Snjór Í Bláfjöllum að vetrarlagi.
Snjór Í Bláfjöllum að vetrarlagi. — Morgunblaðið/RAX
Vilhjálmur Andri Kjartansson vilhjalmur@mbl.is Á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu fyrir helgi var samþykkt ályktun þess efnis að óska eftir samstarfi við ráðuneyti ferðamála um uppbyggingu snjóframleiðslu í Bláfjöllum.

Vilhjálmur Andri Kjartansson

vilhjalmur@mbl.is

Á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu fyrir helgi var samþykkt ályktun þess efnis að óska eftir samstarfi við ráðuneyti ferðamála um uppbyggingu snjóframleiðslu í Bláfjöllum. Verkefnið gæti þá verið liður í að byggja upp vetrarferðaþjónustu á Íslandi undir merkjum átaksins „Ísland allt árið.“

Að sögn Magnúsar Árnasonar, framkvæmdastjóra Skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins, myndi snjóframleiðsla fjölga þeim dögum sem opið væri í Bláfjöllum töluvert. „Við teljum að þetta geti tryggt okkur 60 til 90 daga á ári en meðaltal undanfarin fimm ár er 43 dagar. Vandamálið er ekki að það sé of hlýtt heldur snjóleysið. Í janúar í fyrra var mjög kalt en enginn snjór. Þá hefði verið kjörið að geta framleitt snjó og haft opið.“

Tækifæri fyrir ferðaþjónustuna

„Ég myndi halda að skíðasvæði sem er í 20 mínútna keyrslu frá höfuðborgarsvæðinu væri þáttur í því að tryggja frekari ferðaþjónustu yfir vetrarmánuðina en það þarf þá að vera opið meira. Meðan ekki er stöðugra hvenær opið er en er í dag förum við ekki í markaðssetningu á svæðinu,“ segir Magnús og bætir því við að fjöldi erlendra aðila hafi við hann samband á hverju ári til að fá upplýsingar um hvenær opið sé í Bláfjöllum.

„Þetta snýst ekki bara um að fjölga ferðamönnum heldur líka að ná þeim sem þegar koma til landsins, til dæmis á ráðstefnur.“ Fjárfestar hafa einnig sýnt svæðinu áhuga en þó fyrst og fremst í þeim tilgangi að fjölgun ferðamanna þangað styrki aðra starfsemi þeirra svo sem hótelrekstur á höfuðborgarsvæðinu.

Einar Örn Benediktsson, borgarfulltrúi Besta flokksins, segir að fram hafi komið ályktun á fundi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um að fá hagsmunaaðila sjálfa að verkefninu.

„Kannski önnur mál sem ættu að vera í forgangi“

„Það er í fínu lagi að skoða þetta mál og við studdum ályktun fundarins um það en meðan allir kvarta undan peningaleysi þá eru kannski önnur mál sem ættu að vera í forgangi,“ segir Einar.

Að sögn Magnúsar kostar fyrsti áfangi í snjóframleiðslu í Bláfjöllum um 260 milljónir og skiptast á þau sjö sveitarfélög sem standa saman að rekstri skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins. „Miðað við arðsemisútreikninga sem hafa verið gerðir vegna snjóframleiðslu á svæðinu þá borgar þetta sig til baka á tíu árum.“