Sigurður Sveinn Sigurðsson
Sigurður Sveinn Sigurðsson
SA Víkingar unnu öruggan sigur á Húnum, öðru liði Bjarnarins, 12:1 þegar liðin mættust á Íslandsmótinu í íshokkí í gær. Leikið var í Skautahöll Akureyrar og var það aðeins fyrsta lotan sem var spennandi.

SA Víkingar unnu öruggan sigur á Húnum, öðru liði Bjarnarins, 12:1 þegar liðin mættust á Íslandsmótinu í íshokkí í gær. Leikið var í Skautahöll Akureyrar og var það aðeins fyrsta lotan sem var spennandi. Heimamenn voru reyndar lengi að finna netmöskvana en á 8. mínútu kom Sigurður Sigurðsson pekkinum rétta leið framhjá markverði Húna. Gestirnir jöfnuðu svo metin en fimm mínútum fyrir lok fyrstu lotu komust Víkingar aftur yfir.

Það var svo einstefna í annarri lotu og bættu heimamenn við fimm mörkum í öllum regnbogans litum. Sigurður Sigurðsson hélt áfram að stríða leikmönnum Húna. Hann skoraði þrjú markanna og virtist gamli karlinn óstöðvandi.

Sama var uppi á teningnum í þriðju lotu nema hvað Sigurður skoraði ekki en það gerðu aðrir Víkingar og aftur fimm mörk. Gestirnir eyddu óþarflega miklum tíma í refsiboxinu, sérstaklega undir lok annarrar lotu en það var þó ekki það sem skildi á milli liðanna.

SR á einn leik til góða á Björninn en bæði lið eru með 15 stig. Víkingar koma næstir með 9, Jötnar 5 en Húnar reka lestina enn án stiga. omt@mbl.is