Erfið Elísabet Gunnarsdóttir reyndist sínum gömlu félögum erfið en hér brýst hún í gegnum vörn Stjörnunnar og skorar eitt af fjórum mörkum sínum.
Erfið Elísabet Gunnarsdóttir reyndist sínum gömlu félögum erfið en hér brýst hún í gegnum vörn Stjörnunnar og skorar eitt af fjórum mörkum sínum. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Ólafur Már Þórisson omt@mbl.is Fram vann öruggan átta marka sigur á Stjörnunni, 33:25, í stórleik 5. umferðar N1-deildar kvenna í handknattleik í gær. Leikurinn var mjög hraður í upphafi og skiptust liðin á að skora.

Handbolti

Ólafur Már Þórisson

omt@mbl.is

Fram vann öruggan átta marka sigur á Stjörnunni, 33:25, í stórleik 5. umferðar N1-deildar kvenna í handknattleik í gær. Leikurinn var mjög hraður í upphafi og skiptust liðin á að skora. Það voru þó Framarar sem náðu frumkvæðinu um miðjan fyrri hálfleik en staðan þegar liðin gengu til búningsherbergja var 16:12. Gestirnir úr Safamýrinni héldu svo áfram að berja járnið á meðan það var heitt í síðari hálfleik. Guðríður Gunnarsdóttir, aðstoðarþjálfari Fram, var ánægð með varnarleik liðsins. „Við spiluðum vel og vorum góðar. Þetta var miklu stærri sigur en við bjuggumst við. Varnarleikurinn síðustu 15 mínúturnar í fyrri hálfleik og fyrstu 15 í seinni var rosalega góður. Markmiðið er auðvitað að lengja þessa kafla en við vorum mjög sáttar með þennan leik.“

Erfitt var að taka einhvern einn leikmann út úr Fram-liðinu en markaskorun dreifðist mjög vel. Sigurbjörg Jóhannsdóttir skoraði þó flest eða sjö mörk en fimm aðrir leikmenn skoruðu fjögur mörk. „Það sýnir hvað við erum með góða breidd. Það eru allar að skila sínu,“ bætti Guðríður við.

„Elísabet betri en ég hélt“

Þá sagði hún jafnframt að Elísabet Gunnarsdóttir sem í gær spilaði á móti sínum gömlu félögum í Stjörnunni, væri betri línumaður en hún hefði getað ímyndað sér. Elísabet hefur farið afar vel af stað með Fram eftir að hún skipti frá Stjörnunni í sumar.

Elísabet vissi ekki alveg hvernig hún ætti að taka þessi hrósi Guðríðar. „Ég veit ekki alveg hvað það er sem er betra en hún hélt. Það er samt mjög gaman að heyra það.“

Elísabet hefur aldrei áður spilað gegn Stjörnunni. „Það var mjög skrítin og óþægileg tilfinning,“ sagði Elísabet og bætti við: „Það er fínt að þetta er búið, ég vissi alveg að ég þyrfti að takast á við að spila gegn þeim fyrr eða síðar eftir að ég skipti í Fram. Það er hinsvegar gott að þetta er búið og að við höfum unnið.“

*ÍBV vann svo ótrúlegan sigur á FH í Vestmannaeyjum þar sem aðeins 34 mörk voru skoruð eða einu meira en Fram skoraði gegn Stjörnunni. Lokatölur í Eyjum voru 24:10 en FH skoraði aðeins fjögur mörk í seinni hálfleik. Florentina Stanciu fór á kostum í marki ÍBV og varði 26 skot. Þá gerðu Haukar góða ferð norður til Akureyrar og unnu KA/Þór með einu marki, 29:28. Markaskorara er að finna á síðu 6.

Stjarnan – Fram 25:33

Mýrin, úrvalsdeild kvenna, N1-deildin, sunnudaginn 6. nóvember 2011.

Gangur leiksins : 0:3, 3:3, 5:3, 6:8, 9:11, 12:16 , 14:16, 16;18, 18:20, 18:25, 20:27, 23:29, 25:33 .

Mörk Stjörnunnar : Sólveig Lára Kjærnested 8, Hanna G. Stefánsdóttir 6, Jóna Margrét Ragnarsdóttir 6/2, Hildur Harðardóttir 2, Esther Viktoría Ragnarsdóttir 2, María Karlsdóttir 1.

Varin skot : Helga Dóra Magnúsdóttir 9, Kristín Ósk Sævarsdóttir 5, Jennifer Holmberg 3.

Utan vallar : 2 mínútur.

Mörk Fram : Sigurbjörg Jóhannsdóttir 7, Elísabet Gunnarsdóttir 4, Stella Sigurðardóttir 4, Marthe Sördal 4, Birna Berg Haraldsdóttir 4, Guðrún Þóra Hálfdánsdóttir 4, Sunna Jónsdóttir 3, Ásta B. Gunnarsdóttir 2, Steinunn Björnsdóttir 1.

Varin skot : Karen Ösp Guðbjartsd. 10.

Utan vallar : 2 mínútur.

Dómarar : Guðrún Bjarnadóttir og Ragna Sigurðardóttir, mjög góðar.

Áhorfendur : 280.