Papandreou forsætisráðherra.
Papandreou forsætisráðherra.
Leiðtogar Frakklands og Þýskalands tilkynntu Grikkjum á blaðamannafundi að þeir fengju ekki næsta lánapakka færu þeir að spyrja grískan almenning um mál, sem honum kemur ekki við.

Leiðtogar Frakklands og Þýskalands tilkynntu Grikkjum á blaðamannafundi að þeir fengju ekki næsta lánapakka færu þeir að spyrja grískan almenning um mál, sem honum kemur ekki við. Það fjallar eingöngu um framtíð og lífsafkomu Grikkja, og er því einkamál búrókrata í Brussel.

Papandreou er enginn Einstein, og það tók hann eina þrjá daga að sjá ljósið, en kenningar Einsteins sneru einmitt um það.

Eftir að Papandreou rak augun í ljósið hætti hann sjálfviljugur við áform sín, rétt eins og Michelsen úrsmiður á Laugavegi 15 afhenti sjálfviljugur bræðrum sínum í Schengen-leiðakerfinu Rolex-úrin þegar þeir áttu leið framhjá búðinni.

En þá kom næsta krafa frá Brussel til Papa: Þú færð ekki nýja lánapakkann nema þú myndir strax sjálfviljugur samsteypustjórn með stjórnarandstöðunni. Papandreou, sem er orðinn vankaður eftir svefnlausar nætur, þar sem hann hefur legið sjálfviljugur andvaka, veit varla sitt rjúkandi ráð.

Hann veit ekki að Brussels þorir ekki að standa við digurbarkalegar hótanir sínar. Því fái Grikkir ekki lánið fara ekki bara þeir á hausinn heldur frönsku, þýsku og hollensku bankarnir. Og evran, biddu fyrir þér.

Þeir Schengen-bræður Michelsens úrsmiðs voru miklu líklegri til að standa við sínar hótanir en pappírstígrisdýrin í París, Berlín og Brussel. En að öðru leyti er innrætið líkt.