Góðar Þórunn Helga Jónsdóttir ásamt hinni brasilísku Mörtu, bestu fótboltakonu heimsins.
Góðar Þórunn Helga Jónsdóttir ásamt hinni brasilísku Mörtu, bestu fótboltakonu heimsins.
Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Þórunn Helga Jónsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, skoraði fyrra mark Vitoria þegar lið hennar vann Rio Preto, 2:0, í fyrri leik liðanna í undanúrslitum brasilísku bikarkeppninnar á laugardagskvöldið.

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Þórunn Helga Jónsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, skoraði fyrra mark Vitoria þegar lið hennar vann Rio Preto, 2:0, í fyrri leik liðanna í undanúrslitum brasilísku bikarkeppninnar á laugardagskvöldið.

Þórunn kom Vitoria yfir á 56. mínútu og Carol Baiana, samherji hennar, bætti öðru marki við á 78. mínútu leiksins. Þórunn spilaði allan leikinn. Nýtt áhorfendamet var slegið hjá Vitoria á leiknum en 4.500 áhorfendur mættu á völlinn. Í umfjöllun um leikinn segir að þar hafi verið mættir allir helstu framámenn í borgarstjórn og knattspyrnusambandi svæðisins.

Lið Vitoria fer í dag til Rio Preto í Sao Paulo-fylki en þangað er þriggja tíma flug og síðan fimm tíma rútuferð. Síðari leikurinn fer fram annað kvöld og Þórunn og félagar hennar mega tapa honum með eins marks mun.

Tvisvar orðið Suður-Ameríkumeistari

Vitoria er þriðja liðið sem Þórunn leikur með í Brasilíu. Hún hefur tvisvar orðið Suður-Ameríkumeistari með Santos og einnig unnið brasilíska bikarinn með félaginu. Hún skipti yfir til Bangu í Río de Janeiro-fylki fyrr á þessu ári en eftir að liðið komst ekki áfram í úrslitakeppni þar færði hún sig yfir til Vitoria í Pernambuco-fylki. Þjálfari þar er Kleiton Lima, þjálfari kvennalandsliðs Brasilíu sem er í 3. sæti á heimslista FIFA, en Þórunn lék allan tímann hjá Santos undir hans stjórn.

Í hverju fylki Brasilíu, sem eru 27 talsins, er sjálfstæð meistarakeppni og Þórunn varð meistari í Pernambuco-fylki með liði Vitoria í sumar. Þar með fékk lið hennar keppnisrétt í brasilísku bikarkeppninni sem er eina mótið á landsvísu í þessu gríðarstóra landi en þar keppa allir fylkismeistarar í Brasilíu um bikarinn.