Gunnlaugur Grétar Björnsson fæddist í Tjarnarkoti í A-Landeyjum 16. desember 1932. Hann lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Kjarnalundi við Akureyri 31. október 2011.

Útför Gunnlaugs fór fram frá Akureyrarkirkju 7. nóvember 2011.

Gulli frændi, fyrrverandi bóndi í Hraukbæ, var þeirrar gerðar að margir mættu öfunda hann af. Hann varðveitti hreinleika sálarinnar og trúna á hið góða, sem flestir týna einhvers staðar á misþýfðum lendum lífsgöngunnar. Hann átti auðvelt með að kalla fram bros hjá samferðafólki sínu, var glettinn og glaðvær og bjó yfir ríkri kímnigáfu sem átti það til að koma fram í góðlátlegri og græskulausri stríðni, sem aldrei særði.

Gulli var tilfinningaríkt og stundum viðkvæmt náttúrubarn og ég man að einhverju sinni, þegar hann sá fyrsta tjald sumarsins úti á túni, varð hann hálfklökkur um leið og hann sagði með sérstakri hlýju: „Tjaldurinn, hann var uppáhalds fuglinn hennar mömmu.“

Mér finnst þetta atvik lýsandi fyrir hve Gulla var eðlislægt að vera einlægur og falslaus. Hann átti auðvelt með að sýna tilfinningar sínar, ólíkt mörgum af hans kynslóð.

Á yngri árum fékkst Gulli töluvert við leiklist og hann hafði einstakan hæfileika til að muna heilu leikritin orðrétt frá upphafi til enda, auk þess að hafa á hraðbergi ógrynni ljóða og sagna sem hann virtist ekkert hafa fyrir að vitna í eða fara með. Dæmi um það var óundirbúinn flutningur hans á Gullna hliðinu, eftir eitt af uppáhaldsskáldum okkar beggja, Davíð Stefánsson, á fallegum sumardegi úti á túni í Hraukbæ, þar sem hann fór með öll hlutverkin af þvílíkri innlifun að það er mér enn jafn ferskt í minni, áratugum síðar.

Ég gæti haft þessi skrif miklu lengri, en held að Gulla fyndist þetta orðið alveg nóg af svo góðu, hann var ekki mikið fyrir að upphefja sjálfan sig.

Að lokum: Kæri Gulli, takk fyrir það sem þú gafst mér, af áreynslulausri hjartahlýju þinni, það verður mér sífellt meiri fjársjóður með árunum. Minningin um góðan mann mun fylgja mér alla tíð. Ég veit að það verður vel tekið á móti þér og þín bíða næg verkefni á nýjum sólríkum slóðum, þar sem ríkir eilíft sumar.

Sjáumst síðar.

Þinn frændi

Halldór Hjalti Kristinsson.