum tók ég oft krakkana mína, Stefán og Sólveigu, með á æfingar, þau voru ekki há í loftinu þegar þau byrjuðu að fara með mér og var Bögga fljót að laða þau að sér og reyndist þeim frábærlega. Ég þurfti aldrei að hafa áhyggjur af þeim og þegar æfingin var búin gat ég verið viss um að finna þau hjá henni. Hún hafði einstakt lag á börnum og átti mjög auðvelt með að umgangast allan þann fjölda sem kom í KA-heimilið á hverjum degi.

Það var gott að koma til hennar í afgreiðsluna þegar mann vantaði eitthvað, hún var alltaf fljót að bjarga því, alveg sama hvert vandamálið var. Eitt sinn lenti ég í vandræðum og leitaði þá auðvitað til hennar. Sigmar Þröstur Óskarsson landsliðsmarkmaður, sem spilaði þá með KA, var með alls konar hjátrú og eitt af því sem hann varð að hafa í leikjum var rétt blandaður íþróttadrykkur. Fyrir einn leikinn þegar ég ætlaði að fara að blanda drykkinn kom í ljós að efnið í hann var búið. Nú voru góð ráð dýr, stutt í leik og ekki tími til að útvega nýtt efni. Ég fór til Böggu til að athuga hvort hún gæti bjargað mér. Bögga var auðvitað fljót að átta sig og sagði: „Við blöndum handa honum Egils-djús og segjum honum að þetta sé útlenskur orkudrykkur.“ Hún blandaði í brúsa, ég fór með hann til Simma og sagði honum að umboðsmenn Lucozade á Íslandi hefðu beðið um að nýr drykkur yrði prófaður. Simmi tók vel í það, drakk vel af djúsnum í leiknum, stóð sig frábærlega og sagði eftir leikinn: „Þennan drykk verðum við að hafa í hverjum leik.“ Þessi blanda var síðan notuð í öllum leikjum sem eftir voru og reyndist vel.

Þessi saga sýnir vel hversu úrræðagóð og fljót að hugsa hún var. Það var frábært að umgangast hana, hún var alltaf í góðu skapi og það var alveg sama hvað maður leitaði til hennar með, hún leysti strax úr því. Öll þessi ár sem ég þekkti hana sá ég hana aldrei skipta skapi, hún var alltaf þessi skemmtilega kona sem vildi allt fyrir alla gera. Í vor þegar við Unnur vorum á Akureyri heimsóttum við Böggu í Kringlumýrina og urðu þar fagnaðarfundir. Rifjaðar voru upp gamlar sögur og mikið hlegið. Ég er ekki frá því að sögurnar hafi meira að segja batnað með árunum enda á góð saga ekki að þurfa að líða fyrir sannleikann. Við sátum hjá henni drjúga stund og þótt Bögga hafi verið fersk og skemmtileg að vanda fór ekki fram hjá okkur að hún var að glíma við erfið veikindi. Þau settu hana samt ekki út af laginu og hún var sjálfri sér lík þrátt fyrir allt.

Elsku Gunni, Ragga og börn, við Unnur sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur í sorg ykkar og söknuði og biðjum þess að Guð gefi ykkur styrk. Við vitum að minningin um hana á eftir að vera ljós í lífi okkar allra.

Árni J. Stefánsson.

Bögga var sannur gleðigjafi. Fram á síðasta dag var hún með spaugsyrði á vörum. Gerði grín að sjálfri sér og öðrum ef því var að skipta. Nú standa minningarnar einar eftir, en fyrir alla þá sem þekktu Böggu eru þær dýrmætur fjársjóður.

Knattspyrnufélag Akureyrar var hennar félag. KA með stórum stöfum. Vissulega fékk hún það í vöggugjöf að vera KA-kona, enda sterkir KA-stofnar sem að henni stóðu. Hver man ekki eftir Nella Halldórs, föður Böggu, einum mesta KA-manni allra tíma? Jákvæður stuðningur hans við félagið sitt er ógleymanlegur. Og Bögga hélt uppi merkjum föður síns. Hún var óspör á hvatninguna til þeirra gulbláklæddu, ekki síst þegar gaf á bátinn. Það var lýsandi fyrir Böggu á liðnu sumri þegar hún skrifaði ófá hvatningarorðin og sendi þannig jákvæða strauma í gegnum samskiptavefinn Facebook til knattspyrnupiltanna í meistaraflokki KA. Hún fylgdist af áhuga með sínum mönnum, þó heilsan leyfði ekki að hún gæti mætt á völlinn.

Fyrir hennar mörgu vinnustundir í þágu knattspyrnunnar í KA, að ekki sé talað um hvatningu og stuðning, þakkar félagið af heilum hug. Slíkir stuðningsmenn eru öllum félögum dýrmætari en orð fá lýst.

Sökum heilsubrests þurfti Bögga að hætta störfum í KA-heimilinu árið 2003, en þar hafði hún unnið í meira en áratug og kynnst gríðarlega mörgum sem þangað komu til íþróttaæfinga eða í öðrum erindagjörðum. Starfið í KA-heimilinu var það skemmtilegasta sem Bögga hafði tekist á við um dagana.

Fyrir um ári greindist Bögga með illkynja krabbamein. Glíman við meinið var snörp og ójöfn, en Bögga tókst á við hana af yfirvegun og æðruleysi.

Trén hafa fölnað, laufblöðin fallið og veturinn hefur þegar minnt á sig. En KA-menn halda áfram að fara inn á völlinn til þess að gera sitt besta. Í minningu Böggu.

Birnu Gunnarsdóttur, móður Böggu, Gunnari og fjölskyldu og öðrum aðstandendum, sendi ég innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd Knattspyrnufélags Akureyrar,

Óskar Þór Halldórsson.

Knattspyrnufélag Akureyrar er ekki stærsta íþróttafélag landsins en þrátt fyrir það er það langstærsta félag í heimi í augum margra aðila. Sigurbjörg Níelsdóttir eða Bögga eins og við öll kölluðum hana var klárlega ein af þeim sem litu þannig á félagið okkar. Við, sem skrifum þessa grein, vitum það vel að það þarf mun meira til en frambærilega íþróttamenn og þjálfara til að ná árangri. Það þarf góða stjórn, góða stuðningsmenn, styrktaraðila og síðast en ekki síst þarf þetta að smella saman og mynda stóra fjölskyldu. Þar verður framlag „Nellanna“ seint ofmetið. Það sem þetta fólk hefur gert fyrir KA á mjög svo stóran þátt í því sem þetta litla félag hefur þó afrekað.

Við félagarnir sem vorum saman í handboltanum vorum ekki alltaf upplitsdjarfir þegar við mættum á æfingu daginn eftir tapleik. Svo ekki sé talað um æfingar á undirbúningstímabilinu með Alla Gísla hálffroðufellandi, bíðandi eftir að píska okkur áfram. Þá var það líka oft önnur og skilningsríkari manneskja sem beið eftir okkur og það var hún Bögga. Ef hún var á vaktinni í KA heimilinu beið hún iðandi af kæti, tók vel á móti okkur og oftar en ekki með brandara dagsins tilbúinn. Á sinn hátt gerði hún okkur klára fyrir verkefni dagsins, fékk KA hjartað í gang. Bögga tók okkur öllum sérvitringunum vel og erum við henni þakklátir fyrir hvað okkur leið vel í félagsheimili okkar. Þá var sama hvort um var að ræða „hreinræktaða“ KA menn eða „sérfræðinga að sunnan.“ Við vorum í fjölskyldunni. Bögga var karakter sem öll félagsheimili ættu að eiga til að breyta húsi í raunverulegt félagsheimili með sál. Þótt leikmenn hafi fengið medalíu um hálsinn þá var framlag þitt og ykkar „Nellanna“ ekki minna.

Bögga eignaðist ekki börn sjálf en átti stóran hluta í börnum Gunna og Röggu sem og þeim fleiri hundruð krökkum sem æfðu með KA. Þeim sýndi hún alltaf þolinmæði og virðingu og sú virðing var endurgoldin.

Yndisleg persóna eru orð sem lýsa Böggu best.

Takk fyrir allt, elsku Bögga. Nafn þitt mun lifa með félaginu

Birna, Gunni, Ragga og börn. Við, bikarmeistarar KA í handknattleik 1995, sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur.

Fyrir hönd strákanna,

Björn Björnsson og

Einvarður Jóhannsson.

HINSTA KVEÐJA

Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér,
og það er svo margs að minnast
svo margt sem um hug minn fer,
þó þú sért horfinn úr heimi
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir.)

Kær vinkona er kvödd.

Elsku Birna, Gunni, Ragga og börn,
Þið sem voruð henni svo einstaklega góð, okkar innilegustu samúðarkveðjur

Ingibjörg, Axel og Ingólfur.