Norður-Írinn Rory McIlroy er kominn í annað sæti heimslistans í fyrsta skiptið á ferlinum. Hann hafnaði í fjórða sæti á HSBC-meistaramótinu í Sjanghæ um helgina og það skaut honum upp fyrir Lee Westwood sem hafnaði í þrettánda sæti.

Norður-Írinn Rory McIlroy er kominn í annað sæti heimslistans í fyrsta skiptið á ferlinum. Hann hafnaði í fjórða sæti á HSBC-meistaramótinu í Sjanghæ um helgina og það skaut honum upp fyrir Lee Westwood sem hafnaði í þrettánda sæti. Fugl á síðustu holunni sá til þess að McIlroy endaði fjórði en ekki jafn fjórum öðrum í 6. sæti en þá hefði Westwood haldið öðru sætinu. Norður-Írinn var þó ekki fullkomlega sáttur og skrifaði eftirfarandi á samskiptavefinn Twitter: „Fjórða sætið var ekki það sem ég vonaðist eftir en samt örugg vika. Á jákvæðari nótum, þá færist ég upp í annað sæti heimslistans.“

Besti kylfingur heims, Luke Donald, var ekki með á mótinu en stöðu hans var ekki ógnað. Fyrrverandi efsti maður listans, Martin Kaymer, vann mótið og færðist með því upp í fjórða sæti listans. omt@mbl.is