Slagur „Ég veit ekki hvort ég myndi vilja stofna fyrirtæki í dag, því bæði þarf að keppa við mjög stóra og kröftuga aðila á markaði, og glíma við banka sem eiga jafnvel samkeppnina,“ segir Jón Bender.
Slagur „Ég veit ekki hvort ég myndi vilja stofna fyrirtæki í dag, því bæði þarf að keppa við mjög stóra og kröftuga aðila á markaði, og glíma við banka sem eiga jafnvel samkeppnina,“ segir Jón Bender. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
• Byrjaði í bílskúrnum fyrir 10 árum en er nú með 350 fm sýningarsal • Samdráttur í sölu á húsgögnum og rekstrarvöru en von á að þörfin safnist upp • Myndi síður vilja stofna fyrirtæki í dag enda samkeppnin hörð og jafnvel ósanngjörn...

• Byrjaði í bílskúrnum fyrir 10 árum en er nú með 350 fm sýningarsal • Samdráttur í sölu á húsgögnum og rekstrarvöru en von á að þörfin safnist upp • Myndi síður vilja stofna fyrirtæki í dag enda samkeppnin hörð og jafnvel ósanngjörn • Þótti of smár til að taka þátt í atvinnusköpunarverkefni ríkisins

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Fyrir um áratug var Jón Bender á ferð með lest í Svíþjóð og hitti þar fyrir tilviljun markaðsstjóra sænska stórfyrirtækisins AJ. Þeir tóku tal saman og hjá Jóni kviknaði sú hugmynd að hægt væri að gera góða hluti á Íslandi með vörum AJ.

Ævintýrið hófst í bílskúrnum hjá Jóni, en hefur vaxið hægt og örugglega og leigir Bender ehf. nú 350 fm sýningarsal og lagerhúsnæði á Barðastöðum 1-5 og rekur net- og póstverslanirnar AJvorulistinn.is og Supersellers.is. Þar selur Jón fjölbreytta rekstrar- og skrifstofuvörur, allt frá skrifborðum og stólum, yfir í innkaupakörfur, efnaskápa, standa, gínur, herðatré og umbúðir. Í raun selur hann flest það sem þarf til að reka skrifstofu, skóla, vöruhús eða verslun. „Auk þess að selja gegnum vefsíðurnar þá sendum við út bæklinga ár hvert á fjölda fyrirtækja. AJ-vörulistinn telur heilar 364 blaðsíður og kemur út allt að fjórum sinnum á ári, en Supersellers-vörulistanum er dreift allt að tvisvar á ári og er um 40 síður.“

Til viðbótar við verslunarreksturinn er Bender ehf. með umboð fyrir ýmsa vöru og þjónustu, s.s. sjálfsafgreiðsluvélar bókasafnanna, og fyrir sænsku verkfræðistofuna Proflow sem sérhæfir sig í skipulagsaðstoð og vöruflæði.

Saknar sumarfríanna

Sjálfur er Jón 42 ára, og starfaði m.a. sem þjónn áður en hann hóf verslunarreksturinn. Hann segir það ekki hafa verið erfiða ákvörðun að reyna að standa á eigin fótum í stað þess að vera almennur starfskraftur hjá einhverju fyrirtækinu út í bæ. „Auðvitað hafa komið tímar þar sem ég hef verið efins og misst einhvern svefn yfir þessu, en ég hef notið góðs stuðnings heiman frá og eiginkonan hefur frekar hvatt mig en hitt,“ segir hann. „Svo hefur þetta ekki alltaf verið auðveldur tími. Vinnan er mikil, viðveran miklu meiri en bara frá 9 til 5, og ekki hægt að gera ráð fyrir að komast í gott sumarfrí. Sumarfríin eru sennilega það sem ég sakna mest frá því að vinna fyrir aðra.“

Vafalítið þykir mörgum það virðingarvert að Jón hefur aldrei tekið stór lán til að reka fyrirtækið eða magna það upp í risa á markaðinum yfir nótt. Þess í stað hefur hann leyft hægum og náttúrulegum vexti að eiga sér stað. Yfirbyggingin er sárasmá og Jón í dag eini starfsmaðurinn á launaskrá. Hann nær fyrir vikið að halda álagningunni í skefjum og forðast vaxtaverki. „Sígandi lukka er best,“ segir hann.

