Cristiano Ronaldo
Cristiano Ronaldo
Cristiano Ronaldo og Lionel Messi voru enn á ný í sviðsljósinu í spænsku 1. deildinni um helgina.

Cristiano Ronaldo og Lionel Messi voru enn á ný í sviðsljósinu í spænsku 1. deildinni um helgina. Ronaldo skoraði þrennu í fjórða sinn á leiktíðinni, sem er ótrúlegur árangur, þegar Real vann 7:1 sigur á Osasuna og Messi bjargaði Barcelona um stig með marki undir lok leiks í 2:2 jafntefli við Athletic Bilbao.

Real Madrid er nú með þriggja stiga forskot á toppi deildarinnar en lærisveinar Jose Mourinho hafa farið á kostum í vetur og skorað 39 mörk í 11 leikjum. Í þessum ellefu leikjum hafa þeir gert sex þrennur því Argentínumaðurinn Gonzalo Higuaín er kominn með tvær. Sigur Madridinga um helgina var sá tíundi í röð og ljóst að þeir eru staðráðnir í að láta Barcelona ekki vinna fjórða árið í röð.

„Við spilum vel og erum mjög einbeittir. Við verðskuldum fyllilega að hafa náð í þessa tíu sigra í röð. Ég man ekki eftir leik þar sem við höfum unnið án þess að eiga það skilið. Við höfum farið frá því að spila vel í að spila mjög vel í okkar leikjum,“ sagði Mourinho.

Barcelona lenti í miklu basli með Athletic Bilbao og tíu mínútum fyrir leikslok var útlit fyrir fyrsta tap meistaranna á þessari leiktíð þegar Gerard Pique skoraði sjálfsmark. Honum var í kjölfarið skipt út af og allt kapp lagt á að skora sem tókst þegar Messi kom boltanum í netið í uppbótartíma. Börsungar eru því enn taplausir, með 25 stig eftir 11 leiki, sem er stigi meira en Valencia og tveimur stigum meira en spútniklið Levante en Valencia vann 2:0 útisigur í leik þessara liða um helgina. sindris@mbl.is