Krísa George Papandreou, fráfarandi forsætisráðherra Grikklands, gengur út af aukafundi með ríkisstjórn sinni í gær og heldur til fundar með forseta.
Krísa George Papandreou, fráfarandi forsætisráðherra Grikklands, gengur út af aukafundi með ríkisstjórn sinni í gær og heldur til fundar með forseta. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Kristján H. Johannessen khj@mbl.

Fréttaskýring

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

George Papandreou, forsætisráðherra Grikklands, hefur sagt af sér eftir fund sem hann átti með Karolos Papoullias, forseta Grikklands, og Antonis Samaras, leiðtoga stærsta stjórnarandstöðuflokksins á gríska þinginu. Samþykkt var á fundinum að Papandreou viki og leiðtogar stjórnmálaflokka hittist í dag til að ræða myndun nýrrar samsteypustjórnar. Fyrr um daginn sat Papandreou aukafund með ríkisstjórn sinni.

Í dag er áformað að fjármálaráðherrar Evrópusambandsríkjanna hittist til að funda um málefni Grikklands og vaxandi skuldavanda Ítalíu. Búast má við að þrýst verði á Grikki að samþykkja þær umbætur sem lagðar hafa verið til en evruríkin bíða með afhendingu átta milljarða evra björgunarpakka þar til víðtæk samstaða hefur náðst í Grikklandi. Áðurnefnd fjárhæð er hluti af 110 milljarða evra björgunarpakka sem samþykktur var í maímánuði en talið er að Grikkir þurfi á fénu að halda eigi síðar en um miðjan desembermánuð næstkomandi.

Hafa viljað Papandreou frá

Háværar kröfur hafa verið um kosningar í Grikklandi og var lengi útlit fyrir að litlar líkur væru á því að Papandreou tækist að koma á samsteypustjórn. Meðal þeirra sem krafist hafa kosninga er stjórnarandstöðuleiðtoginn Samaras og hefur flokkur hans einnig lýst því yfir að hann myndi ekki taka þátt í myndun samsteypustjórnar undir forystu þáverandi forsætisráðherra. Samaras segist reiðubúinn til að taka þátt í myndun nýrrar ríkisstjórnar en henni er ætlað að sitja fram að þingkosningum sem áformaðar eru á komandi vormánuðum. Setti Samaras sem skilyrði að forsætisráðherrann víki og varð honum að ósk sinni seint í gærkvöldi.

Skammgóður vermir

Ríkisstjórn Papandreou hélt nýverið naumlega velli í atkvæðagreiðslu um vantraust á ríkisstjórn hans á gríska þinginu. Þeir þingmenn sem studdu stjórnina í atkvæðagreiðslunni voru 153 talsins gegn 145 sem greiddu atkvæði gegn sitjandi stjórn.

Í kjölfar atkvæðagreiðslunnar hélt Papandreou á fund Carolas Papoulias forseta þar sem farið var yfir stöðu mála. Eftir fundinn vildi ráðherrann lítið segja við fjölmiðla en ljóst er að hugmyndir um myndun samsteypustjórnar allra eða flestra flokka voru ræddar. Papandreou segist binda vonir við að ný stjórn komi í gegn nauðsynlegum umbótum sem eru forsenda þess að greiðslur fáist úr björgunarsjóði Evrópusambandsins. Papandreou segir það skilyrði þess að Grikkland fái að vera áfram á evrusvæðinu og hafa fulltrúar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins áður lýst því yfir að hafni Grikkir björgunarpakkanum, verði ekki samið á nýjan leik.