Rithöfundurinn Þráinn fjallar á skemmtilegan hátt um sorglegan sjúkdóm sinn; alkóhólisma. Fallið nefnist bók hans en að sögn Þráins er fall óaðskiljanlegur hluti af sjúkdómnum.
Rithöfundurinn Þráinn fjallar á skemmtilegan hátt um sorglegan sjúkdóm sinn; alkóhólisma. Fallið nefnist bók hans en að sögn Þráins er fall óaðskiljanlegur hluti af sjúkdómnum. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Börkur Gunnarsson borkur@mbl.is Alþingismaðurinn, rithöfundurinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Þráinn Bertelsson kemur gangandi á kaffihúsið þar sem við höfum mælt okkur mót brosandi glaður og það er bjart yfir honum.

Viðtal

Börkur Gunnarsson

borkur@mbl.is

Alþingismaðurinn, rithöfundurinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Þráinn Bertelsson kemur gangandi á kaffihúsið þar sem við höfum mælt okkur mót brosandi glaður og það er bjart yfir honum. Alkóhólistinn Þráinn er nýbúinn að falla og nýbúinn að fara í meðferð. Eftir að hafa komist aftur í snertingu við afleiðingar sjúkdómsins eftir 15 ára edrúmennsku ákvað hann að skrifa bók um fallið, sem er nýkomin út hjá bókaforlaginu Sögur. „Hvernig líður þér?“ spyr blaðamaður Morgunblaðsins eftir kurteisiskveðjurnar. „Mjög vel, hef það bara gott í vinnunni og er að horfa mikið á bíómyndir núna á kvöldin út af því að ég er í akademíunni fyrir evrópsku kvikmyndaverðlaunin. Heyrðu, þú ert tékkneskumælandi, ég var að horfa á fína mynd frá Tékklandi í gær sem heitir Lidice, hefurðu séð hana?“

Nei, svo var ekki, en blaðamaður lýsti mikilli öfund sinni í garð Þráins, því ef maður er meðlimur í evrópsku akademíunni fær maður allar bestu myndir Evrópu sendar frítt heim til sín.

„Jaaa, gaman og ekki gaman,“ segir Þráinn og horfir kankvís á blaðamanninn. „Það er nú ekki mikið af þessu skemmtilegt sem maður er að fá sent. Persónulega finnst mér þessi veröld svo stútfull af ókeypis leiðindum að það er á sig leggjandi að gera eitthvað skemmtilegt. En einhverra hluta vegna er það algengt í Evrópu að ungir krakkar á þrítugsaldri, sem njóta þeirra forréttinda að hafa menntun og fá að gera bíómynd sem er svo langt frá því að vera sjálfsagt, noti tækifærið til að segja manni hvað lífið er alveg djöfullegt. Það er alveg rétt en ég þarf ekki að vera umkringdur af einhverjum ungmennum sem segja mér frá þessu, ég hef vitað þetta lengi. Ég svipast frekar um eftir fólki sem hefur verið að skoða veröldina og segja þannig frá að þeir gera lífið bærilegt. Eins og þessir litlu snillingar sem gerðu Amélie og MicMacs. Svo getur verið áhugavert að horfa á svona þyngslalegar myndir í bland eins og myndina Katyn eftir Andrej Wajda. Hún sýnir svartar hliðar mannsins, en hún er líka eftir mann sem hefur reynt allt í lífinu og faðir hans var einn af þeim sem voru fórnarlömb Sovétmanna í fjöldamorðunum í Katyn skógi,“ segir Þráinn en þá hringir síminn hjá honum og Össur Skarphéðinsson er á línunni. Þegar símtalinu er lokið spyr blaðamaður hvaðan þeir þekkist. „Ég man nú eftir honum alveg frá því í Alþýðubandalaginu og á Þjóðviljanum sáluga,“ segir Þráinn. „En við urðu ekki vinir þá, það kom miklu seinna, gerðist svona með tímanum. Það var ekki til siðs að vera vinir í Alþýðubandalaginu,“ segir hann glottandi.

