<strong>Skógarnir</strong> Grisjað í Guttormslundi í Hallormsstaðaskógi. Lerkilundurinn var gróðursettur 1938 og er kenndur við Guttorm Pálsson skógarvörð.
Skógarnir Grisjað í Guttormslundi í Hallormsstaðaskógi. Lerkilundurinn var gróðursettur 1938 og er kenndur við Guttorm Pálsson skógarvörð. — Ljósmynd/Þröstur Eysteinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Í nokkrum nágrannalöndum Íslands hafa markmið verið sett á síðustu misserum til að auka útbreiðslu skóga. Þetta er ýmist gert af umhverfissjónarmiðum eða til að efla atvinnu í dreifðum byggðum.

Viðtal

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Í nokkrum nágrannalöndum Íslands hafa markmið verið sett á síðustu misserum til að auka útbreiðslu skóga. Þetta er ýmist gert af umhverfissjónarmiðum eða til að efla atvinnu í dreifðum byggðum. Hérlendis gremst skógræktarfólki hins vegar að dregið hefur úr stuðningi við skógrækt. Þröstur Eysteinsson, sviðsstjóri hjá Skógrækt ríkisins, telur að aukið átak í þessum efnum myndi fljótt skila sér í aukinni atvinnu og Ísland yrði betur í stakk búið til að standast alþjóðlegar skuldbindingar.

Þröstur segir að þegar árið 2005, þremur árum fyrir hrunið, hafi byrjað að draga úr stuðningi við skógrækt. „Fjárlögin eru góður mælikvarði á áhuga eða áhugaleysi stjórnvalda og þar kemur fram að hlutfall framlaga til skógræktar hefur minnkað talsvert miðað við heildarútgjöld ríkisins á hverju ári miðað við verðgildi krónu hvers árs,“ segir Þröstur.

„Á tímabili fjölgaði þeim krónum sem fóru til skógræktar, en ekki í sama mæli og heildarútgjöld jukust og ekki í takt við verðbólgu. Það er hins vegar sérstakt að áhugi stjórnvalda byrjaði að dala þegar árið 2005 hverju sem það sætir.“

Lækka mætti reikninginn

Hann bendir á að skógarafurðir séu fluttar inn árlega fyrir á annan tug milljarða, en með átaki í skógrækt væri hægt að lækka þennan reikning verulega. Hann segir að þróun á framleiðslu og sölu afurða úr íslenskum skógum tali sínu máli og hægt sé að framleiða timbur úr skógunum, þó svo að enn sé það aðeins gert í litlum mæli.

„Það er ekki markmið að skógrækt sé háð ríkisframlögum. Þvert á móti viljum við að skógræktin verði sjálfbær og skili til þjóðarinnar peningalegum verðmætum, ekki síður en öðrum verðmætum eins og bættri lýðheilsu, landgræðslu og auknum umhverfisgæðum. Hins vegar er skógrækt áfram háð opinberum framlögum þar til skógarauðlindin er orðin nógu umfangsmikil til að vera sjálfbær. Það getur tekið einhverja áratugi eða jafnvel aldir, allt eftir því hversu hratt við ákveðum að byggja upp auðlindina. “

Þröstur segir að Skógræktin hafi gert talsvert af því að ráða fólk af atvinnuleysisskrá og nemendur gegn því að fá atvinnuleysisbætur með viðkomandi. Nóg sé af fjölbreyttum verkefnum hjá Skógræktinni en á móti framlaginu þurfi að koma laun frá stofnuninni og erfitt sé að mæta þeim í niðurskurðinum. „Okkur finnst það sérstakt að af verkefnum umhverfisráðuneytis sé mest skorið af framlögum til skógræktar og í landbúnaðarráðuneyti komi mestur niðurskurður á landshlutaverkefnin í skógrækt.“

Tímamörkin tekin út

Þröstur segir að nú sé skógur á rúmlega 2% láglendis. Náttúruskógur, sem er að mestu birkiskógur og kjarr, sé á um 1,6% láglendis og ræktaður skógur sé á um 1% af láglendi. Stjórnvöld hafi með lögum frá 1999 um landshlutaverkefnin gert það að markmiði að 5% láglendis yrðu klædd skógi árið 2040. Við endurskoðun á þeim lögum árið 2006 hafi tímamörkin hins vegar verið tekin út. „Það var greinilegt að ekki var lengur vilji hjá fjárveitingavaldinu til að leggja nauðsynlegt fjármagn í skógrækt til að ná þessu markmiði,“ segir Þröstur.

VATNSVERND, ATVINNA OG LOFTSLAG

Nágrannar vilja auka útbreiðslu skóga

Þröstur Eysteinsson segir að margar ástæður séu fyrir því að í til dæmis Danmörku, Hollandi, Írlandi og Skotlandi sé unnið að því að auka útbreiðslu skóga. Sumar tengist þær loftslagsmálum og því verkefni að binda kolefni. Aðrar tengist atvinnuuppbyggingu eða umhverfismálum almennt.

„Danir vilja fyrst og fremst auka skóg í vatnsverndarskyni vegna þess að skógur hreinsar ýmis mengunarefni úr regnvatni meðan það rennur í gegnum skóginn og skógarjarðveginn og dregur jafnframt úr yfirborðsrennsli vatns. Sama gildir um Hollendinga, en þeir eru með mikla svínarækt og svínaskíturinn er notaður sem áburður á akra. Í úrganginum eru meðal annars kólígerlar og ef þeir komast í neysluvatn er voðinn vís,“ segir Þröstur.