Þoka Slæmt veður var á slysstað þegar fjölmennt björgunarlið mætti á vettvang.
Þoka Slæmt veður var á slysstað þegar fjölmennt björgunarlið mætti á vettvang.
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Rannsókn á orsökum slyss, þegar 34 bifreiðar lentu í árekstri á hraðbraut í Somerset á Englandi síðastliðinn föstudag, er á frumstigi að sögn talsmanna lögreglunnar þar í landi.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Rannsókn á orsökum slyss, þegar 34 bifreiðar lentu í árekstri á hraðbraut í Somerset á Englandi síðastliðinn föstudag, er á frumstigi að sögn talsmanna lögreglunnar þar í landi. Alls létust sjö manns í slysinu og flytja þurfti 51 einstakling á sjúkrahús til aðhlynningar. Í fyrstu var óttast að mun fleiri kynnu að hafa látist í ljósi þess hve margir bílanna eyðilögðust í bruna skömmu eftir áreksturinn.

Í ljós hefur komið að skilyrði til aksturs á svæðinu voru mjög slæm þegar slysið átti sér stað en að sögn lögreglu gekk á með þykkri þoku í bland við úrkomu. Að auki leikur grunur á að þykkur reykjarmökkur, sem barst frá nærliggjandi samkomu og á uppruna sinn að rekja til notkunar flugelda, hafi átt talsverðan þátt í slysinu. Segir lögregla fjölmörg vitni lýsa þykkum reykjarmekki sem gert hafi akstursskilyrði mjög slæm og valdið ökumönnum mikilli truflun. Kemur það fram á fréttavef Sky fréttastöðvarinnar. Haft er eftir Anthony Bangham, talsmanni lögreglunnar, að í bland við þá þoku sem á svæðinu var hafi reykurinn frá samkomunni tekið á sig mynd sem líkja mætti við þykkan þokubakka og það hafi gert skilyrði til aksturs nær ómöguleg. Segir lögregla rannsókn einnig beinast að hugsanlegum hraðakstri ökumanna.

Mikill eldur kom upp
» Lögreglu- og björgunarmenn sem mættu á vettvang segja aðkomuna hafa verið hræðilega og eina þá verstu í manna minnum.
» Fólks- og vöruflutningabifreiðar skullu saman af miklu afli. Nær samstundis kom upp eldur í bifreiðunum sem breiddist hratt út á slysstað.
» Vitni segjast hafa heyrt miklar sprengingar og sat fjöldi fólks fastur í bifreiðum sínum og urðu margir þeirra eldhafinu að bráð.