Þegar ríkið hvetur til undanskota með hærri sköttum aukast undanskotin

Viðbrögð stjórnvalda við nýlegri skýrslu um svarta atvinnustarfsemi eru mikið áhyggjuefni þó að þau komi út af fyrir sig ekki á óvart. Í skýrslunni kemur fram að um 12% starfsmanna lítilla og meðalstórra fyrirtækja stunda svarta atvinnustarfsemi og í fyrirspurnartíma á Alþingi í liðinni viku innti Vigdís Hauksdóttir alþingismaður Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra eftir viðbrögðum við tíðindunum.

„Hvað ætlar ráðherrann að gera til að stoppa þetta neðanjarðarhagkerfi og hvernig sér ráðherrann þetta til framtíðar? Á að breyta skattkerfinu á þann hátt að fólk sjái sér ekki lengur hag í því að svíkja undan skatti?“ spurði Vigdís.

Fjármálaráðherra svaraði því til að ráðnir hefðu verið 15-20 nýir starfsmenn við skattaeftirlit en hann gaf í engu til kynna að skattkerfinu yrði breytt til að draga úr þessum vanda. Þvert á móti hélt hann því fram að skattahækkanir síðustu ára hefðu engin áhrif á undanskot frá skatti og þar með telur hann enga ástæðu til að takast á við vandann nema með fjölgun hjá skattaeftirliti.

Ef menn trúa á háa skatta er skiljanlegt að þeir reyni að tala sig með þessum hætti frá málinu. Vandinn hverfur hins vegar ekki við draumórakennt tal eða fjölgun skattheimtumanna ríkisins. Vandinn er sá að ríkisstjórnin er búin að ganga fram af almenningi með linnulausum skattahækkunum og þess vegna fjölgar þeim sem misst hafa greiðsluviljann. Nokkrir skattheimtumenn til viðbótar breyta engu um þetta og eina leiðin til að draga úr undanskotunum er að láta af skattpíningarstefnunni.