„Ég er á ferðalagi erlendis.

„Ég er á ferðalagi erlendis. Það er það sem ég geri þegar ég á stórafmæli,“ segir Helgi Vilberg, myndlistarmaður og skólastjóri Myndlistarskólans á Akureyri sem er staddur í Helsinki, höfuðborg Finnlands, ásamt konu sinni, Soffíu Sævarsdóttur, í tilefni dagsins en Helgi er sextugur í dag. Hjónin hafa verið í Helsinki í viku. „Að skoða sýningar og söfn og njóta samvista hvort við annað,“ segir Helgi sem er mjög hrifinn af borginni en þau hjónin hafa oft farið þangað og þekkja þar margt fólk.

Helgi segist ekki hafa neinar fyrirætlanir um veislu þegar heim er komið. „Við erum búin að vera í veislu hérna í nokkra daga. Njóta lífsins, borða góðan mat og hvíla okkur.“

Helgi hefur verið skólastjóri Myndlistarskólans síðan 1977 en hann segist sjálfur hafa alltof lítinn tíma til að stunda listina vegna anna. „Ég hef haldið nokkrar einkasýningar og þar hef ég sýnt verk sem eru hálf-óhlutlæg með landslagsívafi,“ segir Helgi sem var síðast með einkasýningu 2007 en hefur þó tekið þátt í nokkrum samsýningum síðan. „Maður trúir því alltaf að maður hafi nægan tíma til að mála með öðru, en ég hef málað minna.“ sigrunrosa@mbl.is