Hún er brosleg umræðan um að „flytja“ Reykjavíkurflugvöll. Með því er gefið í skyn að hægt sé að rúlla flugbrautunum upp eins og gólfteppum og breiða þær út á nýjum stað.

Hún er brosleg umræðan um að „flytja“ Reykjavíkurflugvöll. Með því er gefið í skyn að hægt sé að rúlla flugbrautunum upp eins og gólfteppum og breiða þær út á nýjum stað. En auðvitað blasir við, að eina leiðin til að „flytja“ flugvöll er að brjóta hann upp og byggja nýjan.

Ef þjóðin hefur eitthvað lært af reynslu liðinna ára, þá er það að nýtni sé dyggð. Er það ekki líka í samræmi við lærdóm kynslóðanna? Með því að brjóta upp flugvöllinn til þess eins að reisa nýjan væri verið að kasta miklum verðmætum á glæ.

Ein lausnin sem sumir benda á er einfaldlega að sleppa því að byggja nýjan flugvöll og flytja flugið til Keflavíkur. Í því felst þó að gjáin breikkar milli Reykjavíkur og landsbyggðarinnar. Einhver kynni að kalla það öfugþróun á tímum þar sem stöðugt er leitast við að draga úr fjarlægðum á milli byggða.

Mér skilst að innanlandsflugið lengist um sjö til fjórtán mínútur og svo bætist við ökuferð í 30 til 45 mínútur. Það segir sig sjálft að afleiðingarnar yrðu gríðarlegar og myndu gera Reykjavík erfiðara um vik að standa undir því að geta talist höfuðborg allra landsmanna.

Sem dæmi má nefna, að ef fólk ætlaði sér í vinnuferð til Reykjavíkur, nú eða frá Reykjavík út á landsbyggðina – sem kemur víst fyrir, þá hefur það misst tæpa tvo klukkutíma úr vinnudeginum. En verst yrði höggið fyrir heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Ferðir í sjúkraflugi eru yfir 400 á ári og er þremur af hverjum fjórum sjúklingum stefnt til Reykjavíkur. Sumar flokkast sem F1 og þá er flýtirinn slíkur, að flugmenn hafa á orði að jafnvel þó að þeir sætu á klósettinu, þá yrðu þeir að fara strax af stað.

Það getur nefnilega skipt sköpum að koma sjúklingum sem allra fyrst á sjúkrahús. Í tilviki bráðakransæðastíflu þarf til dæmis að opna æðina fljótt áður en drep kemur í hjartavöðvann. Slíkar aðgerðir eru flóknar og einungis framkvæmdar á Landspítalanum. Mér skilst að svigrúmið sé einungis ein til tvær klukkustundir. Þar geta mannslíf verið í húfi, að hægt sé að lenda í Reykjavík.

Nú hafa tólf þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lagt til á Alþingi að lögbundið verði að í Reykjavík sé miðstöð innanlandsflugs. Á meðal flutningsmanna eru þingmennirnir Illugi Gunnarsson og Ólöf Nordal, sem leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur. Það þarf kannski ekki að koma á óvart að þingmenn höfuðborgarinnar sjái út fyrir borgarmörkin, þar sem þetta er í samræmi við landsfundarályktun flokksins frá 2009, þar sem kveðið er á um að „Reykjavíkurflugvöllur gegni áfram lykilhlutverki sem miðstöð innanlandsflugs“.

Framtíð Reykjavíkurflugvallar er öðrum þræði spurningin um það hvort menn vilji að Ísland breytist í borgríki. Ef svarið er nei, sem það hlýtur að vera hjá flestum, þá felur það óhjákvæmilega í sér skyldur af hálfu stjórnvalda gagnvart hinum dreifðu byggðum. pebl@mbl.is

Pétur Blöndal

Höf.: Pétur Blöndal