[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ómar Jóhannsson , markvörður úrvalsdeildarliðs Keflavíkur í knattspyrnu, hefur skrifað undir nýjan samning við Suðurnesjaliðið og gildir samningurinn til ársins 2013. Ómar er 30 ára gamall og lék sinn fyrsta leik með Keflvíkingum árið 2002.
Ó mar Jóhannsson , markvörður úrvalsdeildarliðs Keflavíkur í knattspyrnu, hefur skrifað undir nýjan samning við Suðurnesjaliðið og gildir samningurinn til ársins 2013. Ómar er 30 ára gamall og lék sinn fyrsta leik með Keflvíkingum árið 2002.

Hann hafði þá leikið um skeið í Svíþjóð með Bunkeflo í C-deildinni, ásamt því að vera í röðum Malmö FF, og hann lék síðan aftur eitt tímabil með Bunkeflo árið 2004. Frá þeim tíma hefur hann varið mark Keflvíkinga og hefur nú leikið með þeim 125 leiki í efstu deild.

Þá lék Ómar á sínum tíma 19 leiki með 21-árs landsliðinu og 15 leiki með yngri landsliðum Íslands.

Hollandsmeistarar Ajax, án Kolbeins Sigþórssonar , máttu þola 6:4 tap fyrir Utrecht í hollensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær og eru í fimmta sæti deildarinnar. Ajax hefur aðeins náð að vinna fimm af tólf leikjum sínum í deildinni og veldur frammistaða liðsins þjálfaranum Frank de Boer miklum vonbrigðum. Kolbeinn er sem kunnugt er frá vegna fótbrots en vonir standa til að hann geti byrjað að spila um mánaðamótin janúar-febrúar.

ÍBV tryggði sér áframhaldandi starfskrafta fjögurra leikmanna kvennaliðs félagsins í gær þegar þær Kristín Erna Sigurlásdóttir , Elísa Viðarsdóttir , Hlíf Hauksdóttir og Sædís Magnúsdóttir framlengdu allar samning sinn um tvö ár. Þetta kemur fram á heimsíðu félagsins.

S teve Williams , fyrrverandi kylfusveinn Tigers Woods til fjölda ára, hefur beðist afsökunar á athugasemd sinni sem mætti túlka sem kynþáttaníð. Ummælin hafði hann uppi á verðlaunakvöldverði í Kína. Hann lét svo hafa eftir sér: „ Ég átta mig nú á því að athugasemd mína mætti túlka sem rasisma. Það var ekki ætlun mín. Ég bið Tiger afsökunar og alla þá sem gætu hafa móðgast .“

Steve Williams sem heldur nú á poka Adams Scotts sagði að ummælin hefðu verið sögð í lokuðu samkvæmi og hefðu aldrei átt að fara út fyrir þann viðburð. Scott var einnig fljótur til að koma sínum manni til varnar og sagði að afsökunarbeiðni hans ætti að vera tekið. „ Steve sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann baðst afsökunar og gerði það eina rétta í stöðunni .“ Spurður hvort hann héldi að Williams væri rasisti sagði Scott: „ Ég held við vitum öll að svo er ekki .“