7. nóvember 1916 Fyrsta blaðagreinin sem Halldór Laxness skrifaði undir eigin nafni, H. Guðjónsson frá Laxnesi, birtist í Morgunblaðinu. Hann var þá 14 ára. Greinin fjallaði um klukku sem „er að sögn ein hin fyrsta er til landsins fluttist“.

7. nóvember 1916

Fyrsta blaðagreinin sem Halldór Laxness skrifaði undir eigin nafni, H. Guðjónsson frá Laxnesi, birtist í Morgunblaðinu. Hann var þá 14 ára. Greinin fjallaði um klukku sem „er að sögn ein hin fyrsta er til landsins fluttist“.

7. nóvember 1931

Héraðsskólinn í Reykholti var vígður. Hann var einn af níu héraðsskólum sem settir voru á fót, m.a. að frumkvæði Jónasar Jónssonar frá Hriflu.

7. nóvember 1936

Sigurður Björnsson á Kvískerjum í Öræfum lenti í snjóflóði í Breiðamerkurfjalli, hrapaði 200 metra og lá skorðaður 28 metra undir jökulrönd þar til honum var bjargað eftir rúman sólarhring.

7. nóvember 1987

Ólafur Ragnar Grímsson var kjörinn formaður Alþýðubandalagsins í stað Svavars Gestssonar. Í formannskjöri hlaut hann 60% atkvæða en Sigríður Stefánsdóttir 40%. Ólafur gegndi formennskunni í átta ár.

7. nóvember 2007

Minnismerki um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur kvenréttindafrömuð var afhjúpað á horni Þingholtsstrætis og Amtmannsstígs í Reykjavík. Merkið er hringlaga stétt úr graníti með vísu eftir Bríeti.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson