Alþingi Fundað.
Alþingi Fundað. — Morgunblaðið/Ómar
Við vitum mætavel að lífið er stutt en samt erum við alltaf að eyða tíma í óþarfa. Fundir eru hluti af þessum óþarfa því þar tíðkast að ræða í einn og hálfan tíma um hluti sem hægt er að afgreiða á korteri.

Við vitum mætavel að lífið er stutt en samt erum við alltaf að eyða tíma í óþarfa. Fundir eru hluti af þessum óþarfa því þar tíðkast að ræða í einn og hálfan tíma um hluti sem hægt er að afgreiða á korteri. Líf okkar væri mun innihaldsríkara ef við einbeittum okkur að þessu korteri og losnuðum þannig við allt það óþarfa snakk sem fylgir löngum fundum.

Um daginn var sjónvarpað frá fundi í atvinnuveganefnd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis. Þetta var morgunfundur sem hófst klukkan 8.45. Fundarmenn voru fölir og guggnir eins og við erum flest svo snemma dags. Þeir töluðu hægt og reyndu að vanda sig, kannski af því að þeir vissu af myndavélunum.

Þetta var ekki skemmtilegt og korterið sem ég sá var eins og hálftími. Og á þessu korteri hafði engum tekist að segja nokkuð minnisvert. En sjálfsagt er það þáttur í endurreisn Íslands að sýna manni frá tíðindasnauðum fundum stjórnmálamanna svo maður geti sannfærst um að þar fari allt eðlilega og spillingarlaust fram. Ég vona bara að stjórnmálamennirnir séu skemmtilegri á lokuðu fundunum en þeir voru á þessum opna fundi.

Kolbrún Bergþórsdóttir

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir