Víkverji er einn þeirra sem glaðst hafa yfir nýju og öflugu skipi Landhelgisgæslunnar og þykir honum mikið til þess koma. Ljóst er að löngu er orðið tímabært að Gæslan fái fullkomið skip til að sinna krefjandi verkefnum við Íslandsstrendur.

Víkverji er einn þeirra sem glaðst hafa yfir nýju og öflugu skipi Landhelgisgæslunnar og þykir honum mikið til þess koma. Ljóst er að löngu er orðið tímabært að Gæslan fái fullkomið skip til að sinna krefjandi verkefnum við Íslandsstrendur. Vonast Víkverji því til að Þór verði ekki sendur á vit ævintýranna um fjarlæg höf líkt og hent hefur bræður hans Ægi og Tý.

Smíð skipsins dróst talsvert en að sama skapi jókst eftirvænting landsmanna til muna og leyndi hún sér ekki þegar fjölmargir lögðu leið sína að Reykjavíkurhöfn í þeirri von að vera meðal þeirra fyrstu sem bera skipið augum. Athöfnin minnti Víkverja einna helst á afmælisveislu þar sem gestir veislunnar biðu óþreyjufullir eftir afmælisbarninu umkringdir fánum og fyrirmennum. Líkt og í alvöru veislum lét leynigestur sjá sig öllum að óvörum en í þann mund sem Þór sigldi inn hafnarmynnið í fylgd tveggja þyrlna og fjölmargra báta, flaug leynigesturinn yfir: TF-Sif, eftirlits- og björgunarflugvél Gæslunnar. Kom það Víkverja mjög á óvart að sjá Dashinn á flugi í íslenskri lofthelgi en þyrlan hefur verið ötul við að gegna landamæragæslu fyrir Landamæraeftirlitsstofnun Evrópusambandsins að undanförnu. Voru því blendnar tilfinningar að sjá Þór í fylgd fullmannaðs flugflota Gæslunnar. Bræðurnir tveir voru þó fjarri góðu gamni.

Eftir að Þór lagðist að bryggju var þjóðinni boðið um borð og nýttu þúsundir sér heimboðið. Að sjálfsögðu lét Víkverji ekki slíkt heimboð framhjá sér fara og skoðaði skipið gaumgæfilega. Vart þarf að nefna að Þór er hinn glæsilegasti enda talinn vera eitt fullkomnasta skip sinnar tegundar í heiminum. Þó vaknaði ein spurning: Á ekki að vera fallbyssa á gæsluskipum eða er það úreltur hugsunarháttur?