Úlfar Þormóðsson „Þessi bók kom til mín og fór frá mér eins og hún er, og það tók ekki langan tíma. Hún er ekki löng vegna þess að hún var bara búin þar sem henni lýkur.“
Úlfar Þormóðsson „Þessi bók kom til mín og fór frá mér eins og hún er, og það tók ekki langan tíma. Hún er ekki löng vegna þess að hún var bara búin þar sem henni lýkur.“ — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég hef fengið afar sterk viðbrögð við bókinni. Fjölmargir, bæði mér tengdir og ótengdir og fólk sem ég þekki nánast ekki neitt, hafa haft samband við mig til að þakka mér fyrir hana. Sem betur fer hef ég ekki þurft að lesa mikið upp úr henni...

Ég hef fengið afar sterk viðbrögð við bókinni. Fjölmargir, bæði mér tengdir og ótengdir og fólk sem ég þekki nánast ekki neitt, hafa haft samband við mig til að þakka mér fyrir hana. Sem betur fer hef ég ekki þurft að lesa mikið upp úr henni opinberlega. Ég er feiminn og mér finnst erfitt að lesa upp. En því trúir enginn, ekki frekar en því að fjandinn hafi fína sál.“

Viðtal Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Farandskuggar er ný bók eftir Úlfar Þormóðsson þar sem sonur reynir að raða saman brotum úr lífi móður sinnar og þar kemur ýmislegt honum á óvart. Úlfar er greinilega að segja sögu sinnar eigin móður, en hún lést örfáum vikum eftir að hann lauk við handritið og sá það aldrei. Úlfar er spurður hvort ekki hafi verið erfitt að skrifa bókina, jafnpersónuleg og hún er. „Jú, það var það, en það er nú þannig að ef að manni kemur andagift þá er hvorki spurt um afleiðingu né ástæðu,“ segir hann. „Maður bara vinnur, heldur áfram dag frá degi.“

Er þetta bók sem þér fannst að þú yrðir að skrifa?

„Nei, það var ekki skylda sem fylgdi því, heldur dásemdarþörf. Eins og þörfin fyrir að fara um blómagarð sem verður fyrir augum manns. Þetta var aldrei kvöð.“

Þetta er mjög persónuleg bók, þér hlýtur að þykja ansi vænt um hana?

„Já, mér þykir óskaplega vænt um hana. Hún er eins konar ljúflingskver. Auk þess er þetta afar fallegt prentverk. Það þykir mér ekki síður mikils um vert.“

Dómar skipta máli

Stundum er talað um bækur eins og þessa sem skáldævisögu. Myndirðu flokka þessa bók þannig?

„Úlfhildur Dagsdóttir segir á bókasafnsvefnum að ég sé mikill hamfarahöfundur. Ég held að hún eigi við það að ég hafi skrifað bækur af svo margri sort. Auk þess vona ég að hún hafi átt við að ég væri ekki einsmáls höfundur. Annars veit ég ekki til þess að ég hafi verið sortéraður og skilgreindur sem höfundur. Ætli ég sé ekki ógreindur maður. Ég veit ekki hvernig ætti að flokka bók eins og þessa en það er náttúrlega bland af raunveruleika og skáldskap í henni.“

Þetta er vel stíluð bók, varstu lengi að skrifa hana?

„Það hefði verið flott ef þú hefðir spurt: Þetta er vel stíluð bók, hver skrifaði hana fyrir þig? Þessi bók kom til mín og fór frá mér eins og hún er, og það tók ekki langan tíma. Hún er ekki löng vegna þess að hún var bara búin þar sem henni lýkur. Ef hún hefði orðið lengri hefðu óhjákvæmilega orðið kaflaskipti í henni.“

Það hlýtur að skipta þig máli að bókin hefur fengið góða dóma.

„Ég er ekki rithöfundur þeirrar tegundar sem segist ekki lesa dóma um verk sín. Það skiptir mig máli hvernig dómar um bækur mínar eru unnir og hvernig þeir hljóða. Og það skiptir verkið ekki síður máli. Kannski er ég eini höfundurinn í heiminum sem lætur sig einhverju varða hvernig talað er um hann sem slíkan, en þannig er það.“

Þjáningarfullt að skrifa

Hvernig er að vera höfundur í bókaflóði? Færðu viðbrögð við verkinu og ertu á þeytingi um allan bæ að lesa upp?

„Ég hef fengið afar sterk viðbrögð við bókinni. Fjölmargir, bæði mér tengdir og ótengdir og fólk sem ég þekki nánast ekki neitt, hafa haft samband við mig til að þakka mér fyrir hana. Sem betur fer hef ég ekki þurft að lesa mikið upp úr henni opinberlega. Ég er feiminn og mér finnst erfitt að lesa upp. En því trúir enginn, ekki frekar en því að fjandinn hafi fína sál.“

H v erju ertu að vinna að núna?

„Ég er ekki viss um hvað úr verður, annað en að það er skáldskapur, en ég held áfram að skrifa á hverjum degi. Oft er það þannig að ég veit ekki endilega hvert ég er að fara fyrr en ég er kominn þangað.“

Finnst þér gaman að skrifa?

„Mér finnst það óskaplega erfitt, þjáningarfullt og stundum alveg nístandi sárt. En mér finnst verulega gaman þegar ég er búinn að skrifa.“