Vinir og óvinir í pólitík

Vangaveltur um Alþýðubandalagið leiða hugann að annarri pólitískri hreyfingu sem Þráinn var í, Borgaraflokknum. Framkoma samþingmanna Þráins í Borgaraflokknum við hann var ekki skemmtileg og aðspurður hvernig sé að vinna með þeim eftir það segir hann að það gangi bara ágætlega. „Fólk er eins og það er, maður getur ekki verið furðulostinn yfir því endalaust. Ekki þannig að skilja að ég og þau í Hreyfingunni erum ekkert að fara út að skemmta okkur saman, en að vinna saman gengur alveg prýðilega. Mér finnst þau til dæmis koma að verulegu gagni á þingi. Okkar ágreiningur var fyrst og fremst að standa við kosningaloforð, til dæmis að sækja um aðild að Evrópusambandinu, þau guggnuðu á því og það var ekki nógu gott. Ég er upptekinn af því að fólk þurfi að standa við það sem það segir. Ef fólk stendur ekki við það sem það segir er orðið gagnslaust að tala saman.

Þorri fólks hefur áhuga á því að fá að sinna sínu starfi, eiga börn og buru og fá að skemmta sér við að eiga vélsleða eða safna frímerkjum og hefur ekki nokkra áhuga á peningum umfram þetta. En svo eru á kreiki í þjóðfélaginu skuggaverur sem hafa ekki áhuga á neinu öðru en peningum og þær nota öll tækifæri til þess að svíða peninga af fólki. Þetta er vandamál í þjóðfélaginu. Þá er ég ekki að tala um menn eins og sameiginlegan vin okkar í Tékklandi sem vinnur sína vinnu og eignast peninga fyrir það. Heldur menn sem eru bara að auðgast með auvirðilegum fantabrögðum. Talandi um stjórnmál er ég óskaplega einföld sál. Ástæðan fyrir því að ég hef flakkað á milli stjórnmálaflokka er að þeir hafa tilhneigingu til að verða að einhverjum sértrúarsöfnuðum. Ég hef aldrei verið mikill trúmaður. Ég trúi á lýðræði, þannig að meirihlutinn eigi að ráða án þess að kúga minnihlutann. Ég trúi að við eigum ekki að breyta þessum heimi í öskuhauga og því er ég umhverfisverndarsinni. Og fyrst og fremst trúi ég á jöfnuð. Ekki bara á jafnrétti kynjanna, heldur raunverulegan jöfnuð allra manna, og þar með á réttlátari og jafnari skiptingu heimsins gæða.

Eftir mínar pólitísku pælingar árum saman er mín sýn svona einföld. Svo eiga menn til að gera þetta ótrúlega flókið. Það er til fullt af fólki sem trúir því að það eigi að fá sínum ýtrustu kröfum framgengt. Við búum saman með mismunandi skoðanir á sömu plánetu og eigum að lifa saman í samkomulagi, en ekki þannig að einhverjir aðilar þröngvi skoðunum sínum upp á aðra.

Ef ég fengi allt mitt í gegn þætti mér það fínt en öðrum myndi örugglega finnast það óbærilegt og þetta verðum við að hafa í huga.“

