Gunnlaugur Grétar Björnsson fæddist í Tjarnarkoti í A-Landeyjum 16. desember 1932. Hann lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Kjarnalundi við Akureyri 31. október 2011.

Foreldrar hans voru Björn Eiríksson bóndi og kennari, f. 27. mars 1893 á Efri-Þverá í Vesturhópi, d. 14. apríl 1959, og Auðbjörg Guðmundsdóttir húsmóðir, f. 4. júní 1891, frá Hvítanesi í V-Landeyjum, d. 14. mars 1976. Bræður Gunnlaugs eru: Eiríkur Björnsson, f. 1923, d. 2001, Guðmundur Kristinn eldri, f. 1925, d. 1928, og Guðmundur Kristinn, f. 15. júní 1929.

Gunnlaugur ólst upp hjá foreldrum sínum þar til hann tók við búinu af þeim í Hraukbæ í Glæsibæjarhreppi. Þar bjó hann með móður sinni þar til þau fluttu í Hólakot í Saurbæjarhreppi. Eftir lát móður sinnar flutti Gunnlaugur til bróður síns og mágkonu, Eiríks og Klöru í Arnarfell í sömu sveit og síðan með þeim til Akureyrar árið 1984. Gunnlaugur flutti í Kjarnalund árið 2001.

Útför Gunnlaugs fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 7. nóvember 2011, og hefst athöfnin kl. 13.30.

Ég kynntist Gulla þegar ég var átta ára gamall, er ég fluttist fram í Arnarfell þar sem hann bjó ásamt bróður sínum Eiríki og konu hans Klöru. Við urðum strax miklir vinir og ég undi mér með honum við ýmiss konar sveitastörf þar sem hann virtist yfirleitt óþreytandi í því að segja manni til með réttu handbrögðin en stundum þó hækkaði hann róminn þegar honum þótti ekki ganga nógu vel að fylgja leiðbeiningum. Við Eiríkur bróðir minn áttuðum okkur snemma á því að með því að suða nógu lengi í Gulla var hægt að fá hann til að leyfa okkur að keyra bílinn sinn, rauðan Renult, á túninu í kringum bæinn. Þessar ökuæfingar byrjuðu það snemma að við áttum í mesta basli með að ná niður á bensíngjöf og bremsu og horfa út á sama tíma. Það voru ófáar ferðirnar um heimatúnið þar sem annar okkar bræðra keyrði bílinn en Gulli sat í farþegasætinu hrópandi og kallandi um að þetta yrði örugglega hans síðasta og hinn okkar grenjaði úr hlátri í aftursætinu, svo var skipt og allt endurtók sig á nýjan leik. Þetta voru skemmtilegar stundir en eitt var það sem Gulli leyfði okkur aldrei að gera og það var að leggja bílnum að loknum bíltúrum. Þannig var að hann var vanur að geyma bílinn sinn uppi við húsvegginn á gamla húsinu í Arnarfelli og þegar við vildum fá að leggja honum sagði hann „ertu vitlaus drengur, það er miklu harðara í húsinu en bílnum“ og þar við sat, Gulli kenndi okkur ekki að leggja bíl í stæði.

Núna í seinni tíð heimsóttum við fjölskylda mín Gulla reglulega á Kjarnalund þar sem hann bjó síðustu árin og alltaf var vel tekið á móti okkur. Gulli fór þá gjarnan með nokkrar vel valdar blaðsíður úr Íslandsklukkunni eða einhverju öðru íslensku ritverki. Alltaf kvaddi hann okkur á svo „Gullalegan“ hátt, hann leit á okkur hjónin og sagði „mikið hafið þið nú verið heppin með börn, hvur ætli hafi fengið ræksnin ykkar á fæðingardeildinni“. Þessi setning lýsir Gulla svo vel, alltaf glettinn og spaugsamur en samt fann maður alltaf hvað honum þótti vænt um mann. Svo fylgdi hann manni alltaf út í bíl og kvaddi á einlægan hátt.

Það vantar mikið núna að geta ekki komið við á Kjarnalundi og átt nokkrar hressandi mínútur með Gulla að spjalla um daginn og veginn. Hann spurði mann alltaf mikið um búskapinn, hvursu margar kýr væru mjólkandi núna og hvort það færi nokkuð að horfalla hjá manni fyrr en eftir áramót. Hann sagði manni margar sögur af búskaparárum sínum og hann fékk alltaf glampa í augun þegar hann sagði manni frá dýrunum sínum, hundum, kúm og kindum.

Það eru ótal margar minningar sem koma upp þegar maður sest niður og leiðir hugann aftur í tímann. Það eru forréttindi að hafa þekkt Gulla þessi ár og að hafa átt allar þessar stundir með honum við leik og störf. Hann kenndi manni margt um lífið og tilveruna, hvernig maður á að sýna náttúrunni og dýrunum virðingu, vera heiðarlegur og að leggja sig alltaf fram í því sem maður er að gera.

Gulli var góður maður.

Arnar Árnason,

Hranastöðum.