Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Alma, flutningaskip skráð á Kýpur, var dregið til hafnar á Fáskrúðsfirði í gærmorgun með óvirkt stýri en vél og skrúfu í lagi.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Alma, flutningaskip skráð á Kýpur, var dregið til hafnar á Fáskrúðsfirði í gærmorgun með óvirkt stýri en vél og skrúfu í lagi. Landhelgisgæslan stýrði björgunaraðgerðinni sem heppnaðist vel og engin slys urðu á mönnum, þó svo að útlitið hafi ekki verið gott á tímabili sökum vonskuveðurs.

Gæslunni barst aðstoðarbeiðni um þrjúleytið aðfaranótt laugardags frá dráttarbátnum Birni Lóðs sem þá var kominn Ölmu til aðstoðar og freistaði þess að koma skipinu út fyrir Ósinn í Hornafirði. Skipið var tekið í tog og kallaði Gæslan til fjölveiðiskipið Hoffell sem var í um sex sjómílna fjarlægð suðaustur af staðnum. Dráttartaug var komið milli Hoffells og Ölmu og var flutningaskipið dregið austur fyrir Stokksnes en um tveimur tímum síðar slitnaði taugin. Önnur taug var komin milli þeirra kl. 14.45.

Um borð í Ölmu voru 16 menn, 14 frá Úkraínu og tveir frá Rússlandi og var fenginn túlkur frá Alþjóðasetri til að liðka fyrir samskiptum við úkraínskan skipstjórann. Í fyrstu var ætlunin að draga skipið til Reyðarfjarðar en vegna vonskuveðurs var ákveðið að taka stefnuna á Fáskrúðsfjörð. Skipin lögðust þar að bryggju á fjórða tímanum að morgni sunnudags.

Mikið átak

„Við vorum allir stressaðir, þetta var mikið átak,“ segir Vignir Júlíusson, hafnsögumaður hjá Hornafjarðarhöfn, sem var í Birni Lóðs þegar björgunaraðgerðin fór fram. Hann segir samskiptin við skipstjóra Ölmu alls ekki hafa gengið svo illa en hann hafi orðið óðamála á ensku og illa gengið þá að skilja hann. „Þegar verið er að draga þarf nákvæmni, t.d. fyrir skipstjórann á Hoffellinu sem dró hann, hann þarf að geta gert honum alveg grein fyrir því hvað hann á að gera,“ segir Vignir. „Við náðum að taka hann frá fjörunni, hann var á mjög grunnum sjó, í þannig aðstæðum að ég er ekki viss um að Hoffellið hefði getað náð honum. Svo var aðeins vindur á land og alda líka þannig að það var mjög nauðsynlegt að koma honum í burtu sem allra fyrst. Við höfðum ekkert val, urðum að fá að hengja hann aftan í og koma honum frá. Það gekk vel því hann gat keyrt sjálfur og við höfðum þá þetta hlutverk að vera hálfgert stýri.“

Vignir segir að raunveruleg og mikil hætta hafi verið á ferð og tíminn naumur. „Við drógum hann svona fimm sjómílur frá landi og þegar hann var settur í Hoffellið var bara komin suðvestanátt, 20 metrar á sekúndu.“ Þá hafi Alma hins vegar komin það langt frá landi að engin hætta hafi verið á strandi.

„Það er náttúrlega alltaf hættuástand þegar skip verða stjórnvana,“ segir Bergur Einarsson, skipstjóri Hoffells. Þurft hafi að ná skipinu frá áður en það ræki upp að landi. „Svo slitum við taugina kl. 8 um morguninn en þá vorum við komnir með hann á frían sjó og vitlaust veður, mikil átök. Það var ekkert vit í því að vera að tengjast aftur fyrr en færi að lægja. Það skipti fallinu og þá fór hann að reka meira í átt að landi, upp á Hvítingana,“ segir Bergur. Því hafi þurft að drífa í því að koma taug milli skipanna á ný. Hann hafi ekki lent í því áður að draga skip í svo slæmu veðri.

Ósinn hættulegur og erfiður

Hrafnhildur Brynja Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir björgunaraðgerðina vissulega hafa verið mjög viðamikla en handtökin hafi verið snör og allt gengið upp. Ósinn í Hornafirði sé bæði hættulegur og erfiður og veður hafi verið afskaplega slæmt. Því hafi Gæslan ákveðið að senda bæði varðskipin á staðinn svo þau væru til taks ef á þeim þyrfti að halda.

Sem fyrr segir gengu samskiptin ekki greiðlega við skipstjóra Ölmu og var því fenginn túlkur frá Alþjóðasetri, Vera Kalishnikova, niður í stjórnstöð, til að ræða við úkraínskan skipstjóra Ölmu.

„Þá gekk þetta allt miklu betur. Við ákváðum samt að senda stýrimann frá Gæslunni um borð svo einhver væri þar vanur íslenskum aðstæðum.“