Sagnfræðingurinn Gunnar Marel Hinriksson hefur gefið út bók um Selfoss.
Sagnfræðingurinn Gunnar Marel Hinriksson hefur gefið út bók um Selfoss.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ungur sagnfræðingur sendi nýverið frá sér ljósmyndabókina Selfoss. Segist ekki draga upp fegraða mynd af bænum.

Ingveldur Geirsdóttir

ingveldur@mbl.is

Selfoss nefnist nýútkomin ljósmyndabók eftir ungan sagnfræðing og skjalavörð. Gunnar Marel Hinriksson er uppalinn á Selfossi og þriðju kynslóðar Selfyssingur í báðar ættir. Bærinn er honum kær og það hve umhugað honum er um hann er ein af ástæðunum fyrir gerð bókarinnar. Gunnar segir þó bókina ekki sýna fegraða mynd af Selfossi. „Hugsanlega mætti túlka það sem svo að mér þyki hann ljótur og leiðinlegur bær. En sjálfur lít ég svo á að vinur sé sá er til vamms segir, og sú gagnrýni sem lesa má úr bókinni er sett fram af umhyggju en ekki meinfýsni,“ segir Gunnar. Hann starfar nú sem skjalavörður hjá Kópavogsbæ og er formaður Sögufélags Árnesinga.

Selfoss er ljósmyndabók þar sem hver mynd er pöruð við texta sem tengist þorpinu á einn eða annan hátt. „Þannig næst fram samspil myndar og texta sem vonandi sýnir áhorfandanum þorpið á nýjan hátt. Fyrsti hluti bókarinnar sýnir texta frá því um landnám og fram á 19. öld. En hún kemur líka inn á framkvæmdir hins meinta góðæris, pólitíkina, mannlífið og svo er hugsanlega einhver húmor þarna líka. Bókin er ekki héraðssaga, en kannski tilraun til að skilja bæ,“ segir Gunnar um bókina.

Notaði svarthvíta filmu

Hugmyndin að gerð bókarinnar kviknaði í gönguferð um staðinn. „Ég var á gangi á Selfossi og nýlega búinn að eignast hér um bil þrítuga myndavél á páskadag 2009 og tók mynd af Austurveginum á Selfossi. Þá fannst mér ég allt í einu geta reynt að skilja Selfoss betur með því að taka myndir af honum. Í kjölfarið fór ég að lesa mér til um ljósmyndun og varð fyrir áhrifum frá mönnum á borð við Eguene Atget sem ljósmyndaði París um og upp úr aldamótunum 1900 á mjög einfaldan og hráan hátt, hann tók myndir af húsum sem til stóð að rífa og hverfum úr alfaraleið. Fyrir vikið verður til kannski hversdagslegri mynd af borginni og hugsanlega örlítið sannari. Þetta vildi ég reyna að gera á Selfossi, og af þeim sökum kom ekki til greina annað en að nota svarthvítar filmur, litmyndir eru ekki nógu hversdagslegar. Hugmyndin að tvinna saman texta og myndir kom seinna en gefur þessari bók kannski örlitla sérstöðu, því þá mun áhorfandinn ósjálfrátt skoða myndirnar í einhverju samhengi í stað þess að þær standi einar og óstuddar,“ segir Gunnar.