Spænskt Hér eru þeir komnir í spænska stemningu á Næsta Bar hjá Augustino. Pétur, Júlíus og María Björg.
Spænskt Hér eru þeir komnir í spænska stemningu á Næsta Bar hjá Augustino. Pétur, Júlíus og María Björg. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Matur, saga, menning heitir dagskrá sem félagarnir í Los Bíldalayos standa fyrir. Þeir ætla að spila tónlist Spánverjans Joaquin Sabina en á milli laga verða sögumolar um samskipti Íslendinga og Spánverja í gegnum tíðina.

Matur, saga, menning heitir dagskrá sem félagarnir í Los Bíldalayos standa fyrir. Þeir ætla að spila tónlist Spánverjans Joaquin Sabina en á milli laga verða sögumolar um samskipti Íslendinga og Spánverja í gegnum tíðina. Gestirnir geta glatt bragðlaukana því tapasréttir verða reiddir fram hjá spænska vertinum Augustin.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Ég hef í mörg ár verið aðdáandi spænska tónlistarmannsins Joaquin Sabina og langaði til að kynna hann fyrir fólki og segja í leiðinni sögur af samskiptum Íslendinga og Spánverja,“ segir Júlíus Hjörleifsson en hann og félagi hans Pétur Valgarð Pétursson, sem kalla sig Los Bíldalayos, ætla ásamt söngkonunni Maríu Björgu Kristjánsdóttur, að vera með dagskrá undir nafninu Matur, saga, menning, á Næsta Bar í Reykjavík næstu tvo föstudaga. Staðurinn sá er rekinn af hinum spænska Augustino sem ætlar að reiða fram tapasrétti meðan á sýningu stendur. Nafngiftin Los Bíldalayos kemur til af því að Pétur er fæddur og uppalinn á Bíldudal og afi og amma Júlíusar bjuggu einnig þar.

Baskarnir í Norðurhöfunum

„Við flytjum tíu lög með sögumolum á milli. Ég hef verið að spila og syngja þessi lög með Spánverjum sem ég hef verið að leiðsegja um Ísland undanfarin ár. Ég fór að krydda það með því að segja frá samskiptum Spánverja og Íslendinga í gegnum árin,“ segir Júlíus sem verður með sögumolana í tímaröð. „Ég ætla að byrja á að segja frá Böskunum í Norðurhöfum sem komu hingað um 1600 og Spánverjavígunum hræðilegu sem framin voru hér árið 1615. Við ætlum líka að tala um saltfiskútflutning héðan til Spánar sem hófst um miðja átjándu öld. Fyrsti íslenski báturinn fór með saltfisk til Spánar frá Bíldudal árið 1795, en áður sáu erlend fraktskip um flutninginn. Bíldudalur var mikilvægur útflutningsstaður sem og Ísafjörður.“

Jónas frá Hriflu mótmælti innflutningi Spánarvína

Þeir ætlu að segja frá bannárunum og spænsku vínunum en árið 1915 gekk vínbannið í gildi hér. „Þá var saltfiskur orðinn um 50% af öllum útflutningi Íslendinga og Spánverjar neituðu að framlengja viðskiptasamninginn nema Íslendingar keyptu vörur á móti. Vín var það sem Spánverjar áttu mest af. Þetta varð heitt mál á þinginu og Jónas frá Hriflu var mikið á móti víninnflutninginum. En vínin komu og ungmennafélögin ályktuðu, þau töldu vínin hættulegt spillingarefni. Við ætlum líka að segja frá þátttöku Íslendinga í borgarastyrjöldinni á Spáni, en þrír Íslendingar tóku þátt í henni. Það er kaldhæðnislegt að einn þeirra, Hallgrímur, fórst með fiskibáti þegar hann var að ferðast á milli staða á Austfjörðum þar sem hann sagði frá reynslu sinni af lífshættulegri þátttöku sinni í stríðinu úti í heimi.“ Los Bíldalayos ætla svo að enda á því að koma inn á sólarlandaferðir Íslendinga til Spánar. „Fyrsta slík ferð var farin um páska árið 1958 með leiguflugi til Mallorca með Guðna í Sunnu. Ingólfur í Útsýn byrjaði um svipað leyti. Við lesum upp gömul póstkort sem fólk er að senda heim og það gefur mjög skemmtilega mynd af þessum ferðum. Fólk tók til dæmis oft mat með sér út til Spánar.“

Yrkisefnið smákrimmar, vændiskonur og fíklar

Júlíus segir tónlistarstíl Sabina margþættan. „Hann fer um víðan völl, hjá honum er latin, flamenco, vísnasöngur og rokk. Og hann er undir áhrifum frá Bob Dylan. Í honum er mikill demon og að því leyti minnir hann mig stundum á Megas. Yrkisefni Sabina eru undirheimarnir, smákrimmar, vændiskonur og eiturlyfjaneitendur. En að stórum hluta líka samskipti hans við konur, enda hefur hann alltaf verið gríðarlega kvensamur og átt margar kærustur um dagana. Hann hefur húmor fyrir sjálfum sér.“ Júlíus segir Sabian vera mjög þekktan tónlistarmann á Spáni og í Suður-Ameríku. „Hann er fæddur árið 1949 í Andalúsíu og er enn lifandi. Saga hans er nokkuð sérstök. Hann var mjög róttækur ungur maður og þegar hann var tæplega tvítugur í háskólanum í Granada, þá tók hann þátt í stúdentauppreisnum gegn Franco. Hann kastaði sprengju á opinbera byggingu og þurfti í framhaldi af því að flytja frá Spáni, til að forðast að lenda í fangelsi. Fyrst bjó hann í París en síðan í London í átta ár, með hústökufólki. Þar vann hann fyrir sér með því að syngja og spila á gítar. Hann kom aftur til Spánar árið 1978 og settist að í Madrid. Á þeim tíma var margt að gerast í listum á Spáni því það skapaðist frelsi við dauða Francos. Sabina var hluti af þeirri stemningu sem við sjáum í fyrstu myndum Pedro Almadovar, lífið var fríkað og pönkað. Þarna fór hann að semja tónlist fyrir alvöru en hann vann líka sem blaðamaður. Hann kom fram í skemmtiþáttum í sjónvarpinu og flutti eigin lög og texta, sem voru fyndin og ádeilukennd. Hann sló í gegn í þessum þáttum og varð eitt af stóru nöfnunum í spænsku poppi og rokki.“
Los Bíldalayos verða á Næsta Bar föstudagana 11. og 18 nóvember og hefst dagskráin kl. 21.