Robin van Persie
Robin van Persie
Hollendingnum Robin van Persie, framherja Arsenal, halda engin bönd en fyrirliði Lundúnaliðsins skoraði eitt af mörkum Arsenal þegar liðið skellti WBA, 3:0.

Hollendingnum Robin van Persie, framherja Arsenal, halda engin bönd en fyrirliði Lundúnaliðsins skoraði eitt af mörkum Arsenal þegar liðið skellti WBA, 3:0. Van Persie hefur þar með skorað 29 mörk á árinu 2011 og er einn skæðasti framherjinn í heimsfótboltanum um þessar mundir.

„Ég veit ekki númer hvað hann er í röðinni yfir þá bestu í heimi en það eina sem ég veit er að hann er í heimsklassa,“ sagði Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal.

Van Persie er þar með orðinn einn markahæstur í deildinni en hann hefur skorað 11 mörk í 11 leikjum.

Arsenal-menn eru allir að koma til eftir rólega byrjun og eftir sigurinn á WBA er liðið komið upp í 6.-7. sæti en Arsenal hefur unnið níu af síðustu 11 leikjum sínum í öllum keppnum.

Belgíski varnarmaðurinn Thomas Vermaelen skoraði sitt fyrsta mark fyrir Arsenal í tæp tvö ár þegar hann kom Arsenal í 2:0 og það var síðan spænski miðjumaðurinn Mikel Arteta sem innsiglaði öruggan sigur Lundúnaliðsins en hann var sá 400. hjá liðinu í úrvalsdeildinni. gummih@mbl.is