Markahæst Elín Anna Baldursdóttir skoraði 4 mörk í gær.
Markahæst Elín Anna Baldursdóttir skoraði 4 mörk í gær. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HANDBOLTI Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is HK tapaði stórt í tveimur leikjum gegn franska liðinu Fleury Loret Handball en liðin áttust við í 16 liða úrslitum í Áskorendakeppni kvenna í handknattleik í Frakklandi um helgina.

HANDBOLTI

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

HK tapaði stórt í tveimur leikjum gegn franska liðinu Fleury Loret Handball en liðin áttust við í 16 liða úrslitum í Áskorendakeppni kvenna í handknattleik í Frakklandi um helgina. Fyrri leikurinn á laugardaginn endaði, 39:22, og í gær fékk hið unga Kópavogslið enn verri útreið en liðið tapaði þá, 46:18. HK tapaði því einvíginu samtals, 85:40, eða með samtals 45 marka mun.

„Það var við algjört ofurefli að etja. Þetta franska lið er geysilega sterkt og það keyrði hreinlega yfir okkur í báðum leikjunum. Það spilaði sterka vörn, markvarslan hjá því var frábær og það skoraði fullt af mörkum úr hraðaupphlaupum,“ sagði Hilmar Guðlaugsson, þjálfari HK-liðsins, við Morgunblaðið eftir leikinn í gær.

Eins og tölurnar gefa til kynna voru yfirburðir franska liðsins mjög miklir en í báðum leikjunum var HK 9 mörkum undir eftir fyrri hálfleikinn.

„Það var svo sem vitað að það yrði á brattann að sækja fyrir okkur í þessum leikjum og þetta var vondur andstæðingur að lenda á móti. Þetta er atvinnumannalið og í því eru margir landsliðsmenn og reynslumiklir leikmenn. Liðið refsaði okkur illa fyrir mistök sem við gerðum og við áttum hreinlega ekkert roð í það,“ sagði Hilmar en í liði Fleury Loret Handball eru leikmenn frá Frakklandi, Úkraínu, Litháen, Túnis og Spáni.

Hilmar segir að þrátt fyrir ófarirnar eigi þessir leikir eftir að nýtast liðinu í framtíðinni.

„Þetta var mikill skóli fyrir stelpurnar og reynsla sem þær öðlast með að taka þátt í svona keppni. Það er gaman að taka þátt í Evrópukeppni. Stelpurnar unnu sjálfar fyrir ferðinni með því að safna peningum og það er ekki spurning að þær stefna á að spila fleiri Evrópuleiki. Auðvitað fannst þeim hundfúlt að tapa leik með 28 marka mun en til lengri tíma litið skilar þetta reynslu til leikmanna,“ sagði Hilmar.

Elín Anna Baldursdóttir var markahæst í liði HK í leiknum í gær með 4 mörk og þær Heiðrún Helgadóttir og Elva Björg Arnarsdóttir gerðu 3 mörk hver.

Í leiknum á laugardaginn var Brynja Magnúsdóttir markahæst með 6 mörk, Jóna Sigríður Halldórsdóttir skoraði 5 og Valgerður Þorsteinsdóttir og Elísa Ósk Viðarsdóttir gerðu 3 mörk hvor.