Klakfiskur Davíð Harðarson að störfum í stöð Stofnfisks í Vogum. Heilbrigð hrogn eru afhent kaupendum allt árið.
Klakfiskur Davíð Harðarson að störfum í stöð Stofnfisks í Vogum. Heilbrigð hrogn eru afhent kaupendum allt árið. — Ljósmynd/Lárus Karl.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Fyrirtækið Stofnfiskur hefur á síðustu tveimur árum fjárfest fyrir yfir hálfan milljarð króna í uppbyggingu og endurbótum á aðstöðu fyrirtækisins á Suðurnesjum.

Baksvið

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Fyrirtækið Stofnfiskur hefur á síðustu tveimur árum fjárfest fyrir yfir hálfan milljarð króna í uppbyggingu og endurbótum á aðstöðu fyrirtækisins á Suðurnesjum. Fyrirtækið er eitt stærsta fyrirtæki í heiminum í framleiðslu á laxahrognum og útlit er fyrir að í ár verði laxahrogn flutt út fyrir um 800 milljónir króna. Það er meira verðmæti á einu ári en áður í tuttugu ára sögu fyrirtækisins, en þrjú síðustu ár hefur útflutningur verið svipaður. Dr. Jónas Jónasson, framkvæmdastjóri Stofnfisks, gerir sér vonir um að á næsta ári verði flutt út um 100 milljón laxahrogn, tvöfalt það sem áætlað er að flutt verði út í ár.

Stofnfiskur hefur eflst mjög á síðustu árum og er nú eitt af þremur öflugustu fyrirtækjum í heiminum í framleiðslu laxahrogna. Segja má að máltækið um að eins dauði sé annars brauð eigi við í þessum efnum.

„Stofnfiskur hefur frá upphafi sérhæft sig í hrognaframleiðslu, en það var ekki fyrr en árið 2007 sem fyrirtækið fór virkilega að vaxa,“ segir Jónas. „Þá hafði komið upp skæður fisksjúkdómur í Síle og mönnum varð ljóst að á Íslandi var að finna einn heilbrigðasta laxastofn í heimi. Auk þess höfum við á þessum tuttugu árum þróað aðferðir með samspili náttúrulegrar birtu, raflýsingar, jarðvarma, sjávar og ferskvatns til að líkja sem mest eftir náttúrulegum hrygningaraðstæðum í kerjum á landi hvenær sem er á árinu.“

Sérstaðan styrkir Stofnfisk

Jónas segir að þessi sérstaða; heilbrigði og afhending allt árið, hafi styrkt fyrirtækið síðustu ár. Laxastofninn sem Stofnfiskur vinnur með kom upphaflega til landsins frá Noregi árið 1981 og síðan 1983 og 1984 og var notaður hjá Ísnó í Kelduhverfi og hjá Íslandslaxi í Grindavík. Síðan hefur Stofnfiskur stundað miklar kynbætur á þessum stofnum, sem má rekja aftur til fiskeldisævintýris níunda áratugarins.

Þegar sýkingin kom upp í laxinum í Síle fyrir fjórum árum stóðu forsvarsmenn Stofnfisks frammi fyrir því að þeir gátu ekki annað markaðnum í Suður-Ameríku. Í Síle hafi verið lokað á annan hrognainnflutning en frá Íslandi því í Noregi og Skotlandi og víðar í Evrópu séu skæðir sjúkdómar í laxinum.

Aukið framboð með fiskeldi

„Þegar Síle-menn uppgötvuðu að á Íslandi væri sterkur stofn sem aldrei hefði komist í tæri við þessa sjúkdóma byrjaði þróunin fyrir alvöru. Smám saman opnuðust fleiri markaðir fyrir okkur, til dæmis í Færeyjum, og núna í haust í Noregi, en Norðmenn framleiða sín hrogn á tímabilinu frá nóvember fram í júní. Norsk fyrirtæki sjá hag sinn í því að kaupa hrogn frá Íslandi frá júlí fram í nóvember þegar engin önnur hrogn eru til á markaðinum. Við höfum því unnið að stækkun allra okkar starfsstöðva til að mæta aukinni eftirspurn.

Það eru vísbendingar um að laxeldi í heiminum fari á þessu ári í 1,6 milljónir tonna og ekki er hægt að veiða mikið meira af villtum fiskstofnun til að anna eftirspurn eftir fiskmeti. Þannig að aukið framboð á fiski verður nánast eingöngu með fiskeldi. Laxinn er bæði holl vara og einstaklega góður í alls konar afurðir.

Hjá Stofnfiski eigum við á næsta ári að geta framleitt vel yfir 100 milljónir hrogna og höfum fjárfest fyrir hunduð milljóna síðustu tvö ár, til að geta annað eftirspurn. Ef við setjum þessa framleiðslu í samhengi þá er þumalputtareglan sú að úr einu hrogni komi um tvö kíló af laxi. Ef við náum að selja 100 milljón hrogn á næsta ári þá er það nóg til að framleiða um 200 þúsund tonn, sem er rúmlega þorskafli Íslendinga á einu ári,“ segir Jónas.

Flutt út í frauðkössum

Hrognin eru flutt út flugleiðis í 10-15 kílóa frauðkössum með ís undir og yfir. Eftir að hrognin hafa verið kreist úr fiskinum og þau þroskast í 7-8 vikur þá hafa myndast sýnileg augu inni í hrognunum. Þau sem ekki hafa þroskast eru tekin frá, en hinum er pakkað til útflutnings.

Starfsstöðvar

» Alls starfa um 40 manns hjá Stofnfiski, langflestir í kringum laxeldið í Vogum, Höfnum og víðar í starfsstöðvunum sjö á suðvesturhorninu.
» Fyrirtækið er einnig með beikjueldi í Ölfusi og þorskeldisrannsóknir í Höfnum, sem Jónas segir að séu skammt á veg komnar og frekari rannsóknir og kynbætur séu framundan í þeim efnum.
» Þá er fyrirtækið með starfsstöð á Írlandi, þar sem unnið er að þróunarverkefni í bleikjueldi. Á skrifstofu í Síle starfar einn starfsmaður og í Noregi sinnir einn starfsmaður útrás Stofnfisks þangað.
» Aðaleigendur Stofnfisks eru HB Grandi með 64,5% hlutafjár og Frumkvöðull með 10,5%. Stjórnarformaður er Árni Vilhjálmsson.