Góð Margrét Kara Sturludóttir sækir hér að körfunni en Guðbjörg Sverrisdóttir er til varnar.
Góð Margrét Kara Sturludóttir sækir hér að körfunni en Guðbjörg Sverrisdóttir er til varnar. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Körfubolti Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Það telst til tíðinda þegar liðið tekst aðeins að skora fjögur stig í heilum tíu mínútna leikhluta í körfubolta eins og raunin varð í leik KR og Vals í Iceland Express-deild kvenna í gær.

Körfubolti

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Það telst til tíðinda þegar liðið tekst aðeins að skora fjögur stig í heilum tíu mínútna leikhluta í körfubolta eins og raunin varð í leik KR og Vals í Iceland Express-deild kvenna í gær. Eftir tiltölulega jafnan fyrsta leikhluta skoraði KR 18 stig gegn fjórum í þeim næsta, þar sem tuttugu skot gestanna fóru í súginn, og lagði grunninn að tuttugu stiga sigri, 79:59.

„Þær hittu alveg rosalega illa í þessum leikhluta og við vorum frekar heppnar með að ná fullt af sóknarfráköstum og svona. Við spiluðum auðvitað mjög góða vörn en fjögur stig eru fulllítið. Við byggðum hins vegar sigurinn á þessum leikhluta. Þær komu auðvitað dýrvitlausar til leiks í seinni hálfleik en við vorum undir það búnar,“ sagði Margrét Kara Sturludóttir sem var besti maður leiksins en hún skoraði 24 stig, tók 13 fráköst og gaf 5 stoðsendingar á þeim rúmu 28 mínútum sem hún spilaði.

Nýi leikmaðurinn var nýlentur

KR-liðið er á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir fimm leiki og er til alls líklegt. Í leiknum í gær þreytti Erica Prosser frumraun sína með KR-ingum en hún kom í stað Reyana Colson sem þó hafði staðið sig vel.

„Við höfum fullt af hlutum sem við þurfum að fínpússa betur, og getum spilað betur en við gerðum í þessum leik. Við þurfum náttúrlega að koma nýjum leikmanni betur inn í hlutina, hún er nýlent greyið, og það hristir alltaf aðeins upp í hlutunum að fá nýja menn inn,“ sagði Margrét Kara sem telur að Valsliðið eigi einnig meira inni en þar var María Ben Erlingsdóttir stigahæst með aðeins 13 stig og hún tók auk þess 11 fráköst.

„Þær hljóta bara að þurfa lengri tíma. Það er fullt af landsliðsmönnum í liðinu og reyndur þjálfari en það tekur bara sinn tíma að púsla saman liði þó að nóg sé af góðum einstaklingum,“ sagði Margrét Kara sem sér fyrir sér líflega titilbaráttu í vetur.

„Þetta er bara rétt að byrja og það getur ýmislegt átt eftir að gerast, til dæmis hvað varðar bandaríska leikmenn. Keflvíkingar hafa verið mjög grimmir núna og við verðum að vera klárar í leikinn við þær í næstu viku. Svo eiga lið eins og Haukar, sem við mætum fyrst, og Valur og Njarðvík meira inni, þannig að það getur allt gerst,“ sagði Margrét Kara.

Fimmtán ára með 20 stig

Keflavík fylgir KR sem skugginn en Íslandsmeistararnir hafa unnið alla fjóra leiki sína síðan þeir töpuðu afar óvænt fyrir Fjölni í fyrstu umferð. Um helgina vann Keflavík sextán stiga sigur á Haukum í Hafnarfirði, 89:73, eftir að hafa náð fjórtán stiga forskoti strax í fyrsta leikhluta, 30:16. Jaleesa Butler var að vanda atkvæðamikil en hún skoraði 24 stig og tók 10 fráköst, en hin aðeins 15 ára gamla Sara Rún Hinriksdóttir kom næst með 20 stig. Jence Ann Rhoads skoraði skoraði 21 stig fyrir Hauka sem unnu sinn fyrsta sigur í síðustu umferð, gegn Val að Hlíðarenda.

Njarðvík og Snæfell höfðu unnið tvo leiki hvort þegar liðin mættust suður með sjó en þar vann Njarðvík tíu stiga sigur, 90:80, eftir jafnan og spennandi leik. Gestirnir tóku rúmlega helmingi fleiri fráköst í leiknum en það dugði skammt. Shanae Baker og Lele Hardy skoruðu 26 stig hvor fyrir Njarðvík en Hildur Sigurðardóttir 28 stig fyrir Snæfell.