Fiskeldi Tilkoma eldisstöðvar í Reyðarfirði mun skapa fjölda starfa.
Fiskeldi Tilkoma eldisstöðvar í Reyðarfirði mun skapa fjölda starfa.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Ylfa Kristín K. Árnadóttir ylfa@mbl.is Umhverfisstofnun hefur auglýst tillögu að starfsleyfi fyrir Laxa fiskeldi ehf. til að stunda laxeldi í Reyðarfirði. Tillagan gerir ráð fyrir heimild til rekstraraðila til að framleiða allt að 6.

Fréttaskýring

Ylfa Kristín K. Árnadóttir

ylfa@mbl.is

Umhverfisstofnun hefur auglýst tillögu að starfsleyfi fyrir Laxa fiskeldi ehf. til að stunda laxeldi í Reyðarfirði. Tillagan gerir ráð fyrir heimild til rekstraraðila til að framleiða allt að 6.000 tonn af laxi á ári í sjókvíum. Skipulagsstofnun úrskurðaði í sumar að framleiðslan væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Að sögn Einars Arnar Gunnarssonar hjá Löxum fiskeldi munu skapast a.m.k. 30 varanleg ársstörf með tilkomu 6.000 tonna eldisstöðvar í Reyðarfirði og slátrunar í Fjarðabyggð en fyrirtækið hyggst slátra að jafnaði 24 tonnum á dag alla virka daga ársins. Að teknu tilliti til afleiddra starfa muni skapast um 20 störf til viðbótar.

Fjárþörf tveir milljarðar

Meðal aðstandenda fyrirtækisins eru aðilar sem stofnuðu Salar Islandica ehf. árið 2001 en félagið rak eldisstöð í Berufirði á árunum 2003-2007. Markmiðið er að byggja upp eldið á sex árum en um er að ræða áframeldi á laxi og er fjárþörf um tveir milljarðar króna en eins og fyrr segir verður sláturaðstaða einnig byggð upp í Fjarðabyggð.

Einar Örn segir aðstæður í Reyðarfirði góðar, fjörðurinn sé opinn, stór og djúpur með öfluga strauma. Hitastig sé ágætt og aðstæður til eldis góðar og svipaðar og gerist í Noregi þar sem er rekið öflugt og samkeppnisfært laxeldi. Sett verði út 80 gramma sjógönguseiði sem munu ná sláturstærð, þ.e. 5 kílóum, á um 22-24 mánuðum. Í eldiskvíar verði aðeins settur bólusettur og heilbrigður fiskur.

Laxeldi í sífelldri þróun

Fiskeldi fyrir austan hefur ekki alltaf gengið sem skyldi en Einar Örn segir fyrirtækið hafa mikla og góða reynslu af áframeldi laxa á Austfjarðasvæðinu. Þegar fyrirtækið hóf göngu sína á sínum tíma spáðu sumir því að lax myndi ekki vaxa í svo köldum sjó en reyndin varð önnur og óx fiskurinn vel. Einar Örn segir þá staðreynd að laxeldi hafi verið hætt í Berufirði ekki hafa verið vegna lélegra skilyrða til áframeldis heldur var tekin ákvörðun um að vera í þorskeldi á Íslandi en byggja upp laxeldi í Síle.

Það séu hinsvegar allar aðstæður til að byggja upp öflugt laxeldi á Íslandi. Laxeldi sé þekkingariðnaður sem sé í sífelldri þróun og hafi vaxið sem atvinnugrein í Noregi. Þar hafi framleiðsla farið úr 430 þúsund tonnum í 980 þúsund tonn á innan við tíu árum.

Vaxandi áhugi á laxeldi

Að sögn Gísla Jónssonar, dýralæknis fisksjúkdóma hjá Matvælastofnun, hefur vaxandi áhugi verið á laxeldi undanfarið eitt og hálft ár. Það megi rekja til hás markaðsverðs á laxi sem náði hæst um 47 norskum krónum kílóið en nú er verðið komið niður í 20 norskar krónur. Hann segist telja sennilegt að nú sé fjórða sjókvíabylgjan á síðastliðnum 25 árum að ganga yfir. Margir verði afar áhugasamir um eldi en inni á milli koðni þessi áhugi niður. Spurður hvort mörg leyfi séu í farvatninu segist hann telja að þau séu innan við fimm.

UMSÓKNARFERLIÐ

Starfsleyfi og rekstrarleyfi

Þegar hefja á fiskeldi þarf að byrja á að sækja um starfsleyfi hjá Umhverfisstofnun og Heilbrigðiseftirlitinu. Þegar starfsleyfið er komið er hægt að sækja um rekstrarleyfi hjá Fiskistofu. Það veitir stofan eftir að hafa kallað eftir umsögnum m.a. frá Gísla Jónssyni, dýralækni fisksjúkdóma hjá Matvælastofnun.

Ef um er að ræða umfangsmikið eldi þá þarf að byrja á því að fara í gegnum Skipulagsstofnun sem metur hvort framleiðslan þurfi að fara í umhverfismat því ef þess reynist þurfa getur ferlið tekið allt að tvö ár.