Friðbert Traustason
Friðbert Traustason
Eftir Friðbert Traustason: "Vonandi sjá þingmenn það óréttlæti sem þessi starfsstétt er beitt með sérstökum launaskatti, sem einungis mun leiða til enn frekari uppsagna og skerðingar á þjónustu..."

Þeir eru hugmyndaríkir í fjármálaráðuneytinu þegar kemur að skattlagningu og nafngiftum. Nú hefur ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms ákveðið að skella á 10,5% sérstökum launaskatti á starfsmenn fjármálafyrirtækja, og í takt við húmor og skáldskapargáfu ráðherrans kalla þeir launaskattinn „fjársýsluskatt“.

Að sjálfsögðu munu fjármálafyrirtækin bregðast við þessari auknu skattlagningu, enda launaskattur á þau þar með kominn í rúmlega 19%, eða um 9% hærri skattur en í Danmörku þangað sem fyrirmynd launaskattsins er sótt. Þegar launaskatturinn var lagður á í Danmörku voru viðbrögð fyrirtækjanna þau að segja upp starfsmönnum og loka útibúum og afgreiðslustöðum, sérstaklega utan Kaupmannahafnarsvæðis. Sama verður gert hér á landi, starfsmönnum fækkað, útibúum lokað og dregið úr þjónustu.

Samræmi í málflutningi Steingríms?

Lilja Mósesdóttir spurði Steingrím um „hvalrekaskatt“ í umræðum á Alþingi um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum 3. nóvember: Í svari sagði Steingrímur: „Ef menn hins vegar gripu inn í með sérstakri skattlagningu á sérstakar greinar (innskot höf.: sjávarútveg og álver) þá er spurningin hvernig sú þróun yrði og hvernig menn stýrðu málum að öðru leyti, þ.e.a.s. hvað varðar þá markmið um raunhæft gengi til lengri tíma, sambúð atvinnugreina á vinnumarkaði og svo framvegis.“ Þetta eru merkileg orð frá ráðherra á sama tíma og hann ætlar að leggja sérstakan launaskatt á starfsstétt þar sem mikill meirihluti starfsmanna er konur.

75% starfsmanna fjármálafyrirtækja eru konur

Á síðustu þremur árum hafa 30% starfsmanna fjármálafyrirtækja á Íslandi misst vinnuna eða 1800 félagsmenn SSF, þar af eru um 1400 konur sem misst hafa starfið sitt, flestar með mjög langan starfsaldur innan greinarinnar. Útibúum og afgreiðslum hefur fækkað um 50 á örfáum árum, en um 90% starfsmanna útibúa eru konur, flestar á lágum launum eða á bilinu 250.000 til 350.000 krónur á mánuði. Í dag er fjöldi starfsmanna í fjármálafyrirtækjum sá sami og hann var á árunum 1992 til 2004 eða um 3800 í 3500 stöðugildum.

Nær að skattleggja enn frekar hagnað

Vonandi sjá þingmenn það óréttlæti sem þessi starfsstétt er beitt með sérstökum launaskatti, sem einungis mun leiða til enn frekari uppsagna og skerðingar á þjónustu ellegar hækkunar á þjónustugjöldum, sem enginn vill sjá. Nær væri að leggja til tímabundna hækkun á tekjuskatti, sem lagður yrði á hagnað allra þeirra fyrirtækja sem hagnast vel í dag, það er útgerðarfyrirtæki, álver og banka.

Þessi launaskattur á sér enga fyrirmynd í öðrum löndum, því þar sem launaskattur er lagður á, m.a. í Danmörku og Frakklandi (3-12%), er ekki einnig lagður á launaskattur í nafni tryggingargjalds (tæp 9%) eins og gert er á Íslandi.

Ég treysti því að öll samtök launamanna mótmæli sérstökum launaskatti því miðað við hugmyndaauðgi í skattlagningu ríkisstjórnar undanfarin misseri verður þess ekki langt að bíða að fleiri starfsstéttir fái á sig þennan launaskatt til að viðhalda starfsemi hins opinbera.

Höfundur er formaður SSF.

Höf.: Friðbert Traustason