Erfiður slagur á markaðinum

Sennilega eru margir í samskonar hugleiðingum og Jón var í fyrir tíu árum, og langar að stofna eigin rekstur. Því fólki gefur Jón þau ráð að búa sig undir harðari slag en nokkru sinni langi það að stíga skrefið. „Ég veit ekki hvort ég myndi vilja stofna fyrirtæki í dag, því bæði þarf að keppa við mjög stóra og kröftuga aðila á markaði, og glíma við banka sem eiga jafnvel samkeppnina. Umhverfið er gríðarlega erfitt fyrir nýja aðila.“

Síhækkandi skattar og gjöld gera svo róðurinn ekki léttari. Það sem meira er: kerfið virðist stundum hreinlega vera ósanngjarnt og Jón kannast alveg við að hafa rekist á nokkrar undarlegar hindranir. „Eitt nýlegasta og skýrasta tilfellið var þegar ég sótti um það hjá Vinnumálastofnun að Bender ehf. gæti notið góðs af verkefni stjórnvalda þar sem ríkið tekur þátt í launakostnaði viðbótarstarfsmanna. Þannig vonaðist ég til að geta bætt við starfskrafti, styrkt reksturinn, og lagt mitt af mörkum til að draga úr atvinnuleysi,“ segir Jón. Það kom svo á daginn að beiðni fyrirtækisins var hafnað. „Skýringin var sú að með því að bæta starfsmanni við þetta fámenna fyrirtæki myndi starfsmannahópurinn stækka um meira en 25%. Ef ég hefði haft fimm starfsmenn hefði þetta ekki verið vandamál, en einhverra hluta vegna þá mátti ég ekki fá þessa hjálp með færri starfsmönnum. Þar með var bæði komið í veg fyrir að nýtt starf skapaðist, en reglurnar þýða líka að fyrirtæki með fjóra starfsmenn eða færri geta ekki notið góðs af atvinnusköpunarátakinu til jafns við þá sem stærri eru.“

NETIÐ HEFUR EKKI TEKIÐ ALLT YFIR

Vörulistarnir hafa sjarma

Úr sumum kreðsum heyrist að vörubæklingar séu að deyja út, þökk sé netverslun. Jón segir samt að vörubæklingar eigi enn mikið erindi við neytendur og kveðst fjarri því á þeim buxunum að hætta að gefa út veglega vörulista AJ og Supersellers. „Þó að netið búi yfir ýmsum kostum og skapi viss þægindi, þá er það allt önnur upplifun að fletta í gegnum vandaðan bækling. Stórum hópi fólks finnst þægilegt að setjast niður og blaða í gegnum bæklinginn og skoða úrvalið með áþreifanlegri hætti en á tölvuskjá,“ segir hann. „Netið getur svo stutt við bæklinginn, og margir fara t.d. inn á vefsíðuna eftir að hafa skoðað prentaða vörulistann, senda pöntunina inn rafrænt eða í síma. Enn aðrir vilja endilega koma í sýningarsalinn áður en kaupin eru gerð, svona til að fullvissa sig um að gæðin og útlitið séu alveg eins og á að vera. Bæklingurinn er samt alltaf í lykilhlutverki í sölunni.“

Sala til einstaklinga eykst smám saman

Gínurnar vinsæl gjöf

Það kæmi ekki á óvart þótt flestir lesendur blaðsins könnuðust ekki við AJ vörulistann og Supersellers. Jón segist hafa lagt alla áherslu á markaðssetningu til fyrirtækja í dreifingu vörubæklinga, og svo að halda úti góðri vefverslun. Stjórnendur ættu að þekkja nafnið vel en almennir neytendur minna. Hins vegar virðist þetta smám saman vera að breytast, ekki síst vegna vandaðra vefverslana fyrirtækisins. „Með kreppunni dró úr innkaupum fyrirtækja eins og við var að búast, en það hefur hjálpað til að almenningur virðist hafa komið auga á vörurnar okkar og í dag eru sennilega um 10% af sölunni til einstaklinga,“ segir Jón. „Sem dæmi þá seljast gínurnar nokkuð vel og eru bæði eftirsóttar hjá fólki sem hefur tekið sig til og byrjað að sauma fatnað heimafyrir, og eins sem gjöf, t.d. við fermingu.“

Fyrirtækjamarkaðurinn segir Jón að sé smám saman að ná sér aftur á strik, en enn sé langt í að salan nái þeim hæðum sem voru þegar best lét. „Markaðurinn er mjög hægt að lyftast upp frá botninum, og vitaskuld er margt sem gerir aðstæðurnar sérlega óhagstæðar nú: gengið er veikt, gjöldin hærri og hráefnismarkaðir fara hækkandi,“ segir hann en er bjartsýnn á framtíðina. „Það er t.d. óhjákvæmilegt að það verði til uppsöfnuð þörf í atvinnulífinu fyrir alls konar vörur og húsgögn. Sumt þarf að endurnýja og öðru þarf að bæta við svo starfsemin geti gengið vel fyrir sig hjá fyrirtækjum og stofnunum.“