Steingrímur J. lendir ekki oft í því að vera eftirbátur annarra í skattahækkunum

Magnúsi Orra Schram, þingmanni Samfylkingarinnar, stökk ekki bros í umræðum á Alþingi í liðinni viku þegar hann byrjaði ræðu sína á að „þakka ráðherra fyrir hans góða starf á undanförnum árum“. Ráðherrann sem Magnús Orri er svo ánægður með er Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, sem, eins og fram kom í ræðu Tryggva Þórs Herbertssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins í sömu umræðum, hefur staðið fyrir rúmlega 100 breytingum á skattkerfinu, nær öllum til hækkunar.

En þó að Magnús Orri teldi fjármálaráðherra hafa staðið sig vel fann hann þó að einu; hann taldi ráðherranum hafa yfirsést nýr skattlagningarmöguleiki. Magnús Orri sagði að „ónýtt dauðafæri“ væri til frekari gjaldtöku af sjávarútveginum því að hægt hefði verið að ná 6-7 milljörðum til viðbótar í ríkissjóð með því að láta greiða fyrir makrílkvótann.

Magnús Orri er ekki eini þingmaður Samfylkingarinnar sem telur að fjármálaráðherra hafi þarna misst af „dauðafæri“ við að auka álögur. Ólína Þorvarðardóttir hefur lýst sömu skoðun en telur raunar að milljarðarnir sem Steingrímur missti af hafi verið 9 en ekki 6-7 eins og Magnús Orri hélt fram.

Óli Björn Kárason brást við sjónarmiðum Ólínu á vef sínum á dögunum og benti á að þau jafngiltu því að skattlagning sjávarútvegsins væri rúm 27% af útflutningsverðmætum greinarinnar. Samkvæmt því reiknar hann út að þessi viðbótarskattlagning yrði liðlega 60 milljarðar króna ef gengið er út frá verðmætum liðins árs. Þetta sé svipuð fjárhæð og allur hagnaður sjávarútvegsins fyrir afskriftir og fjármagnsliði á árinu 2009, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Afleiðingin væri sú að slík skattlagning myndi þurrka út allan hagnað greinarinnar og gott betur. Sjávarútvegurinn yrði rekinn með stórkostlegu tapi ef hugmyndir Ólínu og Magnúsar Orra næðu fram að ganga fyrir sjávarútveginn í heild.

Það er ekki á hverjum degi sem Steingrímur J. Sigfússon verður fyrir því áfalli að lenda í yfirboðum þegar kemur að skattahækkunum, því að hingað til hefur hann vandræðalaust haldið nokkuð öruggri forystu í þeim efnum. En það er lengi von á samkeppni og auðvitað hlaut hún að koma frá samstarfsflokknum Samfylkingunni, sem vill ekki láta sitt eftir liggja í að auka álögur á fólk og fyrirtæki og rýra þannig fjárfestingar fyrirtækja og kjör almennings.