[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gott gengi Newcastle heldur áfram en liðið er enn taplaust eftir 11 umferðir í ensku úrvalsdeildinni. Newcastle hafði betur á móti Everton á heimavelli sínum, 2:1.

Gott gengi Newcastle heldur áfram en liðið er enn taplaust eftir 11 umferðir í ensku úrvalsdeildinni. Newcastle hafði betur á móti Everton á heimavelli sínum, 2:1. John Heitinga varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark og koma Newcastle í 1:0 og Ryan Taylor bætti við öðru áður en

Jack Rodwell minnkaði muninn fyrir Everton.

Darren Bent skoraði tvö af mörkum Aston Villa sem lagði Norwich, 3.1, eftir að hafa lent undir. „Sóknarleikur okkar var á köflum frábær og við vorum í raun óheppnir að skora ekki fleiri mörk ,“ sagði Alex McLeish , stjóri Aston Villa, eftir leikinn en lið hans er í áttunda sæti deildarinnar.

G rétar Rafn Steinsson var fjarri góðu gamni í liði Bolton í gær þegar liðið rótburstaði Stoke, 5:0. Grétar var ekki valinn í leikmannahópinn. Chris Eagles og Ivan Klasnic skoruðu tvö mörk hvor fyrir Bolton eftir að fyrirliðinn Kevin Davies hafði opnað markareikninginn fyrir Bolton-liðið.

Petr Cech , markvörður Chelsea, varð fyrir því óláni að nefbrotna í viðureign Chelsea og Blackburn í fyrradag. Cech sagði eftir leikinn að svo gæti farið að hann missti af leikjum Tékka gegn Svartfellingum í umspilinu um sæti í úrslitakeppni EM. Læknar meinuðu Cech að fljúga en hann ætlaði að hitta félaga sína í tékkneska landsliðinu í dag.

Colin Calderwood , knattspyrnustjóra skoska úrvalsdeildarliðsins Hibernian, var sagt upp störfum í gærkvöldi í kjölfarið á 1:0 tapi liðsins gegn Dunfermline. Með liði Hibernian leikur Guðlaugur Victor Pálsson, leikmaður U21 árs landsliðsins. Hibernian er í 9. sæti skosku úrvalsdeildarinnar með 13 stig eftir fjórtán leiki.

Án knattspyrnustjórans Harrys Redknapps , sem er að jafna sig eftir hjartaaðgerð, fögnuðu leikmenn Tottenham sigri gegn Fulham á Craven Cottage í gær, 3:1. Heimamenn í Fulham voru töluvert betri aðilinn í leiknum og sköpuðu sér urmul góðra færa en Tottenham-liðið nýtti færi sín vel og uppskar góðan sigur.