List gærdagsins

Aðspurður hvernig það sé að vera í VG, flokki sem ræðst gegn kvikmyndalistinni, þeirri starfsgrein sem hann hefur helgað líf sitt. „Ég er stoltur af því að hafa ásamt félögum mínum, konum og körlum, lagt grundvöllinn að íslenskri kvikmyndagerð og þar með skapað þjóðarbúinu um 750 ársverk með litlum sem engum tilkostnaði og án þess að sökkva landi eða menga það. Það er að ég held vaxandi skilningur á mikilvægi hinna skapandi greina, en af þeim er kvikmyndalistin yngst og nær til flestra. Menntamálaráðuneytið hefur löngum verið upptekið af list gærdagsins í stað þess að horfa fram á veginn. Kannski breytist það til batnaðar eins og annað – en ég ætla hvorki að láta bírókrata sem skortir metnaðarfulla sýn á framtíðina vinna hinum skapandi greinum ógagn meðan ég get einhver áhrif haft í pólitík. Það tókst í bili með sameinuðu átaki að bjarga Kvikmyndaskóla Íslands og svo að allrar sanngirni sé gætt vil ég þakka starfandi menntamálaráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, fyrir hennar hlut í að leysa mál sem vanrækt hafði verið í ráðuneytinu að taka á með sanngjörnum hætti. Íslensk kvikmyndagerð á ekki að vera háð duttlungum eða smekk bírókrata eða pólitíkusa hvar í flokki sem þeir standa. Íslensk kvikmyndagerð hefur kostað miklar fórnir, en hún er komin til að vera.“

Hentuga tækifærið

Það er margt áhugavert í bók Þráins, en spurður um hina heppilegu tímasetningu fallsins, í sumarfríi frá Alþingi segir hann það rétt að hún hafi verið ansi heppileg.

„Ég held að tímasetningin hafi alls ekki verið tilviljun, heldur „hentugt tækifæri“. Það hefur oft komið fyrir mig að veikjast og leggjast í rúmið með einhverja flensu eða pest akkúrat þegar einhverju stóru verkefni er lokið og spennufall verður; slíkum aðstæðum fagna virkir alkóhólistar með því að detta í það. Þegar adrenalínflæði streitunnar hættir er eins og varnarkerfi manns fari í frí. Þegar sumarfríið í þinginu byrjaði var það eiginlega fyrsta raunverulega sumarfríið síðan ég var kosinn á þing. Það var búið að vera heilmikil vinna og álag á þinginu og þar fyrir utan deilur í flokknum vegna „þremenninganna“ sem ég tók dálítið inn á mig. Já, ég held að „fallið“ hafi verið yfirvofandi lengi af ástæðum sem ég rek í bókinni, og í upphafi sumarleyfis í útlöndum mynduðust kjöraðstæður til að falla – eða veikjast – hvort sem menn vilja hafa heldur.“

En hvað með óttann yfir að annað fall vofi yfir?

„Ég eins og aðrir alkóhólistar verð að fylgjast með því að varnarkerfi mitt sé í eins góðu lagi og mér er frekast unnt. Varnarkerfið inniber allt sem stuðlar að því að viðhalda fúsleikanum til að vera edrú og minnir mig stöðugt á hversu hörmulegar aðstæður ég get kallað yfir mig og mína með því að byrja að drekka. Ég er orðinn nokkuð reyndur sem óvirkur alkóhólisti hafandi verið edrú í um 26 af þeim 27 árum sem liðin eru síðan ég áttaði mig á sjúkdómnum,“ segir Þráinn.

BÓKIN

Alkóhólisminn

Þráinn Bertelsson gaf út bók hjá Sögum sem fjallar um stórhættulegt vínglas sem hann fékk sér í sumar. Í kynningu á bókinni segir: Þráinn Bertelsson er leikstjóri, rithöfundur, þingmaður – og alkóhólisti. Hann datt í það á fallegu júníkvöldi í Færeyjum. Hann reis upp með góðra manna hjálp og hér segir hann söguna af fallinu og upprisunni. Lesendur fylgja Þráni úr dimmu hótelherbergi í Þórshöfn og fram í dagsljósið á Vogi. Við kynnumst líka tröllinu blíða og handrukkaranum Sigga súperman, Beggu hjúkrunarfræðingi, Bússa ættgöfga, séra Bersa og fleiri samferðamönnum. Alkóhólisminn fer ekki í manngreinarálit og við kynnumst öllum hliðum mannlegrar tilveru.