Júlíus Helgi Schopka
Júlíus Helgi Schopka
Eftir Júlíus Helga Schopka: "Löngu tímabær leiðrétting á ráðherragjaldskránni væri einfaldasta leiðin til þess að bæta úr ástandinu"

Þannig mátti a.m.k. skilja orð velferðarráðherra þegar hann kom fram í fréttum Stöðvar 2 föstudagskvöldið 4. nóvember sl. Hann sagði að ekki væri tryggt að aukin fjárframlög til tannlækninga barna myndu skila tilætluðum árangri og gaf í skyn að aukin fjárveiting myndi „bara hækka laun tannlækna“.

Guðbjartur er ráðherra málaflokks sem hefur kerfisbundið verið brotinn niður í fjölda ára og er í dag varla svipur hjá sjón. Á 19 ára tímabili, á árunum 1991-2009, hækkuðu útgjöld Sjúkratrygginga (SÍ) vegna endurgreiðslu á tannlækningakostnaði barna um 8%. Af hverju hækkaði endurgreiðslan svona lítið? Var tannlæknakostnaðurinn ekki hærri á tímabilinu? Er tannheilsa íslenskra barna orðin svona góð? Ekki skv. fyrrnefndri frétt á Stöð 2. Nei, skýringin er allt önnur.

Staðreyndir málsins

Það er mikilvægt að halda til haga að á málið snýst um börn og lífeyrisþega. Þessir hópar eiga skv. reglugerð að fá 75% tannlæknakostnaðar endurgreiddan af SÍ. Mikill meirihluti sjúklinga tannlækna greiðir tannlæknakostnað sinn að fullu sjálfur án nokkurrar endurgreiðslu frá SÍ. Þetta eru allir heilbrigðir Íslendingar milli 18 og 67 ára. Málið snýst ekki um þennan hóp. Það snýst um barnafjölskyldur í landinu, öryrkja og eldri borgara.

Það er líka mikilvægt að halda því til haga að hækkun eða lækkun á endurgreiðslu vegna tannlækninga barna er ekki hagsmunamál tannlækna. Endurgreiðslan er nefnilega endurgreiðsla til barnafjölskyldna á kostnaði sem þær hafa þegar greitt. Tannlæknar fá engar greiðslur frá SÍ. Það eru börnin sjálf sem fá þessar greiðslur. Hversu mikið stjórnvöld kjósa að styðja við barnafólk með endurgreiðslu á tannlæknakostnaði þeirra er þess vegna hagsmunamál barnafjölskyldna í landinu. Tannlæknar hafa kosið að leggja málstaðnum lið, enda er hann þeim hjartans mál, þó hann snerti ekki hagsmuni þeirra beint.

Kjarni málsins

Í janúar 1999 rann út samningur SÍ (þá TR) og Tannlæknafélags Íslands um endurgreiðslu fyrir tannlækningar barna og lífeyrisþega. Sá samningur var um fasta gjaldskrá fyrir tannlækningar þessara hópa. Hann var ekki endurnýjaður vegna þess að of mikið bar í milli hjá samningsaðilum. Tannlæknafélagið hefur síðan reynt ítrekað að semja upp á nýtt en stjórnvöld hafa hins vegar lítið verið tilbúin til þess sama.

Frá þeim tíma hafa SÍ endurgreitt tannlæknareikninga barna og lífeyrisþega skv. sinni eigin gjaldskrá, sk. „ráðherragjaldskrá“. Það er væntanlega sú gjaldskrá sem ráðherra málaflokksins telur sanngjarna fyrir þjónustuna. Síðan árið 1999 hefur þessi ráðherragjaldskrá hækkað um heil 8%. Á sama tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 92%. Allur rekstrarkostnaður tannlæknastofa s.s. húsaleiga, efniskaup, viðhald, eftirlitsgjöld og laun aðstoðarfólks hefur hækkað, eins og allt annað í þjóðfélaginu.

Gjaldskrár tannlækna hafa því frá 1999 eðlilega fylgt almennu verðlagi í landinu. Í dag er þess vegna mikill mismunur á raunverulegu verði þjónustunnar og því sem SÍ telja að hún eigi að kosta (skv. ævagamalli gjaldskrá). Hver greiðir þann mismun? Það gera barnafjölskyldur landsins og lífeyrisþegar, t.d. öryrkjar. Endurgreiðslan á að vera 75% en hún nær oftast ekki nema 25-40%.

Það er sáraeinfalt að laga þetta

Löngu tímabær leiðrétting á ráðherragjaldskránni væri einfaldasta leiðin til þess að bæta úr ástandinu, en af hverju ætli það hafi ekki verið gert öll þessi ár? Af hverju er skjólstæðingum Sjúkratrygginga neitað um réttmæta 75% endurgreiðslu á tannlæknakostnaði?

Ráðherra gaf í skyn að hækki ráðherragjaldskráin, muni tannlæknar hækka sínar gjaldskrár á móti og hirða mismuninn sjálfir. Hann gleymir að tannlæknar starfa á samkeppnismarkaði og að mikill meirihluti sjúklinga þeirra fær enga endurgreiðslu skv. ráðherragjaldskrá. Hann ætti því að vita að tannlæknar geta ekki hækkað gjaldskrár sínar svo glatt. Í því liggur besta trygging hans fyrir því að hækkun á ráðherragjaldskránni muni skila sér að fullu til barnanna.

Þrátt fyrir það hefur Tannlæknafélagið margítrekað boðið SÍ ýmsar leiðir til þess að tryggja að hækkun á ráðherragjaldskránni skili sér að fullu sem aukin endurgreiðsla til barnafólks. Það hafa SÍ hins vegar ekki viljað þiggja. Nærtækast er því að áætla að þar á bæ hafi menn í raun engan áhuga á að auka endurgreiðsluna.

Niðurskurður

Nú hefur verið skorið kerfisbundið niður í endurgreiðslu á tannlæknakostnaði barna og lífeyrisþega í rúman áratug. Sá niðurskurður hefur verið framkvæmdur, mjög meðvitað, með því að fullnýta ekki heimildir í fjárlögum og hækka ekki framlög til málaflokksins eins og verðlag hefur þróast. Þannig hafa Sjúkratryggingar og velferðarráðuneyti verið ansi útsmogin í að spara í stuðningi við barnafólk og lífeyrisþega í landinu. Þar hafa tannlæknar ekki haft hönd í bagga. Ráðherra getur ekki gert þá að blórabögglum í þessu máli.

Höfundur er tannlæknir.

Höf.: Júlíus Helga Schopka