Vilhjálmur Andri Kjartansson vilhjalmur@mbl.is Endurbygging Þorláksbúðar við Skálholtskirkju hefst að nýju eftir að fundur kirkjuráðs 2. nóvember sá ekki ástæðu til þess að gera athugasemdir við að Þorláksbúðarfélagið lyki endurbyggingunni.

Vilhjálmur Andri Kjartansson

vilhjalmur@mbl.is

Endurbygging Þorláksbúðar við Skálholtskirkju hefst að nýju eftir að fundur kirkjuráðs 2. nóvember sá ekki ástæðu til þess að gera athugasemdir við að Þorláksbúðarfélagið lyki endurbyggingunni. Fyrr í haust hafði kirkjuráð óskað eftir því að framkvæmdum við Þorláksbúð yrði frestað meðan kannað væri deiliskipulag svæðisins, höfundarréttindi vegna Skálholtsdómkirkju, hvaða heimildir sveitarstjórn Bláskógabyggð hefði veitt til framkvæmdanna og önnur atriði sem kynnu að hafa áhrif.

Í bókun kirkjuráðs frá 2. nóvember segir „fyrir liggur af hálfu skipulags- og byggingaryfirvalda Bláskógabyggðar að byggingarleyfi verði gefið út. Í ljósi þeirrar könnunar gerir kirkjuráð ekki athugasemdir við að Þorláksbúðarfélagið ljúki framkvæmd verksins“.

Árni Johnsen alþingismaður er meðal þeirra sem komið hafa að endurbyggingunni og segir hann að stefnt verði að því að ljúka framkvæmdinni fyrir næsta sumar. „Þessi töf kom auðvitað illa við okkur og það skýrist núna fljótlega hvaða skref við tökum en það stendur til að klára húsið fyrir næsta sumar.“ Áætlað er að Þorláksbúð verði um 35 fermetrar og segir Árni að fullgerð muni hún geta hýst bæði kirkjuathafnir og menningartengda viðburði.

„Þorláksbúð var á sínum tíma stundum skrúðhús, stundum kirkja, stundum geymsla og dómkirkja þegar stóra kirkjan brann. Þarna geta líka farið fram fyrirlestrar, tónleikar og annað sem hentar í minna eða sérstöku rými.“