Ármaður Ásgrímur Hermannsson og vinir hans hafa stofnað þrýstihóp í því skyni að fá framhaldsskóla til að kenna eftir nýju aðalnámskránni sem kemur inn á margar þær breytingar sem Ásgrímur segir æskilegar í menntakerfinu.
Ármaður Ásgrímur Hermannsson og vinir hans hafa stofnað þrýstihóp í því skyni að fá framhaldsskóla til að kenna eftir nýju aðalnámskránni sem kemur inn á margar þær breytingar sem Ásgrímur segir æskilegar í menntakerfinu. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ylfa Kristín K. Árnadóttir ylfa@mbl.is Ásgrímur Hermannsson, ármaður skólafélags Menntaskólans við Sund, vakti mikla athygli í haust þegar hann ritaði grein á heimasíðu skólafélagsins um að kennsluhættir framhaldsskólanna hentuðu ekki nemendum 21.

Ylfa Kristín K. Árnadóttir

ylfa@mbl.is

Ásgrímur Hermannsson, ármaður skólafélags Menntaskólans við Sund, vakti mikla athygli í haust þegar hann ritaði grein á heimasíðu skólafélagsins um að kennsluhættir framhaldsskólanna hentuðu ekki nemendum 21. aldarinnar. Aðgengi að upplýsingum hefði breyst gríðarlega en í stað þess að breyta kerfinu væri reynt að breyta nemendunum.

Ásgrímur segir að síðan greinin birtist hafi hann fundið fyrir gríðarmiklum stuðningi og hann sé enn að fá hrós fyrir pistilinn. „Það er gífurlegur stuðningur við þetta en eins og í mörgu öðru er fólk sem vill breyta en það er enginn tilbúinn að byrja slaginn,“ segir hann.

Hægfara breytingar

Ásgrímur segir hlutina vissulega breytast en það gerist einfaldlega of hægt. „Eftir að ég skrifaði greinina erum við nokkrir krakkar í samstarfi við Samband íslenskra framhaldsskólanema búnir að stofna þrýstihóp út af því að nýja aðalnámskráin kemur inn á margar af þessum breytingum sem eru æskilegar í menntakerfinu í dag en nær ekkert gerist vegna fjármagnsskorts. Kerfið breytist ekki ef enginn ýtir,“ segir Ásgrímur.

Hann segir þau viðbrögð sem hann hafi fengið frá kennurum og skólastjórnendum nær eingöngu hafa verið jákvæð. „Það eru margir kennarar búnir að tala um að þetta hafi einnig verið gallinn við menntakerfið þegar þeir voru í menntaskóla,“ segir Ásgrímur. Hann segir vilja til að breyta vera til staðar en viljinn til að framkvæma týnist í skrifræði, álitsgjöfum og nefndarstörfum. „Svandís Svavarsdóttir, sem gegndi um tíma starfi menntamálaráðherra, sagði að maður ætti að geta fundið allt í sínum hverfisskóla. Það er í raun og veru mjög mikil tímaskekkja því sérhæfðir skólar eru það sem þarf. Það er ekki hægt að setja allt í einn skóla og ætlast til að það verði góður skóli.“

Kennsluhættir í endurskoðun

Þórir Ólafsson, deildarstjóri í framhaldsskóladeild menntamálaráðuneytisins, segir umræðuefnið verðugt og hafi grein Ásgríms og viðbrögðin við henni verið rædd innan ráðuneytisins. „Skólar hafa verið að endurskoða kennsluhætti sína undanfarið. Á stórum fundi sem ráðuneytið átti með skólameisturum í lok október var eitt stærsta umræðuefni kennsluhættir 21. aldar þannig að þetta er efni sem er alltaf til umræðu,“ segir Þórir.

FRAMHALDSSKÓLINN Í MOSFELLSBÆ

Verkefnamiðað nám

Kennsluhættirnir í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ, einum af tveimur framhaldsskólum landsins sem kenna eftir nýju námskránni, eru frábrugðnir þeim sem þekkjast í flestum öðrum framhaldsskólum landsins. „Námið er verkefnamiðað,“ segir skólameistarinn Guðbjörg Aðalbergsdóttir. „Við notum litla beina miðlun eins og fyrirlestra en notum verkefnamiðaðar aðferðir, þannig að nemendur eru látnir tileinka sér námsefnið í gegnum verkefni sem þeir vinna og allt námsefni er sett fram í gegnum kerfi á netinu og tölvur mikið notaðar.“

Hún segir að fólk miði oft hluti við það sem það sjálft ólst upp við. „En nú er allt á fleygiferð, kynslóðin sem er að alast upp núna fer ekki fyrst á bókasafn til að leita að einhverju, krakkarnir fara á YouTube og Google. Við fullorðna fólkið þurfum að hafa okkur öll við að fylgja þeim.“