Fögnuður Heiðar fagnar marki ásamt miðjumanninum Joey Barton. Heiðar átti frábæran leik gegn Manchester City.
Fögnuður Heiðar fagnar marki ásamt miðjumanninum Joey Barton. Heiðar átti frábæran leik gegn Manchester City. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FÓTBOLTI Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Heiðar Helguson átti frábæran leik fyrir nýliða QPR þegar liðið tapaði fyrir toppliði Manchester City, 3:2, á Loftus Road. Heiðar skoraði síðara mark QPR og jafnaði metin á 69.

FÓTBOLTI

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Heiðar Helguson átti frábæran leik fyrir nýliða QPR þegar liðið tapaði fyrir toppliði Manchester City, 3:2, á Loftus Road. Heiðar skoraði síðara mark QPR og jafnaði metin á 69. mínútu en Yaya Toure tryggði stjörnum prýddu liði City öll stigin með marki á 74. mínútu. Minnstu munaði að Heiðari tækist að jafna metin en þrumuskalli Dalvíkingsins small í stönginni. Heiðar var afar líflegur í sóknarleik nýliðanna og hvað eftir annað gerði hann usla í vörn Manchester-liðsins. Varnarmenn City réðu ekki við Heiðar í háloftunum og það er klárt mál að hann er einn allra besti skallaðurinn í ensku úrvalsdeildinni.

Vorum betri aðilinn

„Mér fannst ansi fúlt að fá ekkert út úr þessum leik. Við vorum betri aðilinn í leiknum að mínu mati en ein ástæða þess að Manchester City hefur ekki tapað leik og er í efsta sætinu er að það bara bætir í ef það lendir undir. Ég hefði viljað komast í 2:0 og þá er ég viss um að eftirleikurinn hefði orðið erfiður fyrir City-liðið. Ég var ekki langt frá því að jafna metin en því miður fór boltinn í stöngina. Ef ég hefði skorað þá er ég ekki viss um að þeim hefði tekist að vinna,“ sagði Heiðar við Morgunblaðið í gær.

Markið sem Heiðar skoraði var nokkuð skondið en eftir kollspyrnu Jay Bothroyd fór boltinn í bakið á Heiðari og þaðan í netið framhjá Joe Hart, landsliðsmarkverði Englendinga. Bothroyd vildi eigna sér markið eftir leikinn en Heiðar segist eiga markið.

Markið er mitt

„Það er alveg sama hvernig boltinn fer inn. Ég var réttur maður á réttum stað og á þetta mark. Ég læt Bothroyd ekki stela þessu marki en ætli þessi nefnd á vegum enska knattspyrnusambandsins blandi sér ekki í málið. Í mínum augum er þetta alveg skýrt. Markið er mitt,“ sagði Heiðar sem er markahæsti leikmaður QPR í deildinni með þrjú mörk.

Þú náðir að stríða varnarmönnum City hressilega í leiknum?

„Ég fann mig bara vel og gekk vel í skallaboltunum. Ég er í góðu formi og finn ekki fyrir neinum meiðslum. Það er gott að spila bara einn leik í viku en ekki á laugardögum og þriðjudögum eins og gerðist oft í 1. deildinni í fyrra. Leikur eins og þessi á móti City tekur mikið á skrokkinn en þegar það er einn leikur á viku þá nær maður að jafna sig og vera þá 100% klár þegar kemur að næsta leik,“ sagði Heiðar.

QPR er í tólfta sæti í deildinni með 12 stig eftir ellefu leiki og býst Heiðar við því að liðið verði að berjast í neðri helmingi deildarinnar í vetur.

„Ég held að við verðum í baráttu í neðri helmingi deildarinnar alla vega fram að áramótum. Ég reikna fastlega með því að það verði keyptir einhverjir leikmenn í janúar en hverjir það verða er ekki gott að segja til um. Það gæti reynst erfitt að fá einhver nöfn ef við verðum í fallsæti þegar félagaskiptaglugginn opnast en ef við spilum áfram eins og við gerðum á móti Manchester City er engin hætta á því.“

Veðja á Manchester City

Spurður út í það hvort Manchester City komi til með að standa uppi sem Englandsmeistari í vor sagði Heiðar: „Ég get ekki séð annað en að City hafi þetta. Þó að það sé mikið eftir þá held ég að þetta verði barátta Manchester United og Manchester City um titilinn og ég veðja á City.“

Ekkert verður spilað um næstu helgi í ensku úrvalsdeildinni vegna landsleikja en Heiðar og félagar sækja Stoke heim um aðra helgi.

„Það eru allir leikir í þessari deild erfiðir en það er fínt að fá frí núna. Ég ennþá þreyttur eftir leikinn við Manchester City. Ég svaf lítið eins og alltaf eftir leiki en ég verð ferskur þegar kemur að leiknum á móti Stoke.

Markahæstur
» Heiðar Helguson er markahæsti leikmaður QPR í deildinni með 3 mörk en áður hafði hann skorað gegn Blackburn og Chelsea.
» Heiðar var valinn maður leiksins hjá netmiðlinum goal.com fyrir frammistöðuna á móti Manchester City. Hann fékk 7,5 í einkunn.