Beðið Hópur fólks í röð fyrir utan „atvinnuhátíð“ í New York. Langtímaatvinnuleysi í BNA er orðið alvarlegt vandamál að mati sérfræðinga.
Beðið Hópur fólks í röð fyrir utan „atvinnuhátíð“ í New York. Langtímaatvinnuleysi í BNA er orðið alvarlegt vandamál að mati sérfræðinga. — Reuters
Í dag eru aðeins um 48% atvinnulausra í Bandaríkjunum á atvinnuleysisbótum, en hlutfallið var 75% í byrjun síðasta árs. AP greinir frá að slæmt atvinnuástand vestanhafs hafi varað svo lengi að stór hópur fólks hafi klárað bótaréttindi sín.

Í dag eru aðeins um 48% atvinnulausra í Bandaríkjunum á atvinnuleysisbótum, en hlutfallið var 75% í byrjun síðasta árs. AP greinir frá að slæmt atvinnuástand vestanhafs hafi varað svo lengi að stór hópur fólks hafi klárað bótaréttindi sín.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa þurft að grípa til þeirra aðgerða að lengja bótaréttindatímann með bráðabirgðalögum en nú stendur Bandaríkjaþing frammi fyrir því verkefni að ákveða fyrir lok ársins hvort lengja á bótatímann upp í 99 vikur í þeim ríkjum þar sem ástandið er verst. AP bendir þó á að lenging upp í 99 vikur myndi litlu breyta fyrir stóran hóp atvinnulausra þar sem þeir hafa hvort eð er verið atvinnulausir lengur en það.

Um þessar mundir er áætlað að um 14 milljónir Bandaríkjamanna séu atvinnulausar og þar af hefur þriðjungur verið án atvinnu í meira en ár. Mælingar benda einnig til að atvinnuleysisbætur hafi bjargað um 3,2 milljónum frá að falla undir fátæktarmörk, en bæturnar eru að meðaltali 300 dalir á viku fyrir hvern einstakling.

Til viðbótar við atvinnuleysisbætur nota um 46 milljónir Bandaríkjamanna matarávísanir frá ríkinu. Þá hefur umsóknum um örorkubætur fjölgað um 50% frá árinu 2007.

Ekki ástæða til bjartsýni

Á sama tíma greinir Wall Street Journal frá því að efnahagshorfur í Bandaríkjunum séu ekki beinlínis til að hrópa húrra fyrir og ekki von á meiru en mjög hægfara vexti.

Svo virðist sem ráðningum fari fjölgandi, en þó ekki mikið meira en svo að haldi í við almenna fjölgun handa á vinnumarkaðinum og ekki nóg til að saxa á uppsafnað atvinnuleysi. Launahækkanir hafa heldur ekki haldið í við verðbólgu svo hætta er talin á að hagkerfið vestanhafs geti ekki sótt kraft í aukna einkaneyslu.

ai@mbl.is